Yndislegt starfsfólk.

Já það hefur nú verið meira vesenið á mér undanfarið. Fyrst lenti ég inn á bráðavakt í sólarhring á fimmtudagskvöld vegna rosa lágs blóðþrýstings og hættulega lágs Natrium í blóði  og síðan aftur á mánudagskvöld þegar blóðþrýstingurinn fór allt of hátt upp. Fyrirsögnin hjá mér á reyndar ekki við um móttökurnar á mánudagskvöldið, en það er önnur saga.  Eftir að fá allan vökvann í æð þarna á fimmtu/föstud. eru natriumprófin komin í eðlilegt horf og verkir í útlimum horfnir.  Hjartalæknirinn fann að öllum líkindum sökudólginn  a.m.k. þangað til  ef /eða annað kemur í ljós, en hann telur blóðþrýstingslyfin sem ég var á hafa orsakað þetta. Nú hefur þeim verið skipt út og allt virðist vera komið í himnalag.
Ég heyri á þeim sem í kringum mig eru að þetta hafi örugglega verið vegna breytta mataræðisins, en læknar telja það alls ekki og allar prufur eru nú í toppfínu ástandi og nóg af öllum efnum sem mæld hafa verið.  Fólk heldur að ég sé í einhverju svelti af því að ég er að sleppa kornvörum  (sem alltaf hafa farið illa í mig) og mjólk, en ég hef hins vegar aldrei borðað eins mikið á ævinni og eftir að ég byrjaði á þessu Paleofæði.

Ég fór í dag niður á Lansa  í undirbúninginn fyrir aðgerðina sem verður 4. júní, þó enn sé rúm vika til stefnu . Ég var úrskurðuð alveg tilbúin í tuskið svo það er eins gott að taka ekki upp á neinu óvæntu þessa síðustu viku sem ég er að bíða eftir þessu.  Ég mætti uppúr kl. 8 í morgun og var komin út í bíl aftur klukkan að verða hálf tvö. Já, það þýðir ekkert annað en að vera með STÓRAN skammt af þolinmæði þegar maður fer þarna í heimsóknir.

En eitt verð ég að segja, að allt starfsfólkið á krabbameinsdeildinni þarna á Hringbrautinni er svo yndislegt og notalegt í umgengni að manni dettur ekki í hug að kvarta þó svo maður verði að bíða, bíða og bíða eftir viðtölum við læknana. Læknarnir eru einfaldlega of fáir í dag og álagið á þá alveg rosalega mikið. Það er nokkuð sem maður verður bara að sætta sig við. Það hefur mikið að segja þegar fara á í svona stóra aðgerð að geta borið fullt traust til þeirra sem eiga að annast mann og það er svo dásamlega gott að hafa fundið fyrir þessari hlýju í sinn garð frá upphafi.

Af því ég nenni ekki að vera alltaf að skrifa um veikindi og vesen, þá ætla ég að halda áfram að kíkja á það sem ég hef párað niður um gamlar endurminningar  og gá hvort ég á ekki eftir að setja eitthvað meira af þeim inn í dagbókina mína.


Comments

4 responses to “Yndislegt starfsfólk.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *