Komið á óvart.

Við hjónaleysin erum aldeilis búin að njóta aðventunnar.  Tvennir tónleikar að baki. Þeir fyrri voru jólatónleikar hjá Fóstbræðrum í Gamla bíói – Mér fannst þeir kannski ekki alveg nógu jólalegir og saknaði þess að heyra ekki meira af íslenskum jólalögum en að öðru leyti voru þeir mjög góðir.  Svo var það rúsínan í pylsuendanum í gær.

Ég var nýkomin fram í gærmorgun þegar síminn hringdi og í ljós kom að Hulla dóttir Hauks í Danmörku var á hinum endanum og spurði hvort við værum nokkuð upptekin klukkan hálf fimm “i dag”.  Ég fór í huganum yfir það sem ég hafði skipulagt að gera og flýtti mér svo að segja “Nei, nei það held ég ekki”. – Þá sagði Hulla ” Það er fínt, eruð þið þá ekki til í að fara á tónleika með Frostrósum klukkan hálf fimm í dag”.  Ég missti nú bara hökuna alveg niður á bringu, því ég hélt kannski að hún ætlaði að biðja okkur um að gera eitthvað smáviðvik fyrir sig.

Til þess að gera langa sögu stutta þá vorum við sem sé á leið á tónleika Frostrósa í Lugardalshöllinni . Vei!  Ég þurfti nú auðvitað ekki meira til og snerist í marga hringi til þess að ná áttum 🙂   Ég talaði svo við Guðbjörgu og sagði henni hvað stæði til. Nokkru seinna hringdi Guðbjörg svo aftur og spurði hvort ég héldi að Sigurrós væri með aukalykil hjá mér, það mundi ég ekkert, en spurði hvers vegna hún þyrfti að komast inn hjá mér. – Jú hún þurfti að fá að fela jólagjöf, en væri ekki með bílinn fyrr en klukkan fimm svo það væri gott að hafa lykil. Ég spurði hvort við gætum ekki tekið þetta í bílinn þegar við færum, en hún sagði að þetta yrði örugglega í lagi og við kvöddumst.

Við nutum svo þessara frábæru tónleika og komumst í hvílíkt jólaskap – annað væri bara ekki hægt.
Þegar við vorum á leiðinni heim þá kveikti ég á símanum og sá að Guðbjörg hafði hringt. Þegar ég kom síðan heim undraðist ég að það var svo góður hreingerningarilmur þegar ég kom inn. Mér fannst það skrýtið því ég hafði ætlað að klára að þrífa í gær, en ekki komið því í verk. Ég fór svo bara beint inn og kveikti á tölvunni því ég ætlaði að Googla smávegis áður en ég gleymdi því. Tölvan opnaði sig á Facebook  og þar blasti við mér færsla frá Guðbjörgu þar sem hún spyr mig hvort ég hafi nokkuð rekist á Jólasleiki, eða tekið eftir því að hann hafi komið við hjá mér.
Nú var komin skýring á þessu með lyklana og jólagjöfina sem þurfti að fela. Jólasleikir hafði sem sagt þurft að komast inn hjá mér og var búinn að þurrka af öllu og strjúka úr gluggum og hillum – allt þetta bjástur sem mér finnst svo erfittt að teygja mig og beygja við að gera. Nú var allt glansandi út úr dyrum.

Það mætti halda að þær hefðu staðið saman í þessu Hulla og Guðbjörg því þetta heppnaðist svo fullkomlega. Dásamlegir tónleikar og dásamlegt að koma heim og þurfa ekki að hugsa um að eiga eftir að gera nein húsverk.

Ég sendi risaknús til Hullu og Eika í Bovrup og segi TAKK fyrir dásamlegu tónleikana. Svo sendi ég Jólasleiki í Ásakórnum risaknús og segi TAKK fyrir að sleikja allt svona fínt hjá mé


Comments

One response to “Komið á óvart.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *