Allir að láta mig hafa góðar upplýsingar.

Já það hjálpast allir að til þess að ég nái fullri heilsu. Frænka mín á Bornholm er búin að senda mér bók um óhefðbundnar lækningar. Ég hef í höndum dagbók sem ég fékk frá konu sem er búin að fara í alla meðferðina, í gærkveldi var stórfróðleg mynd á RUV eftir 10 fréttir  og í fyrrakvöld fengum við Haukur nærri tveggja tíma fyrirlestur frá nágranna á hæðinni hérna fyrir neðan.

Þannig er, að ég þurfti að fá samþykki hinna íbúanna hérna í stigaganginum því ég vil losna við gjaldkerastörf húsfélagsins á meðan  ég  verð í veikindastússinu og þurfti því að tala við aðra nágranna vegna þess.  Þegar kom að því að láta ungu hjónin hérna niðri vita, þá kom húsbóndinn til dyra og þegar hann heyrði erindið þá spurði hann af hverju ég vildi losna við þetta þá sagði ég honum ástæðuna. Hann horfði þá í augun á mér og sagði, ” Ég veit að ég get hjálpað þér, ef þú hefur tíma núna þá skal ég koma upp og segja þér svolítið merkilegt”

Hann nágranni okkar talaði við okkur í  nærri því tvo klukkutíma um breytt mataræði og að töku D vítamíns og Omega3 í stórum skömmtum og taka einnig Magnesium. Hann var alls ekki með neinn áróður heldur skýrði vel hvers vegna  ákveðinn matur væri skaðlegur líkamanum, en sagði aldrei  “þetta áttu að borða og þetta ekki”. Það sem mér fannst svo merkilegt þegar hann var að skýra út ýmsa sjúkdóma sem gætuu orsakast af t.d. neyslu á kornvörum, mjólk, baunum o.fl.  var að þessi maður, sem ekkert þekkir mig  nema rétt til að heilsast og tala um daginn og veginn í stigaganginum,  taldi upp nánast allt sem hefur verið að mér, magabólgur, vefjagigt, astmi og nú krabbameinið og fleira. Svona nokkuð opnar augu manns og heildarmyndin liggur ljós fyrir.

Það er t.d. langt síðan ég byrjaði að prufa t.d. að borða bara hrökkbrauð eða einhver sérstök heilsubrauð, því ég hef alltaf orðið svo uppþembd af að borða brauð og sama gildir um allan baunamat. Ekki datt mér í hug hvað það gerði mér illt þó ég hlustaði ekki á það sem líkaminn var alltaf að reyna að segja mér, heldur hélt ég áfram að leita að nýrri og nýrri brauðtegund og lét mig hafa það að líða illa eftir að borða það.  Augu mín bara opnuðust loksins og ég hef ekki sett kornmat eða brauð inn fyrir mínar varir síðan þarna um kvöldið og líður bara vel.

Hann nágranni minn hefur lesið allt sem hann hefur fundið á netinu um mataræði sem kallast Paleo Diet og allar þær rannsóknir sem vitnað hefur verið í til þess að sannreyna sjálfur það sem hann hafði heyrt og lesið. Það sem gerði að hann lagðist í þessa rannsóknarvinnu var að dóttir hans hafði svo mikið fæðuofnæmi svo honum fannst hann þurfa að kynna sér og rannsaka allt sem vikom mat. Han lánaði mér síðan bók sem heitir: The Paleo Solution eftir Robb Wolf útgefið af Victory Belt Publishing.

Ég er byrjuð að lesa bókina og sé að það er ekki bara fróðlegt að lesa hana heldur er hún stórskemmtilega skrifuð og á ágætis ensku talmáli. Ég ætla að panta hana því þetta er bók sem ég vil eiga.

 

 


Comments

One response to “Allir að láta mig hafa góðar upplýsingar.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *