Ferðin á Teide og vínbúgarðinn í máli og myndum.

Þar sem við höfðum geymt okkur í fyrri ferðum okkar til Tenerife að fara í ferð á Teide, sem er hæsta fjall spánar 3700 m. hátt,  vorum við ákveðin í að fara í slíka hópferð að þessu sinni.   Það er gaman að segja frá því að Vita og Heimsferðir sameinast um að fara með fólk í ferðir sem er vitanlega mun hagkvæmara en að hver sé að potast með sína farþega, kannski hálfar rútur, eða að þurfa kannski að fella niður ferðir vegna ónægrar þátttöku.  Það fór sem sagt full rúta af ferðaglöðum íslendingum á Teide þennan dag plús einn heiðursfarþegi, sem kemur aðeins við sögu síðar. Fararstjóri í ferðinni var Trausti frá Heimsferðum – alveg frábær, sömu sögu er að segja um hana Höllu hjá VITA, en hún átti eftir að reynast mér vel.

Það var mjög skemmtilegt að aka leiðina upp að fjallinu að kláfnum sem flutti okkur síðasta spölinn  upp í 4°frost og snjóföl. Landslagið var bæði fjölbreytt og mikil fjölbreytni í gróðrinum.

Þetta var einn fyrsti góði sólardagurinn svo það var varla skýhnoðri sem skyggði á landslagið.

Þessi er tekin þar sem við komum upp með kláfnum.

Gróðurinn á leiðinni upp fjallið – Margar furutegundir og barrtré

Það var svo skemmtilegt klettasvæði sem við skoðuðum á leiðinni niður af fjallinu aftur.

 Í framhaldinu  var farið í heimsókn til vínbænda þar sem við borðuðum.

Á leiðinni þangað skoðuðum við eldgamalt tré sem heillaði mig alveg upp úr skónum.
Það þurfti sjö  manns til að strekkja á handleggjunum til þess að ná utan um stofninn á trénu
og börkurinn segir sína sögu með öllum sínum hnúðum og æxlum.

Þegar við komum á vínbúgarðinn var verið að loftræsta reyk úr matsalnum og staðið í slökkvistarfi. Það hafði verið búið að kveikja upp í kamínu þarna í matsalnum til að hafa nú hlýtt og notalegt fyrir gestina þegar þeir komu af Teide, en þá vildi ekki betur til en svo, að eldur hafði komist út um loftræstirörið úr kamínunni upp við viðarloftið og það stóðu sem sé björgunaraðgerðir yfir þegar við komum og allt opið upp á gátt til þess að að lofta út reyknum, svo það var ansi svalt inni.

——-

Hér kynnir Trausti okkur fyrir Húsfreyjunni og heiðursfarþeganum, sem reyndist vera vínviður sem hópurinn
myndi gróðursetja hjá vínbændunum til minningar um ferðina. Gaman að heimsækja seinna og sjá hvernig hann dafnar.

Hér sést hvar verið er að vinna í að slökkva endanlega í loftinu og
ein myndin er úr víngerðinni, en þar fræddu þau húsmóðirin og Trausti okkur
um allt sem viðkom víngerð áður fyrr og nú.
Þessi vínbúgarður var með alla ræktun lífræna.

Blessuð húsmóðirin á staðnum var talsvert mikið stressuð þegar við komum, enda ekki skrýtið, en hún reyndi þó að láta lítið á því bera og sinnti sínum skyldum og kynnti fyrir okkur víngerðina og sýndi okkur vínviðinn, vatnsbólið þeirra og þær skepnur sem þau höfðu.

Þetta reyndist síðan ekki eins alvarlegt og það hefði getað orðið því það er ekkert grín þegar eldur fer á milli loftklæðningar og þakflísa, en allt fór sem sasgt vel, við fengum matinn okkar og smakk á góðu vínunum þeirra með og allir voru glaðir.  Eftir matinn var svo gróðursettur vínviður, sem fararstjórinn hafði meðferðis – svo nú á hópurinn vínvið til þess að skoða í næstu ferðum.

Mikið er nú gott að geta sett minningarnar sínar hérna inn til þess að skoða seinna og rifja upp þennan góða dag.

This entry was posted in Ýmislegt. Bookmark the permalink.

6 Responses to Ferðin á Teide og vínbúgarðinn í máli og myndum.

  1. Katla says:

    Ofsalega fallegar myndir og þessi 5. (með rútunni á) minnir mig nú bara á Ísland : ) Þetta hefur verið góð ferð.

  2. Svanfríður says:

    Takk fyrir þessar myndir Ragna, gaman að sjá hvað þið aðhöfðust. Nú vona ég að þú sért öll að koma til. Hvernig er líðanin?

  3. Sigurrós says:

    Mikið er nú gott að þið gátuð fylgt eftir einhverjum af ykkar áætlununm þó ferðin í heildina hafi orðið önnur en ráðgert var. Ég er hins vegar ekki viss um að ferðaskrifstofur hleypi ykkur í fleiri svona ferðir… kemur upp eldur í fjallakofum, farþegar missa af flugvélum, ókyrrð í lofti… 😉 hahaha En kannski má einmitt segja að allt fór vel þrátt fyrir þetta svo að kannski eruð þið einmitt lukkugripir 🙂

    En þessi dagsferð hljómar mjög skemmtilega og myndirnar fallegar.

  4. Velkomin heim mín kæra. Það er gaman að fá ferðasöguna svoa í máli og myndum með kærri kveðju í bæinn.

  5. Ragna says:

    Sigurrós mín – Ferðaskrifstofurnar vilja örugglega ólmar fá okkur aftur en það er spurning hvort þið systur eruð áfjáðar í að hleypa mömmu í fleiri svona ferðir.

  6. Ragna says:

    Þakka ykkur fyrir að leggja orð í belginn kæru tryggu bloggvinkonur mínar. Heilsan er örugglega að skána og ég að koma til – Stressið af öllum steratöflunum og lyfjunum gerir mig bara svo hundleiðinlega – það er slæmt þegar maður er hættur að þola neikvæðnina og leiðindin í sjálfum sér. Ég hef ekki hreyft mig nema til læknisins síðan ég kom heim, en á morgun ætla ég að mæta í saumaklúbbinn minn og kem örugglega endurnærð úr þeim félagsskap.
    Stórt knús til ykkar kæru mínar, sem alltaf eru til staðar.

Skildu eftir svar