Að komast á beinu brautina.

Dagurinn í gær og í dag hafa fært mér sanninn um það loksins, að ég er að fara í sól og hita.  Í gær fann ég fyrst að mér var eitthvað að batna og í dag hef ég líka verið mun hressari. Ég hitti lækninn minn í morgun og hann sagði að þetta hefði nú bara verið nokkuð alvarlegt en nú ætti ég að vera komin á beinu brautina. Ég á þó að halda áfram að taka stera allan tímann sem ég verð úti og hann setti mig á nýjan fúkkalyfjaskammt sem ég á líka að klára, hvernig sem mér finnst ég vera. Ég gegni því sem mér er sagt og ætla ekki að risikera neinu með því að brjóta þau fyrirmæli. Þetta er dæmi sem verður að klára á sem skynsamastan hátt, hvort sem mér líkar betur eða verr að vera á þessum lyfjum áfram.

Nú er ég búin að pota einhverju dóti ofan í tösku og er að verða voða spennt. Svo bauð hún allra besta mín mér í kaffi í Smáralindina í dag og færði mér minnislykil með fullt af spennandi bókum svo mér muni nú ekki leiðast í sólinni 🙂  Allt komið inn á MP3 spilarann svo nú er mér ekkert að vanbúnaði.  Haukur er að verða búinn að vinna á sínu kvefi, en sem betur fer fékk hann þetta ekki eins hastarlegt og ég og slapp við allt meðalasullið. Við erum því klár í slaginn eftir helgina.

Verst að tölvan mín er svo þung að ég tek hana ekki með mér, svo ég verð bara að mestu leyti í tölvufríi.  Þegar ég var á Spáni síðast þá gekk mér svo illa að komast inn á Facebook þó ég væri með rétt notandanafn og lykilorð því tölvan úti gúdderaði ekki úr hvaða tölvu ég var að reyna að komast inn, svo ég veit ekkert hvernig mér á eftir að ganga það núna.  Ætli maður verði ekki bra að nota SMS á fjölskylduna heima.

Ég ætla ekkert að hafa þetta lengra núna og á ekki von á að setja neitt meira inn áður en við förum svo ég bið ykkur bara vel að lifa og heyrumst þegar fer að líða vel á mánuðinn.

 


Comments

7 responses to “Að komast á beinu brautina.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *