Að komast á beinu brautina.

Dagurinn í gær og í dag hafa fært mér sanninn um það loksins, að ég er að fara í sól og hita.  Í gær fann ég fyrst að mér var eitthvað að batna og í dag hef ég líka verið mun hressari. Ég hitti lækninn minn í morgun og hann sagði að þetta hefði nú bara verið nokkuð alvarlegt en nú ætti ég að vera komin á beinu brautina. Ég á þó að halda áfram að taka stera allan tímann sem ég verð úti og hann setti mig á nýjan fúkkalyfjaskammt sem ég á líka að klára, hvernig sem mér finnst ég vera. Ég gegni því sem mér er sagt og ætla ekki að risikera neinu með því að brjóta þau fyrirmæli. Þetta er dæmi sem verður að klára á sem skynsamastan hátt, hvort sem mér líkar betur eða verr að vera á þessum lyfjum áfram.

Nú er ég búin að pota einhverju dóti ofan í tösku og er að verða voða spennt. Svo bauð hún allra besta mín mér í kaffi í Smáralindina í dag og færði mér minnislykil með fullt af spennandi bókum svo mér muni nú ekki leiðast í sólinni 🙂  Allt komið inn á MP3 spilarann svo nú er mér ekkert að vanbúnaði.  Haukur er að verða búinn að vinna á sínu kvefi, en sem betur fer fékk hann þetta ekki eins hastarlegt og ég og slapp við allt meðalasullið. Við erum því klár í slaginn eftir helgina.

Verst að tölvan mín er svo þung að ég tek hana ekki með mér, svo ég verð bara að mestu leyti í tölvufríi.  Þegar ég var á Spáni síðast þá gekk mér svo illa að komast inn á Facebook þó ég væri með rétt notandanafn og lykilorð því tölvan úti gúdderaði ekki úr hvaða tölvu ég var að reyna að komast inn, svo ég veit ekkert hvernig mér á eftir að ganga það núna.  Ætli maður verði ekki bra að nota SMS á fjölskylduna heima.

Ég ætla ekkert að hafa þetta lengra núna og á ekki von á að setja neitt meira inn áður en við förum svo ég bið ykkur bara vel að lifa og heyrumst þegar fer að líða vel á mánuðinn.

 

This entry was posted in Ýmislegt. Bookmark the permalink.

7 Responses to Að komast á beinu brautina.

  1. Góðar fréttir mín kæra, og farðu eftir því sem læknirinn segir! Vonandi fær maður þó einhverjar fréttir af ykkur. Ég held að þið séuð að fara í sömu ferð og föðursystir mín og hennar maður. Bið að heilsa þeim ef þið rekist hvert á annað á göngu. Kolla og Óli heita þau frómu hjón. Góða ferð með bestu kveðjum frá okkur Bróa.

  2. Ragna says:

    Kveðjunni skal skilað, nú spyr ég bara öll sem við hittum hvort þau heiti Kolla og Óli – Við hljótum að finna þau 🙂 Takk fyrir góðar kveðjur Guðlaug mín og Brói. Kær kveðja til ykkar með góðum óskum um hækkandi sól og góða heilsu.

  3. þórunn says:

    Mikið er gott að heyra þetta, nú getið þið virkilega farið að hlakka til. Góða ferð og hafið það sem allra best.
    Kær kveðja til ykkar Hauks frá Palla frænda og mér.
    Þórunn.

  4. Aha…hvernig læt ég…jú, standið bara á torginu og galið: Kolla frænka og Óli! Kveðja í sólina.

  5. Katla says:

    Hafið það alveg ofsalega, rosalega gott í fríinu og njóttu þess bara að vera tölvulaus! Ég hlakka samt til að sjá nýja færslu hér eftir fríið : )

  6. Ragna says:

    Takk, Takk kæru bloggvinkonur og eitthvað svo miklu, miklu meira. Ég á víst örugglega eftir að láta heyra eitthvað frá mér – ef ég þekki sjálfa mig rétt – Ég hef þennan galla, að þurfa alltaf eitthvað að vera að tjá mig.

    Ég vona að þið hafið það allar gott og klárið að þreyja þorrann og vonandi fara nú veðurguðirnir að miskunna sig örlítið yfir blessað landið okkar og þjóð.

    Kær kveðja til ykkar allra.

  7. Hildur says:

    Ætlaði að vita um heilsuna þína og sé að þetta er allt að koma hjá þér, Ragna mín óska þér svo virkilega góðrar ferðar í sólina
    og hittumst svo yfir kaffibolla þegar heim er komið, læt heyra í mér.
    Sólarkveðja

Skildu eftir svar