Af hverju ekki ég – svona er bara lífið.

Ja kæru vinir það er margt skrýtið í kýrhausnum og það er líka margt skrýtið í mannslíkamanum.  Hvorttveggja er sköpunarverk sem við ráðum engu um hvernig eru af Guði gerð.  Það eina sem við ráðum yfir er viskan sem okkur hefur verið gefin til þess að fara vel með líkamann sem okkur hefur verið gefinn til margvíslegrar notkunar og sem hulstur til að geyma í okkar sál og hjarta.

Ég tel mig hafa farið mjög vel með minn líkama og aldrei mettað hann af reyk, ofáti eða áfengi í gegnum tíðina og farið með hann í allar skylduskoðanir svona eins og ég hef gert með bílinn minn, en ég hef ekki frekar en hann komist viðhaldsfrí í gegnum lífið, enda ekki sanngjarnt að fara fram á það.  Auðvitað höfum við bæði látið á sjá eftir margra ára notkun og þurft að fara í ýmsar viðgerðir eins og við er að búast.
Ég hef verið mjög heppin með þær viðgerðir sem  hafa verið gerðar á mínum líkama og einnig með læknana sem hafa framkvæmt þær. Í tveimur þeirra þurfti snör handtök  þegar viðgerðin var upp á líf og dauða,  en allt gekk vel því líkami minn vildi ekki gefast upp  heldur halda áfram að nýtast eiganda sínum.

Segir ekki máltækið “Allt er þá þrennt er”, sem þýðir að enn á ég fleiri líf eins og kötturinn.   Nú ætla ég að nota mér það því ég stend á þeim tímamótum í dag að ég hef fengið krabbamein í brjóstið og það á að fjarlægja strax og allt liggur klárt fyrir. Ég á enn eftir að fara í segulsneiðmynd, en hún er að tefjast af því ég hafði lent inni á spítala á Tenerife og þurfti því að fara fyrst í svokallað Mósapróf sem er skylda að fara í ef maður hefur lent inni á sjúkrahúsi í öðru landi innan sex mánaða. Ef  þessi Mósaprufa kemur út neikvæð og mér hagstæð getur ferlið haldið áfram og  styttist þá í aðgerð.

Mér hefur verið gefinn sá styrkur, eins og svo oft áður að síðan ég vissi þetta  um miðjan mánuðinn hef ég verið alveg sallaróleg og er enn.  Ég ætla ekki, ef ég fæ einhverju um það ráðið,  að eyðileggja mig á því að taka út dramatík og kvíða fyrirfram, því ég er ekki vön slíku.  Ég vil ekki eyðileggja líf mitt á því að kvíða einhverju sem er alveg óljóst hvort ástæða er til að kvíða.  Ég veit ekkert um framhaldsmeðferðina fyrr en eftir skurðaðgerð og ef ég þarf að standa frammi fyrir erfiðu framhaldi þá tekst ég við á það þegar að því kemur. Nú er þetta í höndum Guðs og góðra lækna – og ekki er verra að eiga dásamlega fjölskyldu og vini sem halda þétt utan um mig.

Ég ætla líka að hafa Pollýönnu með mér á þessu ferðalagi því hún finnur alltaf ljósu punktana og vonandi hjálpar hún mér að tapa ekki húmornum því hann er líka svo góður félagi og ég vil að hann fái að njóta sín. Ég býst við að setja öðru hvoru inn í dagbókina mína og vona að þau Pollýanna og húmorinn hjálpi mér til þes að geta haft hana á jákvæðu nótunum.  Svona verkefni er hinsvegar alveg óskrifað blað í minni sjúkrasögu svo ég veit ekkert hvernig sálarástand mit verður – ég veit bara hvernig ég vil að það verði.

Nú skín sólin og hér skal bjartsýnin ráða þangað til og ef annað kemur í ljós. – Eitt er víst, ég ætla að koma sem sigurvegari úr þessari glímu.

Þið sem kannski kíkið hérna inn – endilega smellið á “Leave a comment” og leyfið mér að sjá hverjir koma hérna í heimsókn.


Comments

36 responses to “Af hverju ekki ég – svona er bara lífið.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *