Alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast á meðan beðið er.

Ég  átti fína helgi og fór í skemmtilega fermingarveislu á laugardaginn austur í Grímsnesi. Haukur átti afmæli sama dag og fékk aldeilis gómsætar veitingar í veislunni. Hann hefði líklega ekki fengið mikið af tertum heima hjá sér því  því bakarinn á heimilinu er ekki mikið að baka þessa dagana, borðar ekki  neitt úr mjöli, hveiti eða korni og svindlar ekki á því. Ég stóð mig fínt í fermingarveislunni, fékk mér ekkert nema pínu sneið af kókosmjölstertu og ekkert annað.  Borðaði bara það sem ég mátti borða áður en ég fór og tók svo sjálfa mig á sálfræðinni og bannaði að svindla – maður verður að gegna sjálfum sér það er sko alveg skilyrði.  Á sunnudaginn kom svo Borghildur í kaffi og þá bakaði Haukur pönnukökur og ég skrapp til hans Reynis bakara og viti menn, hann var búinn að baka fyrir mig þessa líka fínu eplaköku. Ég smakkaði hvorugt, en viðurkenni að það kítlaði bragðlaukana að finna pönnukökuilminn.

 

Á sunnudagsmorguninn fórum við Guðbjörg, Magnús og Ragnar Fannberg í gönguna Göngum saman í Laugardalsgarðinum. Við hittum síðan Sigurrós og stelpurnar sem voru að koma úr mömmuhitting í einhverju húsi annars staðar í garðinum. Það var kalt, en mjög hressandi og gaman að rölta þennan spöl.

 

 

 

Ég átti svo að hitta lækni enn einu sinni í dag, en því var frestað til morguns. Ég frétti svo hjá stúlkunni að þessi sami læknir sem tekur einnig þátt í aðgerðinni á mér, verður í fríi næstu viku svo enn verður bið. Ég reyni bara að nota biðina vel og gera nógu margt skemmtilegt á meðan.


Comments

3 responses to “Alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast á meðan beðið er.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *