Bátsferðin á litlu skelinni.

Þegar utanborðsmótorar fóru að koma á markað upp úr 1960  urðu þeir mjög vinsælir.  Þá komu jafnframt á markaðinn litlar bátskeljar úr plasti. Þessar litlu bátskeljar var hægt að fá leigðar til að skreppa  í svona smá sunnudagsferðir út á sundin blá.

Okkur fjórum kjánaprikunum, Kristni, Viktori, Oddi og skvísunni sem fylgdi þeim í öllu sem gert var, datt í hug að það væri gaman að skreppa í bátsferð og var því ákveðið að fara inn í Vatnagarða (síðar Sundahöfn) og fá leigðan svona bát og  utanborðsmótor. Öll vorum við rétt innan við tvítugt.  Það var ekkert mál að fá leigða svona bátskel og lítinn utanborðsmótor og  ekki nokkurs krafist nema greiðslu fyrir leiguna og svo átti að skila bátnum aftur inn í sundahöfnina að bátsferð lokinni.

Þetta var fljótlega eftir hádegi og við áttum að skila bátnum fyrir klukkan fjögur. Strákunum var kennt á mótorinn og svo var lagt af stað á litlu hvítu plastskelinni sem fjórir gátu setið í.  Ég stóð í þeirri trú að þetta yrði svona smá sigling, kannski út í Viðey eða dóla þarna í nágrenninu þar sem sæist til okkar frá Vatnagörðunum.  Við vorum bara klædd eins og við stóðum þegar hugmyndin kom upp, svona í léttum sumarjökkum eða peysum.  Þetta var síðsumars og varla meira en svona 10° – 12° hiti, en okkur fannst ekkert kalt  – ekki á þessari stundu. Það gekk bara vel að sigla út frá bryggjunni og veðrið svo sem ágætt,  svona íslensk gola.  Töffararnir sem ég var með voru ekkert spenntir fyrir því að fara bara út í Viðey og fannst það ekki spennandi.  Nei það væri sjálfsagt fyrst við hefðum heila þrjá klukkutíma til stefnu að fara eitthvað lengra. Þessi umræða kom upp þegar við vorum komin aðeins út á sundið. Það kom upp sú hugmynd að sigla á Akranes, en hún var sem betur fer kæfð í fæðingu, en hugmyndina um að sigla fyrir Seltjarnarnesið og inn  Fossvog að Nauthólsvík  og svo aftur í Vatnagarðana til að skila bátnum sammæltust þeir töffararnir um að væri góð hugmynd.  Ég, sem var og er hvílík veimiltíta í svona ævintýraskap,  sá að það var við ofurefli að etja  með þá þrjá á móti – Ég  fengi  engu ráðið, þó ég héldi áfram að tuða og væla yfir því að fara ekki bara eitthvað stutt og ekki gat ég stokkið fyrir borð til þess að komast aftur í Vatnagarðana.  Nei það varð bara að bíta á jaxlinn og reyna að halda sér saman.

Við sigldum því sem leið lá að Seltjarnarnesinu. Mikið fannst mér við fara hægt.  Ég vildi helst snúa við og fara til baka þegar við vorum þarna fyrir utan Seltjarnarnesið,  því það var farið að hvessa  talsvert.  Mér var alveg rosalega kalt og okkur auðvitað öllum – sumir vildu bara ekki viðurkenna það.  En það var sem sé ekki við það komandi að fara að snúa við, enda styttra inn að Nauthólsvík heldur en til baka í Vatnagarðana og ég  heyrði Viktor segja við Kristinn – “Við hefðum ekkert átt að taka Rögnu með”.  (ha,ha, enn hvað ég skil hann vel, svona eftir á)  Það kom þó að þeim tímapunkti að  töffararnir sjálfir urðu smeikir.  Það hvessti meira á móti okkur og við fengum gusur yfir okkur öðru hvoru og við vorum auðvitað öll orðin blaut og köld. Ég man að mér var svo rosalega kalt á höndunumj að mér fannst  hlýrra að geta haft þær í sjónum þegar ég  þorði að losa takið af fjölinni sem við Oddur sátum á, því skelin valt  og skoppaði alltaf meira og meira.  Mótorinn sem við höfðum fengið var svo langt frá því að teljast kraftmikill og þegar við fengum vindinn svona á móti fannst mér við varla hreyfast og ég heyrði töffarana tala umhvað þessi mótor væri lélegur og að það væri líklega orðið lítið eldsneyti eftir.

Ég var alveg viss um að við myndum farast þarna. Við höfðum ekki látið neinn heima vita um þessa siglingu og það var ekki einu sinni tekið niður nafnið á neinum þegar við fengum bátinn, Þetta átti jú bara að verða svona smá skemmtisigling. Engir voru gemsarnir á þessum tíma.  Ég hugsaði til foreldra okkar og sorg þeirra þegar við værum allt í einu horfin og enginn vissi neitt hvað af okkur hefði orðið. Ég bað nú í hljóði Guð um hjálp, að við næðum einhvers staðar landi og kæmumst heil heim.

Þegar við loksins náðum að komast fyrir Seltjarnarnesið og inn í Fossvoginn var klukkan auðvitað löngu orðin meira en fjögur. Það var líka ennþá ótrúlega langt að sigla að Nauthólsvíkinni. Þeim töffurunum hafði fundist þetta allt svo stutt í byrjun og lítið mál. Þegar við sáum hvað það var langt að Nauthólsvíkinni, þá datt Oddi í hug að reyna að ná landi þar sem Vita- og Hafnarmálastofnun hafði bækistöð, en það var Kópavogsmegin í voginum og  styttri sigling þangað heldur en í Nauthólsvíkina. Við komum skelinni nálægt landi þarna  hjá Vita- og Hafnarmálum, en urðum að vaða síðasta spölinn og draga skelina á land til þess að skemma ekki mótorinn í fjörunni. Nú var klukkan langt gengin sjö um kvöldið. Við vorum  rennandi blaut og ísköld fyrir löngu síðan, en það var þó bót í máli að nú vorum  við komin með fast land undir fótum.

Við áttum hins vegar eftir að leysa enn eina þraut. Það kom nefnilega í ljós að við vorum þarna innan girðingar sem var í kringum allt athafnasvæðið nema þar sem við komum að landi.  Oddur fór og athugaði hvort við finndum  vaktmann á svæðinu, en ekki vorum við svo heppin þennan sunnudag. Við áttum því þann kost einan að klifra yfir girðinguna. Ég man ekki hvernig við leystum það því þetta var nokkuð há girðing. Mig minnir þó að við höfum fundið eitthvað til þess að klifra uppá fyrst til að ná  að komast yfir okkar megin, en svo þurfti bara að reyna að takmarka fallið hinu megin. Yfir komumst við allavega. Við Oddur vorum að hugsa um að ganga heim, en á þessum tíma bjuggum við í Hlégerðinu. Við fundum  að við höfðum enga krafta til þess, svo við biðum öll eftir að leigubíll kæmi eftir götunni.  Ýmsir bílar fóru framhjá en enginn stoppaði, fólkið í sunnudagsbíltúrnum starði bara á okkur eins og við værum eitthvað skemmtiatriði þarna við götuna. En, loksins kom leigubíll sem stoppaði fyrir okkur.  Bílstjórinn dró niður rúðuna og spurði hvaðan við værum eiginlega að koma svona blaut og hrakin, hann gæti varla tekið okkur upp í bílinn hjá sér. Hann spurði hvert við værum að fara og við Oddur sögðumst búa þarna nálægt, en hinir færu lengra, annar í Vogahverfið. Við sögðum honum svo undan og ofan af því úr hvaða ævintýri við værum að koma og þá vorkenndi hann okkur, kom út úr bílnum og  opnaði skottið hjá sér og fann þar teppi sem hann setti í aftursætið og við Oddur settumst þar. Þá spurði hann hvort hann mætti ekki kalla á annan bíl í talstöðinni fyrir hina tvo,  sá gæti þá komið með eitthvað til þess að breiða undir þá. Það væri bara heppni að hann hefði verið með þetta teppi.

Það er skemmst frá því að segja að það var rosalega notalegt að komast heim í sturtu, fá sér heitt kakó  og svo beint undir sæng.  Ég þakkað líka máttarvöldunum hátt og í hljóði fyrir að hafa bænheyrt mig og við sloppið lifandi úr þessu. Strákarnir sáu svo um að láta sækja bátskelina daginn eftir og skila henni.  Hann var víst ekki mjög hrifinn af ferðalaginu okkar, sá sem leigði út bátinn.  Það var örugglega erfitt fyrir töffarana að viðurkenna að þeir hefðu kannski átt í upphafi að hlusta betur á veimiltítuna. Þeir viðurkenndu seinna að þeir hafi nú orðið svolítið smeikir, því hvað hefði gerst ef mótorinn hefði alveg stoppað vegna bilunar eða eldsneytisskorts. Ekki man ég hvort við þorðum nokkurn tíman að segja foreldrum okkar frá þessu.

Svona fór um sjóferð þá.


Comments

5 responses to “Bátsferðin á litlu skelinni.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *