Facebook og Heimasíðan.

Ég hitti konu í gær sem ég hef ekki hitt lengi. Hún er ekki á Facebook , en ég kynntist henni af heimsóknum hennar á heimasíðuna mína fyrir mörgum árum. Við hittumst svo í fyrsta skipti  augliti til auglitis þegar hún bauð mér í mat eftir að ég flutti í Salahverfið.  Í gær hittumst við svo í augnablik þegar önnur var að flýta sér inn í matvörubúðina og hin að flýta sér heim til að sinna sínum erindum. Þegar við höfðum kvaðst eftir þennan örhitting, þá bætti hún við og sagði “Ég les nú alltaf það sem þú skrifar”.  Þá fór ég að hugsa um það, hvað ég væri orðin löt að sinna síðunni minni og man jafnvel ekki eftir henni nema stundum, á meðan ég skanna Fésbókina stundum nokkrum sinnum yfir daginn.  Ég er ekki ein um það að hafa villst yfir í annan félagsskap, því það hefur verulega þynnst í blogghópnum okkar. Munurinn á heimasíðu og Facebook er aðallega sá, að það sem maður skrifað á heimasíðuna sína er til og verður til, á meðan það sem maður er að gjamma  eitthvað marklaust í Facebook er horfið eftir stuttan tíma, bara svona eins og að segja Halló og Bless.  Mér þykir samt vænt um Fésbókina því hún hefur gefið mér sambnd við bæði gamla vini og ættingja sem ég hafði ekki hitt eða heyrt frá í mörg ár.
Þetta eru ólíkir staðir. Báðir góðir, hvor á sinn hátt og hvorugugan vildi ég missa.  Ég hef mjög gaman af að fletta upp gömlum ninningum og sögum af barnabörnunum á heimasíðunni minni, sem ég hef átt síðan í júní 2003. Það hefur líka komið fyrir að ég hef þurft að leita þar að tilteknum gömlum atburðum sem við erum ekki alveg viss hvenær áttu sér stað.  Svo átti ég svo skemmtilega og góða bloggvini og á reyndar enn, þó sumir hafi ekki skrifað færslur lengi.  Við hittumst reyndar nokkiur fyrir ári síðan og hver veit nema við endurtökum það í sumar.
Ég sá bloggfærslu hjá vinkonu áðan og mundi þá eftir að ég átti þessi drög en hafði gleymt að setja þau inn.  Eigið góða daga framundan. Ég kveð í bili.


Comments

3 responses to “Facebook og Heimasíðan.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *