Að fóðra leiðindapúkann.

Sem betur fer tel ég mig frekar jákvæða manneskju, en svo náði leiðindapúki tökum á mér í síðustu viku og hefur alveg verið að fara með mig.  Ég áttaði mig síðan á því síðdegis í gær að ég yrði að taka sjálfa mig í gegn og hætta að hugsa um óraunhæfar væntingar í stað þess að magna þær upp. Ég yrði að grípa til ráðstafana, losa mig við leiðindapúkann og sætta mig við  lífið og tilveruna eins og hún er.
Það kemur í raun á óvart hvað það er auðvelt að magna upp í sér svona ólund  án þess að taka beint eftir því hvað er að gerast. Maður er bara vansæll og leiður yfir einhverju eða væntingar sem maður hefur haft ganga ekki eftir. Það sem gerist síðan er að maður heldur áfram að fóðra leiðindapúkann með fleiri neikvæðum hugsunum og eflir hann til muna. Það endar svo með því að maður leyfir leiðindapúkanum að leika lausum hala og hann úðar neikvæðninni yfir þá sem í kringum hann eru. Þá loksins opnast augu manns fyrir því að nú er komið meira en nóg og púkann þarf að losa sig við – strax.
Enn einu sinni þarf að minna sig á að það leysir engan vanda að vera neikvæður og ekkert – alls ekkert breytist til hins betra á meðan neikvæðni ríkir í huganum.

Eftir að átta sig á því hvað maður er að gera sjálfum sér er mál að grípa í taumana, gera hreint fyrir sínum dyrum og taka síðan aftur gleði sína.  Það er ótrúlegt hvað það eru oft til þess að gera litlir hlutir sem geta opnað leiðindapúkum greiða leið að hugarfylgsnum manns. Svo koma stóráföll og þau eru tekin á jákvæðu nótunum og maður stappar í sig stálinu, eins og stóra krabbameinsaðgerðin í fyrra sem ég tók af mikilli jákvæðni og lét engan bilbug á mér finna og mörg áföll sem hefðu átt að leggja mann í rúst hefur maður staðist með jákvæðni.  Já það er merkilegur þessi hugur og hvernig maður fer með hann.

Ekki þurfti ég nú merkilegra tilefni að þessu sinni, en það að detta niður í fýlu út af sumri sem mér finnst  hafa glatast. Ég var búin að gera mér þær væntingar að vinna upp orku í sumar til þess að  koma mér í betra form eftir veikindin í fyrra, ferðast mikið og gera eitthvað skemmtilegt. Sumarið í fyrra fór svona fyrir ofan garð og neðan vegna veikindanna, en strax í vor var ég farin að hlakka til að fá að ferðast innanlands og sérstaklega að komast í fyrirhugaða ferð um norðurlandið og skoða staði sem ég hef ekki skoðað.  Já mér fannst ég bara eiga það svo mikið skilið að gera eitthvað skemmtilegt.

Í vikunni hef ég verið að magna upp í mér leiða yfir því að sumarið kom og sumarið fór, en sumarleyfisferðin var aldrei farin og aðeins þrisvar var tækifæri til að skreppa í nærsveitir og gista yfir nótt.  Já það er nú ekki merkilegra en þetta sem hefur alveg verið að fara með mig. Þetta þykir sjálfsagt ekki tilefni til þess að fara í fýlu yfir, væntingar mínar hafa bara verið of miklar,  meiri en aðstæður leyfðu.

Í gær sá ég að ég gæti ekki verið að dekra meira við vorkunnsemina við sjálfa mig og syrgja drauma sem ekki rætast að sinni. Liðnum tíma getur maður ekki breytt, hvað sem maður fer í mikla fýlu og fyllir sig af neikvæðni.  Til þess að þola samvistir með sjálfum sér verður jákvæðni að ríkja. Það var því tími til kominn að losa sig við fýlu og neikvæðni og gleðjast yfir því að fá að vera þátttakandi í lífinu, því það fá ekki allir tækifæri til þess. Nú snýr maður sér bara brosandi að haustinu  🙂

Ég finn til með þeim sem falla djúpt og lengi í neikvæðni, því þessir fáu dagar voru mér mikið meira en nóg.


Comments

One response to “Að fóðra leiðindapúkann.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *