Föstudagurinn langi.

Nú er föstudagurinn langi aðeins farinn að styttast. Þetta hefur verið einn rólegasti dagur sem ég hef upplifað. Síminn hefur ekki hringt, ég hef ekki farið út fyrir dyr, enginn komið og nánast engin bílaumferð verið hérna í kring í dag.  Bara algjör ró yfir öllu.  Veðrið hefur verið afskaplega furðulegt, með mjög örum skiptingum á éljum og sólarköflum Eina hreyfingin í dag hefur því verið að draga niður gluggatjöldin þegar sólin hefur brotist fram úr éljaþykkninu  og inn um gluggana og draga þau upp aftur þegar dimm élin hafa komið í kjölfarið.  Ekki man ég eftir slíku veðri svona alveg frá sólarupprás til sólarlags.

Ég var eitthvað að grúska í tölvunni í dag og  gleymdi mér um tíma alveg við það að skoða gamlar myndir sem ég hef skannað inn.  Mikið er nú dásamleg tæknin sem gerir okkur kleift að skoða á svona einfaldan hátt myndir sem vekja upp gamlar minningar.
Eftir hádegið langaði mig til þess að skreppa í messu hérna í Lindakirkju, en þá kom í ljós að messan átti að vera klukkan átta í kvöld – svo það varð ekkert úr kirkjuferð í dag.

Eftir kvöldmatinn horfðum við á svo flotta sirkusmynd í Sjónvarpinu. Ég horfði reyndar bara á hana að hluta til því  tónlistin var svo falleg og róandi að ég var farin að dotta. Ég þorði því ekki annað en færa mig hérna inn að tölvu til þess að sofa ekki yfir sjónvarpinu. Annars er ég enn svo syfjuð að mér finnst komin nótt þó klukkan sé ekki enn orðin hálf tíu. Föstudagurinn langi er nefnilega langur og hefur alltaf verið. Veðrið skiptir þó líklega nokkru hvað það varðar, en það er gott að taka einn dag á ári svona alveg án alls áreitis.

Nú er sjálf páskahátíðin framundan og ég óska ykkur öllum GLEÐILGRA PÁSKA. Ykkur sem eru á faraldsfæti óska ég góðrar heimferðar.


Comments

One response to “Föstudagurinn langi.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *