Ó þú yndislega vor.

Já áfram líður tíminn. Nú heyri ég fuglana syngja hástöfum þegar ég fer í göngutúrana á morgnanna og það boðar bara að vorið sé í nánd. Í fyrradag var mér líka skemmt yfir krumma sem hoppaði með mér langa leið eftir „landamærastígnum“. Hann fór alltaf aðeins á undan, svona hálf flögraði upp eða tók flotta hoppið sitt og beið svo þangað til ég var að koma að honum þá fór hann aftur af stað. Að lokum nennti hann þessu ekki lengur og flögraði í burtu.  Ég man ekki eftir því nokkurn tíman á Íslandi að mér finndist komið vor í marz – nú  hefur það hinsvegar gerst og í gær settist ég meira að segja út á svalir í sólinni og naut þess að fá svolítið alvöru D-vítamín í kroppinn.  Í kvöld kom svo þessi líka  langþráða vorrigning sem vonandi hreinsar rykið af götum og gluggum.

——-

Ekki komst ég nú lengra með færsluna í gærkveldi því ég stökk upp frá tölvunni til þess að horfa á Útsvarið. Líklega hef ég stokkið of hratt upp af stólnum því það sem ég var með í huganum  að segja þeyttist eitthvert út í horn á heilabúinu og ég hef ekki fundið það aftur hversu mikið sem ég velti vöngum og hristi höfuðið. Sjálfsagt hefur það bara ekki verið merkilegra en svo að það hefur lent í hólfinu sem merkt er „Eyða þessu“.

Það er mikið að gera þessa dagana í alls konar veislufagnaði.  Fjórir afkomendur mínir hafa átt afmæli frá 19. marz og  búið er að ferma Odd Vilberg með tilheyrandi veislufagnaði. Aðra fermingarveislu förum við Haukur svo í seinna í mánuðinum. Í gær var ég í saumaklúbb og í dag í áttræðisafmæli ömmu hans Jóa hennar Sigurrósar. Svo halda veisluhöldin áfram því á morgun er haldið upp á þriggja ára afmæli Freyju Sigrúnar, ömmustelpu, á þriðjudaginn á svo Magnús Már tengdasonur afmæli og síðan er mér boðið í 100 ára afmæli eftir rúma viku.  Það er því ekki hægt að segja að maður sé beint að molna niður úr leiðindum þessa dagana.  Það er alltaf svo gaman að fá að gleðjast með öðrum  á svona tillidögum.

Hér er mynd af okkur Oddi Vilberg á páskunum, viku eftir ferminguna hans.

 Hér eru litlu strumparnir í heimsókn hjá ömmu.
Ragna Björk. Freyja og Ragnar Fannberg. 

og svo er mynd af okkur Karlottu.

 

Ég ætla að reyna að forðast það að tala um gömlu tíkina sem er sú leiðinlegasta sem hugsast getur, nefnilega þá sem kallast Pólitík. Hún bítur mann hægri vinstri svo ég ætla að forðast nefna hana.  Vona bara að það dúkki upp einhver áður ókunn, sem er vel vanin og passar að bíta ekki gamla fólkið og þá sem minna mega sín.

LIFIÐ HEIL

This entry was posted in Ýmislegt. Bookmark the permalink.

One Response to Ó þú yndislega vor.

  1. Ragna says:

    Ég hafði vistað þessa færslu sem drög en gleymt að setja hana inn í gær – Ég fann líka þrjár aðrar færslur sem enn voru vistaðar sem drög – en eru úreltar og verður eytt. Spurning hvort sú gamla á ekki að fara að hætta þessu – Humm.

Skildu eftir svar