Öðruvísi föstudagur – brúðkaup.

Ég get ekki kvartað yfir því að þessi vika hafi verið viðburðarsnauð. Því hún byrjaði á að við fórum í afmælisboð á sunnudaginn, síðan var ég í vinkonuhitting einn daginn, fermingarveislu á sumardaginn fyrsta og eftir það  kom  mjög svo viðburðarríkur föstudagur.

Í vikunni hringdi Guðbjörg og spurði hvort við værum nokkuð upptekin á föstudeginum. Hún sagðist vera að hugsa um að í tilefni af því að við hittumst ekkert á sumardaginn fyrsta og foreldrar Magnúsar Más væru að koma að norðan, þá kæmum öll í mat í Ásakórinn á föstudaginn og fínt að koma bara svona klukkan fimm til að hafa lengri tíma til að spjalla í rólegheitunum. Sigurrós ætlaði líka að koma, en líklega bara ein,  “..svo það verði nú ekki of mikill erill á litlu krökkunum öllum saman og þið gömlu getið spjallað saman í næði!”  Jú, þetta hljómaði allt vel og ég hlakkaði til að mæta. Guðbjörg hefur áður kallað okkur saman þegar þau foreldrar Magnúsar Más koma að norðan svo ég vissi að þetta væri bara svona venjulegt óformlegt matarboð á virkum degi.  Ég var því bara snyrtilega til fara, í buxum,bol og jakkapeysu utanyfir.  Mér fannst engin ástæða til þess að vera neitt að dressa mig upp frekar en venjulega  í svona óformlegan hitting. En þegar Magnús Már kom til dyra, þá var hann svo fínn að mér varð á orði: “Þú ert svo fínn – eins og þú ætlir að fara að gifta þig” hann bara brosti, kyssti mig á kinnina eins og hann er vanur og bauð okkur inn. Guðbjörg kom síðan og ég sá að hún var líka svo fín í hvítum stuttum búndukjól, flott um hárið og svo fallega snyrt og strákarnir þrír, Oddur Vilberg, Ragnar Fannberg og Bjarki Már sonur Magnúsar voru allir svo fínir. Það var ekkert skrýtið að sjá ekki Karlottu því hún er í MA og við áttum ekki von á að hitta hana. Ég byrjaði auðvitað á því að afsaka að ég hefði ekkert puntað mig og þá sagði Guðbjörg að það hefði ekkert átt að gera það og ég sá svo þegar ég hitti þau Rögnu og Magnús að þau voru bara klædd svona eins og við. 

Enginn grunur vaknaði um að eitthvað sérstakt stæði til þrátt fyrir augljósar vísbendingar og við hefðum auðvitað átt að sjá að eitthvað var öðru vísi en venjulega. Það var t.d. búið að leggja svo flott á borð, eins og sjálf  jólin væru komin og þau heimilisfólkið voru öll svona líka fín.
Jæja, við settumst bara í stofuna hjá þeim að norðan og vorum að byrja að spjalla saman, þegar Sigurrós settist við píanóið og byrjaði að spila – Mér fannst þetta frekar skrýtið því hún er ekki vön að setjast og fara að spila á píanóið þarna þegar fólk situr og er að tala saman. Ég sneri mér að henni og fór að tala um hvað þetta væri fallegt lag. Svo tók ég eftir því að þau sem sátu í sófanum horfðu undrunaraugum fram að holinu og ég leit svona aðeins til hliðar og sá fyrst neðst á svona ljósan síðan kjól og datt í hug að nú ætlaði Oddur eitthvað að fara að sprella í okkur. Ég leit svo ofar og sá þá að inn í stofuna gekk presturinn okkar hérna í Lindakirkju með Guðsorðabók í hendinni. Það var engu líkara en að hann hafi dottið af himnum ofan, því dyrabjallan hringdi ekkert og enginn hafði farið til dyra eða opnað fram í forstofuna – en hvað sem öllu leið þá gekk presturinn inn í stofuna.
– Ég leit aftur á þau nöfnu mína og Magnús sem sátu í sófanum á móti mér og á Hauk og sá að þau voru öll eins undrandi og ég. – Við vorum sem sagt öll með hökuna niðri á bringu af undrun. Sigurrós hélt áfram að spila lagið þar til presturinn, Guðbjörg og Magnús Már voru búin að stilla sér upp við arininn.  Þá loksins fór að rofa almennilega til í heilabúinu því ekki var um villast að hjónavígsla væri að hefjast.  Presturinn byrjaði á því að segja að það hafi greinilega heppnast vel að koma foreldrunum á óvart því undrunarsvipurinn á andlitunum undirstriki það svo sannarlega.  Síðan fór fram afskaplega falleg og látlaus hjónavígsla. Ragnar litli afhenti þeim hringana og við sungum að lokum saman “Í bljúgri bæn”.

Eftir athöfnina sagði Magnús tengdafaðir Guðbjargar að sér þætti sérstaklega vænt um að þau hefðu valið þennan sálm, því hann ætti sérstakar minningar um það þegar sálmurinn var saminn. Þá hafi hafi hann unnið við sumarbúðirnar við Vestmannsvatn og hafði Magnús Má, sem þá var strákpolli, með sér. Á þessum tíma hafi séra Pétur Þórarinsson, prófastur í Laufási einnig verið þar og var þá einmitt að semja þennan fallega sálm á kvöldin þegar orðið var rólegt og þá bar hann gjarnan ýmislegt varðandi textann undir Magnús og þeir veltu þessu saman fyrir sér.

Hér eru brúðhjónin  sem  komu okkur svona á óvart. 

Megi hamingja og gleði fylgja þeim um alla framtíð. 

Smá skýringar í lokin.
Það höfðu verið miklar pælingar í gangi milli brúðhjónanna og prestsins um það hvernig best væri að framkvæma þetta svo foreldrana grunaði ekki neitt. Fyrst var talað um að presturinn biði bara úti í bíl og kæmi svo inn og skrýddist kyrtlinum, en þá voru þau hrædd um að þegar dyrabjallan hringdi og síðan kæmi prestur inn, þá yrðum við kannski hrædd um að hann færði slæmar fréttir og eitthvað hefði kannski komið fyrir Karlottu fyrir norðan. Það var því ákveðið að presturinn kæmi á staðinn nokkru fyrir klukkan fimm og yrði lokaður inni í herbergi Karlottu þar til athöfnin færi fram. Hann var því á staðnum þegar við mættum.  Ha,ha,ha, eins gott að amma ætlaði ekkert að fara að hnýsast inn í Karlottu herbergi 🙂   Þetta var allt snilldarlega framkvæmt.

Karlottu stóð til boða að koma að norðan, en hún var eitthvað slöpp þegar mamma hennar hringdi og bauð henni að koma og treysti sér einhvernveginn ekki til að koma og á föstudeginum var hún lögst í flensu með mikinn hita, svo hún var fjarri góðu gamni því miður og við söknuðum hennar mjög.

Ég sem oft er kallaður paparazzi, áttaði mig ekki einu sinni á því að taka myndir fyrr en presturinn var farinn og allt búið –  sat bara þarna og hafði ekki rænu á neinu, en sem betur fer tók Bjarki Már upp myndband.   Ég er sæl og glöð yfir þessari ákvörðun þeirra Guðbjargar og Magnúsar Más að láta verða af því að gifta sig. Það er svo oft með fólk sem hefur búið lengi saman að það lætur ekki verða af því að ganga í hjónaband.  Nú á ég tvo löggilta tengdasyni og líkar mér það vel.   Ég hefði hinsvegar ekkert á móti því að endurtaka þetta svo ég gæti verið meira með á nótunum 🙂


Comments

6 responses to “Öðruvísi föstudagur – brúðkaup.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *