Hugleiðingar í árslok 2003.

Já, þau nálgast óðfluga áramótin en á morgun er síðasti dagur ársins. Það er ýmislegt sem fer í gegnum hugann þegar litið er yfir árið sem nú kveður.

Þetta hefur verið gott ár í flestu tilliti.

Árið var varla byrjað þegar ég var komin með ungling þegar hún Dana María afastelpa Hauks var hjá mér í nokkra mánuði en hún var í skóla hérna á Selfossi. Það var mjög ánægjulegt og ekki kynntist ég því hvað unglingar eru hræðilegir eins og maður hefur heyrt. Það var öðru nær
Veðursæld hefur verið með eindæmum allt þetta ár, ef frá er talin snjókoman í gær sem lokaði Hellisheiðinni og eyðilagði þar með fyrir mér að komast í 50 ára afmælið hans Smára hennar Rutar.

Það lítur út fyrir að snjókoman núna sé samansafn snjókomu sem hefur átt að dreifast í smáskömmtum á síðast liðnum vetrum. Ég rifjaði upp að um mánaðamótin nóv./des. í fyrra voru t.d. skrúðgrænar þökur lagðar hérna á lóðina hjá mér og þær héldust grænar í allan fyrravetur. Maður hefur óskað eftir jólasnjó hvert ár svo nú held ég að sá sem ræður veðri og vindum hafi ákveðið að það væri best að láta okkur þá bara fá þennan blessaða snjó sem við værum alltaf að óska eftir. Við myndum þá kannski hætta að vera alltaf að þessu suði.

Vorið var einstaklega gott og ekki spillti sumarið. Það var varla að við Haukur kæmum í hús eftir að við fengum blessaðan sólpallinn. Guðbjörg og fleiri voru hætt að hringja hjá okkur dyrabjöllunni og bíða við útidyrnar heldur fóru beint bak við hús því þar hlytum við að vera. Og mikið rétt þar héldum við okkur. Það var lítið um ferðalög hjá okkur í sumar. Við fórum bara svona í smáferðir.  Í ágúst fór ég svo, á einum af þessum einstaklega fallegu dögum, í stórafmæli til hennar Eddu Garðars en það var haldið í sumarbústað í Reykjaskógi Það var alveg rosalega skemmtilegt enda aldrei nein lognmolla þar. Í haust fórum við Haukur svo austur á land með viðkomu á Akureyri. Við Guðbjörg skruppum síðan í heimsókn til vinafólks á gömlum slóðum í Englandi. Ingunn mágkona mín var hér á landi s.l. haust og við áttum saman góðar stundir þegar hún heimsótti mig hérna í dreifbýlið. Ég hefði viljað hafa hana lengur en það er erfitt að skipta sér á milli margra því allir vilja hafa hana hjá sér. Erna systurdóttir mín kom líka frá Bornholm tvisvar þetta árið. Fyrra skiptið, í sumar, var ekki nein skemmtiferð en þá kom hún til þess að fylgja mömmu sinni til grafar. Hún stoppað aðeins hjá mér og gisti hérna á Selfossi og við heimsóttum Eddu í sumarbústaðinn. Núna um jólin kom hún hinsvegar aftur til landsins og Ívar með henni. Tilefnið var nú að vera í 50 ára afmælinu hans Smára, þessu sem ég missti af vegna ófærðarinnar. Sem betur fer voru þau búin að koma hérna í heimsókn um jólin með Rut og Smára annars hefði ég alveg misst af að hitta þau því þau stoppuðu stutt að þessu sinni.

S.l. vor útskrifaðist Sigurrós úr Kennaraháskólanum og er nú orðin kennari við Hlíðaskóla.  Ég sé, að ég verð líklega að hætta að vera að potast í hlutverki uppalandans nú þegar dæturnar eru báðar orðnar Háskólamenntaðar í uppeldisfræðunum. Þó ég segi sjálf frá þá eru þær nefnilega bara sæmilega vel upp aldar og vel sjálfbjarga. En það er alveg ótrúlegt að vera mamma, manni rennur alltaf blóðið til skyldunnar.

Karlotta byrjaði sína skólagöngu í haust en Oddur Vilberg á enn eftir tvö ár til að komast á skólabekk. Það er kannski eins gott því hann er nú svoddan æringi að honum veitir ekkert af tveimur árum til þess að reyna að komast niður á jörðina. Hann vill bara fíflast og er mesti stríðnispúki og brosir svo bara sínu blíðasta. Hann kann alla vega vel á hana ömmu sína. Veit hvað hann getur gert sig ómótstæðilegan til þess að fá gott knús þegar hann ætti kannski að fá ávítur. Karlotta tekur hlutunum af miklu meiri alvöru.  Ég fékk hana lánaða til þess að gista hjá ömmu í nótt því líklega verður hún um áramótin hjá pabba sínum en það er í fyrsta skipti síðan hún fæddist sem hún verður ekki með okkur á gamlárskvöld. En, svona er lífið.

Það er aldrei svo að ekki falli einhverjir skuggar og einn slíkur féll í sumar þegar við þurftum að kveðja hana Dússý systur. Annar slíkur kom nú í vetur þegar hún Ása móðursystir dó. Báðar hugsa ég samt að hafi verið fegnar vistaskiptunum.

Nú vonum við bara að Guð gefi okkur nýtt og gott ár og auki okkur þroska til að gera það besta úr þeim tækifærum sem við höfum til þess að láta okkur og samferðarmönnum okkar líða vel.

Ég óska öllum vinum mínum og vandamönnum árs og friðar á komandi ári. Vonandi gefast mörg tækifæri til þess að rækta frændsemi og vinarhug.

 

Heyrumst/sjáumst á nýja árinu.

This entry was posted in Ýmislegt. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar