Alveg nafnlaust pár

Ég tapaði svo gjörsamlega eldmóðnum eftir að ég ákvað að fara að skrifa skapandi skrif, eins og ég var uppveðruð og spennt fyrir þessu.   Nú kemur ekki stafur á blað og ég þykist hafa um svo margt annað að hugsa í bili.   Ég er þó komin það langt á ritbrautinni að nú stari ég spekingslega út í loftið og segi sjálfri mér að ég þurfi bara að bíða eftir því að rétti andinn komi yfir mig.   – Enn hef ég ekki orðið vör við neinn anda, hvorki góðan né slæman. Ef eitthvað er, þá hefur það þó frekar verið slæmur andi sem hefur verið yfir mér því ég er þessa dagana að taka saman allan sjúkrakostnað ársins, til þess að setja á skattframtalið mitt.  Það er nú meira en að segja það að skoða allar þessar greiðslukvittanir og bera síðan saman við tveggja síðna yfirlitið frá TR yfir endurgreiðslur annars vegar og hvað sjúklingur hefur greitt sjálfur hins vegar.  Hjá TR eru nefnilega allt aðrar tölur yfir það hvað sjúklingur greiðir sjálfur og hvað TR greiðir. Það vill nefnilega svo til að sérfræðilæknar eru flestir samningslausir við ríkið og hafa hækkað sína taxta, á meðan TR er að miða greiðslu sjúklings eftir gömlum tölum, eins og sú staðreynd blasi alls ekki við að í dag borgar maður aukagjald í hvert skipti hjá sérfræðilæknum.  Tölur geta því engan veginn passað saman.  Ég er búin að hafa þetta fyrir framan mig í nokkra daga – búin að fá yfirlit yfir kostnaðinn í Apotekinu og það er allt gott og blessað,  en  þetta yfirlit frá TR og kvittanirnar mínar sem ekki passa saman, eru alveg að fara með sálarástand mitt. Ég vil nefnilega láta þetta passa alveg upp á punkt og prik –  sem er í raun alveg útilokað að geti gerst.

Mér finnst ég því bara hafa nokkuð góða afsökun fyrir því að vera ekki búin að gera alvöru úr skapandi skrifunum mínum  – hvernig er hægt að hugsa neitt skapandi með svona óreiðu fyrir framan sig. Eitt er víst, að mér finnst ekkert skapandi við þetta viðfangsefni sem ég hef fyrir framan mig og helst vildi ég láta þetta allt fjúka út um gluggan  – Ég er bara þrjóskari en fj… sjálfur svo ég ætla að þrauka aðeins lengur.

Annars er nú allt í besta standi hjá mér. Við Haukur vorum að skipuleggja ferð til Jótlands í vor til að heimsækja fjölskylduna hennar Hullu dóttur Hauks og það verður hressileg tilbreyting að skreppa út fyrir landsteinana í þá góðu heimsókn .  Svo er framundan núna í mars ferming Odds Vilbergs, afmæli Guðbjargar, þriggja barnabarna og það fjórða á afmæli 5 apríl . Það er því mikið um dýrðir í fjölskyldunni á næstunni.

Þessa mynd set ég inn svo þið sjáið að ég er ekki alveg mygluð hérna við skrifborðið.


Comments

2 responses to “Alveg nafnlaust pár”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *