Ég á eins árs afmæli.

Já, í dag fagna ég eins árs afmæli, því nú er komið eitt ár frá því að ég fór í stóru aðgerðina mína í fyrra. Þann 15. júní í fyrra setti ég síðan eftirfarandi póst hér inn á bloggið mitt:

„Jibbí!  Ég vissi að það borgaði sig að vera jákvæð allan tímann og taka ekki út neinar áhyggjur fyrirfram.

Ég hitti sem sagt lækninn í dag .  Hann gaf mér góða einkunnog sagði að það hefði verið góð ákvörðun hjá okkur að taka allt brjóstið …..  Nú þarf ég því bara að vera undir góðu eftirliti og  taka eina hormónatengda töflu á dag í 5 ár.  Mikið vildi ég að engin kona þyrfti að fara í gegnum meiri meðferð en svona, en því miður er það nú ekki mitt að fá að ráða því.

Ég er hins vegar mjög ánægð og hvílíkt þakklát. Þakklát forsjóninni fyrir að hnippa í mig en fella mig ekki, þakklát ykkur öllum fjölskylda mín og vinir fyrir allan ykkar góða stuðning.  Þakklát lækna- og hjúkrunarteyminu sem hefur annast mig  Ég vil helst að brjóstamóttakan og þau öll á 10E  fái sæmda Fálkaorðu því þar fer hvílíkt einvalalið.

Nú er ég eins og ég hafi unnið Oscars verðlaunin, nema hvað þetta er miklu mikilvægara.
Betri fréttir gat ég ekki fengið…“

Enn er ég svo óendanlega þakklát fyrir hvað allt hefur gengið vel og enn get ég sagt  Jibbí! Landspítalafólkið hefur borið mig á höndum sér og gerir enn.  Ég hef reyndar ekki getað tekið 5 ára lyf vegna ýmissa annmarka, en breytti um mataræði og reyni þannig að hjálpa til sjálf með því að lifa eins heilbrigðu lífi og mér er unnt  Ég fékk niðurstöðu úr segulómun í morgun sem segir að allt sé í stakasta lagi eftir þetta ár og ekkert nýtt komið fram.   Ég segi TAKK.  Takk fyrir lífið og fyrir allt þetta góða fólk,  læknateymin, fjölskyldu og vini.

Ég opnaði Gullkornabókina mína áðan á þessari lesningu  sem er hverju orði sannari:

Að ná aftur heilsu með stuðningi ástvina
og annars góðhjartaðs fólks færir okkur hamingju. 

 

This entry was posted in Helstu fréttir., Ýmislegt. Bookmark the permalink.

8 Responses to Ég á eins árs afmæli.

  1. Hipp hurrey mín kæra.

  2. Katla says:

    Jíbbíkóla mín kæra, tilefni til að gleðjast yfir.

  3. Sigurrós says:

    Þú ert flottust, elsku mamma mín 🙂 Haltu áfram að vera hress og njóta þess að vera til. Til hamingju með áfangann!

  4. Þórunn says:

    Til hamingju með árið og góðan árangur af meðferðinni. Það er sannarlega tími til að gleðjast yfir lífinu og ástvinum sem gera þetta allt léttara.
    Ég samgleðst þér innilega.
    Þórunn

  5. Hildur says:

    Ragna mín, góðar fréttir samgleðst þér hjartanlega. Danmerkurferðin hefur líka verið skemmtileg hjá þér.
    Kær kveðja og sjáumst síðar.

  6. Ragna says:

    Þakka ykkur öllum fyrir kveðjurnar kæru vinkonur og dóttir.

  7. Guðmundur Hall says:

    Ágæta Ragna, fyrst samgleðst ég með þér að hafa náð góðum bata, annað er að ég var að lesa um ömmuhafrakexið þitt sem mig langar að prófa að baka, þú talar um í verklýsingunni að bæta eggjunum út í en það eru engin egg í uppskriftinni, svo gott væri ef þú vildir vera svo góð að bæta eggjunum ínn á … Kærar kveðjur Guðmundur

  8. Ragna says:

    Guðmundur Hall,
    Ég fór að leita uppi þessa uppskrift sem mamma mín gaf mér á sínum tíma, en ég hef ekki notað hana lengi því fyrir ári þá hætti ég að borða allt með mjöli og sykri.
    Ég bið þig að fyrirgefa að það skuli vera þessi villa með eggin í aðferðinni. Málið er að ENGIN egg eru í uppskriftinni og ég þarf því að laga þetta í hvelli.
    Gangi þér vel með þetta og takk fyrir að nota uppskrift frá mér og láta mig vita af þessari misvísun.

Skildu eftir svar