Hjólbörudekkið.

Þar sem ég ákvað í vikunni að nú væri vorið komið, þá lá beinast við að láta taka þessi hundleiðinlegu nagladekk undan bílnum. – Ég hef séð eftir því í allan vetur að hafa látið setja þau undir í haust, en maður er alltaf að passa upp á að vera undirbúinn hverju sem er og hafa öryggið í fyrirrúmi. Ég skammast mín hinsvegar fyrir að hafa spænt upp göturnar í allan vetur með þessum nagladekkjum, því mjög sjaldan hafa komið þau veðurskilyrði að nagladekkja hafi verið þörf nema þá í örfáa daga. Nú var sem sagt ákvörðunin tekin og Haukur hjálparhella boðinn og búinn til þess að fara með bílinn í þessi skipti.
Daginn eftir gat ég því ekið á sumardekkjum í sjúkraþjálfunina. Þegar búið var að teygja mig og toga í sjúkraþjálfuninni og ég var komin aftur út í sólina, settist ég inn í bílinn og ók af stað út af planinu við gamla Borgarspítalann. Eitthvað fannst mér planið vera holótt og var að velta því fyrir mér af hverju ég hefði ekki tekið eftir því áður. Gæti verið sprungið á bílnum? Nei það var nánast útilokað því þetta var það fyrsta sem ég ók, eftir að sumardekkin síðan í fyrra voru sett undir bílinn og það bara daginn áður. Þegar ég ók inn á Bústaðaveginn var ég hins vegar alveg viss um að það hlyti að vera sprungið, en þegar þangað var komið gat ég hinsvegar hvergi stoppað nema valda mikilli slysahættu. Ég valdi því að aka út að Grímsbæ – sem var alveg skelfilegt eftir að ég þóttist viss um hvað var að.

Það var sem ég hélt að dekkið var alveg vindlaust. Hvað skyldi nú til bragðs taka? Jú að hringja í Hauk. Hann var staddur í Kleppsholtinu og sagðist koma strax.  Ég hefði aldrei getað skipt um dekk sjálf og eru margar ástæður fyrir því, en ein er sú hvað boltar sem þeir herða á dekkjaverkstæðunum eru svakalega mikið hertir. – Það er sama hversu gjarnan konur myndu vilja bjarga sér sjálfar í svona tilfellum, þá væri það ekki mögulegt nema þá kannski fyrir kraftlyftingarkonur. En auðvitað tókst Hauki þetta. Ég fékk hins vegar hláturskast þegar hann dró varadekkið upp úr dekkjageymslunni í skottinu og mikið sé ég eftir því að hafa ekki látið mér detta í hug að taka mynd. Varadekkið er nefnilega lítið stærra en hjólbörudekk, mjótt og alveg skærgult á litinn. Greinilega ekki ætlað til að aka á því nema að því verkstæði sem næst er.  Ég var sem betur fer með sólgleraugu, en gjarnan hefði ég líka viljað vera með barðastóran hatt, þegar ég ók aftur út í síðdegisumferðina á bílnum svona útlítandi.

Ég reyndi svo á leiðinni, að setja saman ræðuna sem ég ætlaði að halda yfir þeim á verkstæðinu. Sá sem ég talaði við fyrst sagði að dekkið væri örugglega ónýtt fyrst ég hefði orðið að aka á því sprungnu. Ég sagði að þá yrðu þeir að láta mig fá nýtt dekk því dekkið væri svo nýlegt. Þetta hlyti að vera einhver handvömm frá dekkjaskiptunum daginn áður. Nei, nei, ventillinn  hefur örugglega gefið sig, héldu þeir fram. Þeir blésu því lofti í dekkið og létu það í vatn til að sannreyna að þetta væri ventilinn, en hann var bara í fínu lagi og það fannst ekkert að dekkinu. – Það kom sem sagt í ljós að þeir hefðu flýtt sér einum of mikið við skiptin, svo dekkið féll ekki alveg að felgunni og hafði smá lekið úr því þar til ekkert loft var eftir.  

Ekki báðu þeir einu sinni afsökunar á handvömminni og ég get alveg eins búist við því að þetta dekk dugi ekki eins og til stóð, þar sem það hefur veikst við að aka á því loftlitlu og svo loftlausu.
Að ég nú tali ekki um að láta fína frú aka um götur borgarinnar með eitt dekkið skærgult hjólbörudekk og það í aðal umferðinni. 

 


Comments

2 responses to “Hjólbörudekkið.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *