4.hluti gömlu ástarsögunnar

Við  fengum  lánaðan sendibíl og tókum saman þær litlu eigur sem við áttum hvort um sig. Við byrjuðum á því að fara á Kambsveginn og sækja húsgögnin mín, stóra radíofóninn sem ég hafði keypt mér þegar ég byrjaði að vinna og var mjög montin af, sófaborð sem ég hafði fengið í fermingargjöf og gamla dívaninn sem ég svaf á. Síðan fórum við heim til Odds og sóttum skrifborðið hans því svefnbekkinn skildi hann eftir.

Tilhlökkunin var mikil, en það skyggði mikið á, að þegar ég kom heim að sækja dótið mitt þá kom pabbi ekki einu sinni fram til þess að kveðja mig. Ég fæ tár í augun bara við að rifja þetta upp og skrifa þetta svona mörgum áratugum seinna.

Ég var alveg miður mín á leiðinni niður í Bólstaðarhlíð og síðan í Grófina 1, því skugginn af ósættinu við pabba hvíldi yfir og skyggði mjög á ánægju mina og nagaði mig að innan.

En, þegar við komum á áfangastað varð ég mjög undrandi, því við útidyrnar hafði verið festur stór rósavöndur. Ég var spent að vita hverjum hefði dottið í hug að  senda okkur blóm og datt helst í hug að vinir Odds hefðu verið svona hugulsamir, eða vinnuveitendur mínir.  Þegar ég hinsvegar skoðaði í umslagið sem fylgdi og las það sem á spjaldinu stóð, þá brast ég  í grát. Þetta var nefnilega kveðja frá honum pabba mínum þar sem hann sagði mér hvað honum þætti vænt um mig og óskaði okkur alls góðs í framtíðinni.  –

Þetta var pabba líkt – Hann gat ekki afborið að vera ósáttur og þetta var hans aðferð til þess að brjóta ísinn sem hlaðist hafði upp á milli okkar.  Mér þótti svo vænt um hann pabba minn og nú vissi ég að honum þótti ennþá svo vænt um mig líka.  Já svona var hann elsku pabbi minn, hann hafði ekki afborið að litla stelpan hans væri að fara út í einhverja vitleysu sem hann gæti ekki haft stjórn á eða stöðvað.  Hann trúði í rauninni ekki að ég myndi taka þetta skref og það var ekki fyrr en ég var farin að hann sá það svart á hvítu að mér var alvara.  –  En mikið var þetta líkt honum, að rjúka strax af stað, á meðan við færum í Bólstaðarhlíðina, til þess að vera á undan okkur og láta okkur síðan finna rósavöndinn og kveðjuna þegar við kæmum.

Það er skemmst frá því að segja að auðvitað fór ég inn á skrifstofu og hringdi beint til hans og eftir þetta urðum við pabbi aftur mestu mátar og vorum það alla tíð.  Hann uppgötvaði líka að í stað þess að missa dóttur þá eignaðist hann son sem hann mat mikils, þótti alla tíð vænt um og þeir urðu mjög góðir vinir.

Búskapurinn okkar á loftinu var svo sem ekki beisinn hvað húsakynni varðaði,  en við sáum um okkur sjálf, elduðum á þennan frumstæða hátt og þurftum enga aðstoð nema ég fékk að setja í þvottavél hjá mömmu.
En við vorum hamingjusöm og þá er allt svo auðvelt enda hamingjan ekki keypt fyrir peninga, þó gott sé að eiga nóg til að bíta og brenna.

Eftir að hafa búið okkar frumstæða búskap í um það bil ár og verið vinsælust af öllum vinahópnum okkar fyrir það að vera með íbúð niðri í miðbæ, þá fréttum við af stofu og eldhúsi til leigu í Kópavogi, sem við ákváðum að taka. Ekki stækkuðum við nú við okkur, en fengum þó eldhús og aðgang að þvottahúsi, en stofan var aftur á móti mun minni.  Þetta var risíbúð, eigendurnir bjuggu á neðri hæðinni, en höfðu hjónaherbergi þarna á ganginum í risinu og herbergi sonar þeirra á okkar aldri var þar einnig, en það var okkur alveg sama um.  Þetta var alveg yndislega gott fólk á svipuðum aldri og okkar eigin foreldrar. Okkur þótti strax vænt um þetta fólk og við vorum í sambandi við þau og sendum jólakort á milli á meðan þau lifðu.

Þegar við vorum nýflutt þarna í risíbúðina, þá bauðst okkur að fara í mjög ódýra ferð til Kaupmannahafnar. Aðdragandi þess var sá  að vinnuveitandi minn Ingi Þorsteinsson, en ég vann þá enn á sama stað hjá Everest Trading Company, var formaður Frjálsíþróttasambands Íslands. Hann sagði að von væri á leiguvél frá Danmörku með frjálsíþróttafólk og til þess að vélin færi ekki tóm til baka þá hafi Framsóknarfélaginu í Reykjavík verið boðið að leigja hana fyrir lítinn pening. Hann hefði fengið tvo flugmiða til ráðstöfunar og þar sem hann ætlaði ekki að nota þá sjálfur þá fannst honum tilvalið að leyfa okkur að nota þessa miða.

Þetta breytti talsvert lífi okkar, því við fengum alveg fyrirtakshugmynd í sambandi við þessa utanlandsferð.

———————


Comments

8 responses to “4.hluti gömlu ástarsögunnar”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *