Orðin skjalfestur lögbrjótur 🙁

Já, það átti þá eftir þeirri gömlu að liggja að verða skjalfestur lögbrjótur, samkvæmt formlegu bréfi sem lá í póstkassanum í dag frá Lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins og bréfið meira að segja með frímerki á, sem er orðið sjaldgæft að sjá á bréfum frá opinberum fyrirtækjum.

Í síðu viku þurfti ég að fara tvær ferðir að morgni til, fram og til baka um Fífuhvammsveginn frá Salavegi.  Í fyrri ferðinni tók ég eftir ómerktum bíl sem hafði verið ekið upp á grasið við akbrautina og ég undraðist að lögreglubíll sem ók á undan mér virtist ekkert vera að spá í þetta. Bíllinn var svo enn þarna á sama stað þegar ég kom til baka á heimleiðinni svo mér datt í hug að líklega væri bíllinn bilaður.

Eftir skamma stund heima þá þurfti ég að fara aftur af stað þessa leið um Fífuhvammsveginn nema hvað að í þetta skiptið kom ljósblossi frá bílnum á grasinu. Ég hef heyrt um svona hraðamælingar og sannfærðist því um að þarna hefði hraðamælir verið í gangi í ómerktum bíl. Ég var hinsvegar undrandi á þessu því ég var viss um að ég væri á um 60 km. hraða sem ég taldi hámarkshraðann vera á þessari aðalumferðaræð  sem tengir hverfin hérna í kring. Maður berst venjulega með straumnum og hraðinn er svona 60 – 70, nema á álagstímum.  Í bréfinu segir hinsvegar að ég hafi ekið á 64 km. hraða þar sem hámarkshraði sé 50. Þar hef ég það og viðurkenni hér með sekt mína og fávísi og það að ég hef nú fengið einn mínuspunkt í annars hreina ferilskrá í umferðinni.

Fífuhvammsvegurinn er aðalæðin alveg frá Hafnarfjarðarvegi í gegnum Smárahverfið, Lindahverfið og Salahverfið og eru undirgöng við alla skólana sem eru á þessari leið, en hættulegar gangbrautir eru hinsvegar alveg við hringtorgin og þar ber vitanlega að aka mjög varlega.

Þegar ég fékk bréfið í morgun þá hringdi ég til Lögreglunnar og spurði hver hámarkshraðinn væri á þessari leið, því engar hraðamerkingar væru þar.  Stúlkan sem svaraði sagði að þar sem engar merkingar væru þá væri hámarkshraðinn 50 í þéttbýli.

Ég páraði þetta niður til þess að láta þá vita, sem hafa kannski verið með sömu ranghugmynd og ég að það mætti aka á 60 á Fífuhvammsvegi í stað 50 km. hraða. Ég er búin að aka á 50 síðan þetta gerðist og fæ alltaf að vera lestarstjórinn með röðina fyrir aftan mig og í gær hélt ég að næsti bíll fyrir aftan mig myndi keyra inn í skottið hjá mér því hann var orðinn svo pirraður og kominn svo nálægt. Mér leið eins og ég væri að aka stóru vinnutæki, en maður brennir sig nú ekki tvisvar á sama eldinum og hér eftir er það bara 50 km hraði sem sú gamla ekur á þessari leið, hvernig svo sem það fer með geðheilsu hinna sem enn eru í þeirri trú að þarna megi aka á meiri hraða. Já, það er greinilegt að fleiri hafa ekki áttað sig á þessu.

Svona er nú það.

Ég vefengi ekki að ég braut af mér og borga vitanlega mína sekt, en mikið vildi ég að það væri, þó ekki væri nema eitt skilti einhversstaðar á svona vegi sem segði 50, bara svo það þurfi ekki neinar vangaveltur um það.


Comments

One response to “Orðin skjalfestur lögbrjótur :(”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *