Börn alltaf svo skemmtileg.

Þó að sólin hafi skinið glatt og sýnst vera svo hlýtt og gott veður síðustu dagana, þá hefur kuldaboli nú aldeilis legið í leyni og bitið fast þegar þeir kári hafa sameinast í að ráðast á gangandi vegfarendur, annar með 6°frost og hinn með vindkælinguna.  Ég var ekki á því að láta þá bíta mig aftur í bili svo í gær og í dag hef ég valið íþróttamiðstöðina í Kór til þess að ganga í.

Það voru krakkar úr Vatnsendaskóla í leikjum á sjálfum grasvellinum þegar ég kom, en eftir að þeirra tíma lauk var ég ein í salnum þangað til ég sá síðan að það voru bæði börn og fullorðnir að koma sér fyrir uppi á áhorfendapöllunum. Ég lét það ekki trufla mig og hélt áfram göngu minni enda átti ég enn nokkra hringi eftir. Ég velti þó fyrir mér hvað fólkið væri komið til að fylgjast með því ég var alein í sjálfum salnum og það veit Guð að ég var ekki búin að auglýsa neitt atriði eða skemmtun og varla var fólkið kallað út til þess eins að sjá gamla konu rölta þarna hring eftir hring og gera furðulegar höfuðæfingar öðru hvoru. Þegar ég kom úr einum hringnum og var undir áhorfendapöllunum gægðist lítil stúlka út um rimlana, kallaði til mín og spurði hvað ég væri að gera – Ég staldraði aðeins við og sagðist vera að ganga því það væri svo gott að hreyfa sig.  Þá sagðist hún heita Lilja og vera í leikskóla en það væri verið að sýna þeim hvar þau ættu að fara í íþróttir þegar þau færu í skóla. Svo bætti hún við, “þú ert alveg eins og amma mín , með svona gleraugu og hár, en þú ert samt ekki amma mín” 🙂  Þegar ég kom úr næsta hring voru fleiri sem stóðu við rimlana þarna uppi á áhorfendapöllunum og einn drengurinn spurði af hverju ég væri að ganga svona mikið og flýta mér svona mikið að ganga.  “Ertu ekki rosalega þreytt að ganga svona marga hringi”. Nei ég sagðist bara hætta þegar ég yrði þreytt, svo kvaddi ég þau og kláraði síðasta hringinn fyrir rimlaæfingarnar. Ég fékk þó enga áhorfendur við rimlaæfingarnar mínar því rimlarnir eru á veggnum undir áhorfendastúkunni og var ég þakklát fyrir það.
Ég heyrði að karlmaður kallaði þarna uppi og sagði að það yrði enn smá bið. Þegar ég var síðan á leiðinni út sá ég að hópur barna var kominn í röð á ganginum tilbúin að ganga niður í salinn og líklega hafa þar verið komnir þeir sem áttu að sýna listir sínar. Ég hef sem sagt verið svona upphitun fyrir aðal listamennina – ekki amalegt það.  En, ég tel mig vera búna að gera góðverk dagsins því börnin höfðu þó eitthvað að fylgjast með og spá í á meðan þau þurftu að bíða eftir rétta prógramminu.  Þetta lífgaði líka upp á stundina hjá mér því það er fátt skemmtilegra en að ræða við börnin, sem alltaf eru jafn einlæg og vinda sig bara beint að því að spyrja að því sem þau vilja fá að vita.


Comments

3 responses to “Börn alltaf svo skemmtileg.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *