Rauðmaginn.

Þegar við vorum nýgift og bjuggum í lítilli risíbúð í Kópavoginum, þá kom Oddur mjög hróðugur heim einn daginn, með glænýjan Rauðmaga sem honum hafði verið gefinn.
Mér fannst rauðmagi mjög góður og varð voða spennt og tók því mjög ánægð við pokanum með rauðmögunum í.  Nú ætlaði ég sko aldeilis að sýna myndarskapinn og rifja upp kúnstir mömmu minnar við slíka matargerð. Það var þetta fyrsta sem aðeins vafðist fyrir mér, þetta með að ná hveljunni af og gera fiskinn kláran í pottinn. Eftir það vissi ég alveg hvað ég átti að gera, nefnilega bara að salta, setja smá edik í vatnið og sjóða.

Ég opnaði nú pokann og leist hreint ekkert meira en svo á það sem við mér blasti, því fjögur augu störðu á mig og síðan sá ég tvo galopna kjafta og svo voru kvikindin alsett göddum.  Líklega hef ég ekki fylgst nógu náið með því sem móðir mín gerði á þessu frumstigi aðgerðarinnar, því ég stóð bara þarna eins og glópur og starði ofan í pokann.

“Finnst þér þeir ekki flottir” sagði Oddur, sem ekkert þurfti að gera nema borða þegar maturinn yrði til.  “þetta er sko alveg glænýr rauðmagi – gerist ekki betri. Engilbert veiddi þetta í nótt”.  Ég hélt áfram að stara ofan í pokann og velta því fyrir mér hvernig ég ætti að bera mig að við þetta.  ” Ha, jú þetta verður rosalega gott”.

Til þess að þurfa ekki að taka á kvikindunum, þá ákvað ég að hella þeim úr pokanum í vaskinn. Mér fannst ég heyra eitthvert hljóð þegar ég lét þá gossa í vaskinn. ” Heyrðir þú eitthvað?” sagði ég við bóndann. “Neeei ég held ekki”, svo fór hann inn að kíkja í Moggann.

Ég sá að ég yrði að gera eitthvað annað en stara á þetta, svo ég gerði tilraun til þess að handsama annað kvikindið. Það gekk nú ekki vel því fyrir utan fjárans gaddana var þetta allt sleipt af slori svo ég missti þetta í fyrstu tilrauninni út úr höndunum á mér.  En ég hélt áfram þangað til ég náði sæmilegu taki og náði að skella honum upp á skurðarbrettið, en þá kom upp annað vandamál. Ég vissi hreint ekkert hvar ég ætti að stinga hnífnum í þetta og mest langaði mig til að henda þessu beint út í ruslatunnu – en það yrði mér ekki fyrirgefið svo ég hélt áfram að brjóta heilann um framhaldið.  Mér leist best á hringinn neðan á vömbinni, eða segir maður kviðnum. Ég greip stærsta og beittasta hnífinn okkar, reiddi hann upp og stakk af öllu afli í kviðinn á kvikindinu.  Mér fannst á þessu stigi sem ég reiddi hnífinn til höggs að ég væri að leika í hryllingsmynd, því þegar ég stakk hnífnum í kviðinn, þá ropaði kvikindið  ferlega og mér brá svo mikið að ég henti bæði hnífnum og fjárans kvikindinu langt út á gólf. Þar að auki hafði ég öskrað svo hátt í æsingnum að  Oddur kom hlaupandi og ekki bara hann, heldur hafði konan af neðri hæðinni, sem var stödd í herberginu sem þau höfðu sjálf þarna uppi við hliðina á okkar, heyrt ópið og hún kom líka hlaupandi.

Ég átti ekki um neitt að velja annað en að játa mig sigraða – en ferlega var fúlt að þau skyldu bæði missa sig í því að hlæja að mér.

Ég varð að fyrirgefa þeim hláturinn – var reyndar sjálf komin með ekkasog af hlátri þegar ég var búin að jafna mig eftir sjokkið og þrífa gólfið.  Frúin, sem var orðin fullorðin kona kunni alveg á þessu tökin og sýndi mér hvernig það ætti að bera sig að við þetta.

Allt fór því vel, rauðmaginn var alveg rosalega góður og þau niðri voru himinlifandi yfir að fá líka að borða svona góðan mat hjá okkur.

 


Comments

6 responses to “Rauðmaginn.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *