Ha,ha,ha.

Jæja krakkar mínr komið þið sæl. Það er gott að maður getur gert grín að sjálfum sér, en ég bæði hlæ, en skammast mín jafnframt fyrir það hvernig útgangurinn hefur verið á mér í dag, án þess að ég hefði hugmynd um. Það var ekki fyrr en seinni partinn, þegar mér varð litið í spegil, að ég sá að ég var með sitt hvora tegund af eyrnalokkum. Allt í lagi, nema nú skil ég af hverju fólk var að gjóa svona mikið á mig augum í Skógarhlíðinni í morgun, fyrst í Qi – gong og síðan í Jógaleikfimi. Ég skil líka núna,  af hverju Gunnar Eyjólfsson

010

horfði á mig, þegar hann var að segja að við yrðum að fara vel með líffærin okkar og misþyrma þeim aldrei, hvorki með reyk, sterku áfengi eða með nokkurs konar gleðilyfjum eða öðru sem sljóvgar. Mér fannst hann horfa óþægilega fast á mig þegar hann taldi upp það síðasta, ég sem vissi að ég hefði aldrei misþyrmt líkama mínum með neinu af þessu sem hann taldi upp. Ég vissi hinsvegar ekki þá að ég sæti þarna beint á móti honum með svona gjörílíka eyrnalokka í sitt hvoru eyra.
Ástæðan fyrir þessu er nefnilega sú, að þegar ég var að klára að búa mig af stað í morgun og búin að setja í mig annan eyrnalokkinn þá hringdi síminn. Ég svaraði í símann og spjallaði við vinkonu augnablik en þurfti svo að kveðja til að koma mér af stað. Mundi þá eftir að ég átti eftir að setja hinn eyrnalokkinn, fór fram á bað, greip hann úr litlu skálinni með eyrnalokkunum og setti hann svo í á leiðinni út.
Ég hefði kannski átt að skoða betur hvaða lokk ég tók úr skálinni, en það lengir jú lífið að hlæja og á meðan maður getur gert grín að sjálfum sér er allt í lagi með mann. Þetta er eitthvað sem ég á eftir að hlæja að aftur og aftur, eins og þegar ég þurfti til læknis rétt eftir stóru aðgerðina í fyrrasumar og átti að koma strax. Ég dreif mig af stað í svörtum skóm, en af sitt hvorri sort svona álíka ólíkum og eyrnalokkarnir voru í dag. Ef rétt er að allt sé þegar þrennt er þá kvíði ég samt svolítið fyrir því hvað í ósköpunum það verður sem ég rugla í þriðja skiptið.


Comments

4 responses to “Ha,ha,ha.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *