Krakkar mínir komið þið sæl. Fyrsti pistill.

Þá er nú konan komin heim úr sólarlandaferðinni sinni.  Þetta ferli hefur allt verið hið undarlegasta, allt frá því að ég alveg sprelllfrísk keypti  farmiða til Tenerife til þess að komast úr snjódyngjunum hérna heima og létta aðeins lundina og fá sól í gigtarkroppinn.  Eftir að ég keypti farmiðana þurfti  nú ekki meira til en að ég fékk fjárans kvef  dagana á eftir. Sú saga hefur reyndar verið sögð í fyrri pistlum, en við fengum sem sagt viku frest á ferðinni, sem dugði til þess að  geta hoppað sæl og glöð út í sólina á Tenerife.

Ég verð bara að byrja á því að láta alla sem eru að fara til útlanda og ætla að geyma bílinn sinn í Keflavíkverð  vita af þeim góða kosti sem við völdum í þeim efnum.  Hótel Berg http://hotelberg.is/  í Keflavík bauð gistingu fyrir tvo með morgunverði, geymslu á bílnum í þrjár vikur, skutl upp á flugvöll og að sækja okkur á flugvöllinn við heimkomu.  Verðið, jú þetta kostaði ellefu þúsund krónur.  Ef við hefðum geymt bílinn á stæði hjá flugstöðinni hefði það verið mun meira.  Við nutum svo kvöldsins á þessum fallega gististað ásamt  Eddu systur og Jóni Inga, en þau voru  að fara til Gran Kanarí daginn eftir. Eftir góðan svefn og morgunverð var okkur svo ekið upp á flugvöll og flugið stóð heima upp á punkt og prik.

Þetta var þó í fyrsta skipti sem ekki mátti muna mörgum mínútum í viðbót að ég yrði sjóveik í millilandaflugvél.  Óveðrið sem gekk yfir hérna heima eftir hádegið þurftum við nefnilega að fljúga í gegnum. Flugfreyjur og allir aðrir urðu að sitja alveg kyrrir í vélinni og það dróst um einn og hálfan tíma að við fengjum að borða. Flugstjórinn sagði fólki að það væri engin hætta bara óþægindi – við værum í miklum öldugangi. Hann sagði svo þegar þetta var loksins yfirstaðið að þeir hefðu þurf að fljúga í 27 þúsund fetum sem væri óvanalegt.

Mikið rosalega munaði miklu í flugvélinni að geta dreift huganum með því að horfa á bíómyndir  að eigin vali á sætisbakinu fyrir framan sig og hafa gott pláss til að rétta úr sér.  Heyr, heyr fyrir ICELANDAIR  og þeirra vélum.

Ég ætla svo að setja inn smápistla svo ég geti skoðað ferðasöguna okkar seinna.

 

 

This entry was posted in Ýmislegt. Bookmark the permalink.

4 Responses to Krakkar mínir komið þið sæl. Fyrsti pistill.

  1. Katla says:

    Það er mikill munur að fljúga með Icelandair eða Express. Góð hugmynd hjá ykkur að „byrja ferðalagið“ á Hótel Berg. Og gott að fá þig til baka og nú hlakka ég til ferðapistlanna!

  2. Sigurrós says:

    Mér finnst alveg lygilegt að það skuli kosta svona lítið að gista á hóteli í Keflavík, láta skutla sér á flugvöllinn, geyma bílinn og sækja sig svo upp á nýtt. Ég bjóst eiginlega hálft í hvoru við að þið hefðuð misskilið eitthað og mynduð þurfa að borga mun meira þegar upp var staðið en þetta var síðan bara alvöru! Ég á örugglega eftir að benda mörgum á þetta.

  3. Ragna says:

    Þetta heimili, sem er í nýju húsi niðri við smábátahöfnina er líka sérstaklega fallegt og það er svo hlýlega tekið á móti manni. Sjálfsagt að láta alla vita. Þetta fær toppeinkunn hjá okkur og einnig hjá Eddu og Jonna.

Skildu eftir svar