Fyrsta vikan á Vulcano og “Bedding” í fjallaþorpi.

Við dvöldum á mjög fallegu og góðu hóteli, þar sem alltaf var hlýtt  þó hitinn úti væri kominn allt niður í 13°, eins gerðist nokkuð oft á kvöldin og nóttunni. (Termostat var bara stillt á 25 í herberginu og hélt hitanum í því hitastigi). Við áttuðum okkur ekki á því að það gæti orðið svona kalt inni á herbergjum, fyrr en við hittum fólk af öðrum hótelum sem sagði að allir væru að drepast úr kulda á kvöldin og morgnanna – við vorum því rosalega heppin að finna ekki fyrir kulda inni.

Þetta er myndasyrpa af gestum sem við fengum eitt kvöldið – vinnufélagi Hauks og frú
svipmyndir af hótelinu og neðsta myndin uppáhalds kaffihúsi í Los Cristiaons

Fyrstu vikuna var talsvert mikið skýjað nema smá glæta á morgnanna og svo síðdegis, en við vorum í Tenerifefílingnum og fórum í göngutúra á daginn og dönsuðum á hótelinu eftir kvöldmatinn og fram að skemmtiatriðum.  Alveg dásamleg vika.

Eftir þessa fyrstu viku fékk Haukur magapest og lá nánast alveg í rúminu.  Ég gat lítið aðstoðað hann í þeim efnum svo ég fór bara  ein í göngutúrana þann tíma.

Einn af fyrstu morgnunum þarna var kynning  fyrir framan matsalinn á einhverri ókeypis fjallaferð. Þetta var dagsferð sem átti að innihalda kynningu á “Bedding”.  Ég sagði Hauki að nú skyldum við drífa okkur í þessa óvissuferð, sem við vissum ekkert um hvað snerist. Veðrið var hvort sem er svo köflótt þessa daga að það var bara alveg tilvalið að nota sér svona tækifæri.

Við mættum svo í tiltekna rútu við hótelið næsta morgun og eftir að fararstjórinn pikkaði upp fólk á mörgum hótelum þangað til rútan var fullsetin, nánast eingöngu af Bretum, þá var haldið með hópinn upp í lítið fjallaþorp. Þar var ekið að húsi  nokkru  þar sem okkur var skipt upp í 10 manna  hópa og farið með hvern og einn í sér herbergi ásamt starfsmanni.

Myndir úr “Bedding” ferðinni.

Þarna inni voru tveir einbreiðir svefnbekkir, annar bara með dýnu og einhverri yfirbreiðslu og kodda ofaná og svo upphækkaður svefnbekkur þar sem þykk undirdýna var á og teppi og koddi ofaná.  Þarna umhverfis rúmin voru svo borð og stólar fyrir hópinn og okkur var boðið upp á kaffi og köku – Um framhaldið vissum við ekkert og alls ekki hvað í ósköpunum  ætti að fara fram í þessum rúmum.   Við hugguðum okkur þó við að hópurinn taldi  nánast eingöngu gamalmenni svo líklega yrði nú enginn hasar í þessu porógrammi 🙂

Eftir kaffið og kökuna kom svo í ljós að það var verið að kynna rúmfatnað bæði dýnur, kodda og teppi sem fyllt var með sérstaklega unninni lambsull. Kynnirinn, sem var kona hélt langan fyrir lestur um ágæti þess að hafa slíkt yfir sér á köldum vetrarnóttum – allra meina bót fyrir gigtarfólk og aðra. Svo fengum við sögur af allri hennar fjölskyldu í Bretlandi, sem hafði ekki trúað á þetta í byrjun en nú vildi enginn neitt annað. Svo var fólki boðið að leggjast á þessa eðaldýnu til að finna hvað hún væri góð.   Svo fór söluferlið fram og teknar pantanir í herlegheitin – fólk átti svo að fá vöruna þegar það kæmi heim aftur til Bretlands og upp frá því átti það ekki að finna fyrir gigt.

Jamm og jæja,  við íslendingarnir sem erum svo dekraðir  að geta haft það hitastig sem við kjósum að hafa í hýbýlum okkar allan ársins hring  pöntuðu vitaskuld engar lambsvoðir þarna, en mér kom í hug það sem gert var hér heima í torfkofunum í gamla daga þegar gæruskinn voru sett í rúmin til að halda betur hita.  Það var svo ekið með hersinguna í gallerí sem seldi ýmsa smærri muni úr þessari ull ásamt Aloe vera og  handmáluðum hlutum, bæði myndum og fleiru.  Síðan var öllum skilað heim seinni part dagsins.  Þetta var bara skemmtilegt, en það var svo kalt þarna uppi í fjallinu að við  vorum alveg að krókna þegar við komum út úr galleríinu og áttum eftir að bíða í frjálsum tíma eftir rútunni sem átti að koma eftir einhvern hálftíma.  Við brugðum því á það ráð að fara inn í einu búðina sem við sáum þarna í götunni – eins og eldgamalt kaupfélag þar sem öllu ægði saman og athuga hvort við finndum þar hlýjar peysur. Ekki fundum við neitt slíkt og  það eina sem við sáum nothæft voru forljótir vattjakkar sem við keyptum, en eigum örugglega aldrei eftir að nota, en þeir björguðu okkur þó frá kuldanum þennan tíma og kostuðu rétt yfir þúsund kall.

 


Comments

2 responses to “Fyrsta vikan á Vulcano og “Bedding” í fjallaþorpi.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *