Brosandi við tölvuna á sunnudegi 10. júní 2012

Ég hef fengið svo ótalmargar kveðjur frá ykkur, sem ég er svo óendanlega þakklát fyrir og  sendi góðar kveðjur og knús til baka til ykkar.

Nú er ég farin að geta brosað að hinu og þessu sem hefur gerst í vikunni, eins og t.d. þessu, sem ég var að skrifa við komment frá Sigurrós.

Já Sigurrós mín, þetta með glútenlausa tekexið er nú alveg yndislegt – svona eftir á, en þegar ég kom í fyrsta kvöldmatartímann hérna þá hafði ég nú enga lyst, en vissi að ég yrði að borða. En mér féllust alveg hendur þegar ég horfði á matinn sem var á boðstólum, eintómt glútenbrauð, en eins og ég hef sagt þá er brauð í kvöldmatinn. Ég spurði þann sem var að þjóna í matsalnum hvort hann ætti nokkuð glútenlaust brauð. Hann horfði svo bara spyrjandi ýmist á mig eða á brauðið á bakkanum og sagðist ekkert vita um það. Ég var svo sest í sætið með rúgbrauðssneið með osti þegar ég sá að hann kom með eitthvað í hendinni og kallaði yfir salinn „var ekki einhver að spyrja um glútenlaust?“ Ég gladdist í hjarta mínu og rétti varlega upp hendina og svaraði „Jú ég“ Þá kom hann mjög ánægður til mín með hvíta tekexköku í hendinni og spurði „Heldur þú að þetta sé kannski glutenlaust?“ Blessaður kallinn! En á þessum tímapunkti vissi ég ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta því maðurinn var greinilega að reyna að gera sitt besta þó árangurinn væri ekki meiri en þetta. Ég hafði hvorki heilsu þarna til að hlæja og ekki vildi ég fara að gráta. Í dag er ég hinsvegar glöð og í dag vil ég hlæja og finnst þetta alveg drepfyndið.“

Flökurleikinn er sem sé óðum að hverfa og sviminn er að langmestu leyti horfinn. Það sem ég finn fyrir í dag er orkuleysi sem er mjög eðlilegt og að hafa léttst svo mikið þessa vikuna að  líklega þarf ég að verða mér úti um axlabönd á buxurnar mínar svo ég missi þær ekki niður um mig, því þá gæti ég verið send heim af hótelinu vegna siðleysis.

En eitt er nú samt sem angrar mig meira en annað og ekkert þýðir að kvarta yfir því. Þetta vandamál verður bara að fá að hafa sinn gang, alla vega fram á þriðjudag, en þá verður tekið á því ef ég verð ekki búin að vinna á því sjálf.
Ég hef nefnilega hvorugt drenið losnað við ennþá. Það er þreytandi að dröslast með þessi dren daginn út og inn, annaðhvort hangandi næld utaná sig eða eins og ég geri þegar ég fer fram eða í matsal, en  þá hef ég þetta í skjóðu á öxlinni af því ég vil nefnilega ekki verða þess valdandi að fólk sem maður mætir á förnum vegi fái velgju eða falli í yfirlið ef þetta er óvarið. Þó það væri óneitanlega gaman að vita hvort ég ætti möguleika á því að geta sagt frá því svona á gamalsaldri að  karlmaður á hótelinu hafi fallið kylliflatur að fótum mér, þá ætla ég ekkert að láta á það reyna, svo ef þið heyrið fréttir af  slíku héðan,  þá er það ekki  af mínum völdum – „sorrý“.

En svona gamanlaust þá er það hundfúlt að losna ekki við þessi dren,  því slöngurnar sem ganga inn eru harðar og  særa mann.   Ég veit að ég losna ekki enn við þau í dag sunnudag því það er of mikið komið í þau. Þetta verður bara að hafa sinn gang.  Ég þarf nú ekki að kvarta þegar ég er laus við flökurleikann og svimann, sem eru mínir verstu óvinir hvar og hvenær sem er. En þessir smámunir með drenin eiga hins vegar eftir að ganga yfir og vonandi fæ ég góðar fréttir hjá lækninum á næsta föstudag svo ég geti haldið upp á 17. júní með pompi og prakt. Auðvitað held ég upp á þjóðhátíðardaginn hvernig svo sem fréttirnar verða, því það nær enginn landi sem leggur árar í bát. 🙂

Kveðjur og knús til ykkar allra nær og fjær.

This entry was posted in Helstu fréttir.. Bookmark the permalink.

10 Responses to Brosandi við tölvuna á sunnudegi 10. júní 2012

  1. Katla says:

    Siðleysi mun seint hrjá þig þó glútenleysi herji og drenleysi sé ákjósanlegast. Kötluknúskveðja : )

  2. þórunn says:

    En hvað er gott að vita af þér skælbrosandi með málaðar varir, og gott að vita að þú ert farin að grínast með ástandið. Þetta verður allt betra með hverjum deginum sem líður. Hugsaðu þér hvað þú átt gott að geta verið með farsíma og tölvu með þér, það styttir stundirnar og gefur þér færi á að vera nær vinum og vandamönnum. Bestu kveðjur frá okkur Palla.

  3. Guðbjörg Oddsdóttir says:

    Ja hérna mín bara komin stuð ;0) Gott heyra að þér líður vel í dag. Í versta falli fara drenin á þriðjudag og það eru ekki nema tveir dagar þangað til. Ég heyri í þér í dag mamma mín og svo fer ég að geta heimsótt þig aftur eftir helgi.

    kv

    Guðbjörg

  4. Dandý says:

    🙂 gott að geta brosað

  5. Drenin eru afar leiðinlegur fylgilhlutur, en…það fer. Sé þig kannski á miðvikudaginn með kærri frá Bróa.

  6. Sigurrós says:

    Mikið er gott að sjá að þú ert komin í grínhaminn, mamma mín. Þú ert alltaf sama Pollýannan 🙂

  7. Steinunn Mar says:

    Gott að vita að allt gengur vel, Ragna mín.

    Skil þig vel að vilja losna við drenið, nógu er maður ruglaður samt eftir svona aðgerð. Ég sé að þú ert alveg á réttri leið andlega líka sem er frábært. Ég vil meina að við förum langt á því að vera jákvæðar og bjartsýnar og hlátur lengir jú lífið 🙂

    Sjálf áttaði ég mig á því þegar allt ferlið var búið að ég hafði aldrei orðið reið, þó svo að fólk væri alltaf að spyrja míg að því, tók þetta frekar á húmornum.
    En hvers vegna í ósköpunum ættum við líka að fara í fýlu og pirra okkur á þessu? Það hefur ekki hjálpað neinum svo ég viti til. Hins vegar er þetta heilmikill rússibani að spýtast út úr á hinum endanum og það tekur tíma að átta sig á hvað eiginlega gerðist.
    Hlakka til að hitta þig, þú átt eftir að rústa þessu, eins og unglingarnir segja!
    Heppin líka að eiga flottar dætur, fjölskyldu og vini sem hjálpa þér.

    Gangi þér áfram vel,
    kær kveðja frá einni sem útskrifaðist frá krabbameinsdeildinni með fyrstu einkunn og tandurhreint borð og er ennþá alveg gáttuð á því ;o)

  8. Hafdís Baldvinsdóttir says:

    Ragna mín mikið er gott að heyra að þú fékkst pláss á sjúkrahótelinu og að þér skuli vera farið að líða betur og aldeilis er nú húmorinn í lagi.Litla stelpan var skírð í gær og fékk nöfnin Hafdís Una í höfuðin á báðum ömmunum.Þetta var flottur dagur og allt gekk vel.Vona að þér líði sem allra best og þú losnir sem fyrst við drenin.

    Kær kveðja

    Hafdís Baldvinsd.

  9. Stefa says:

    Elsku Ragna mín,

    þér ferst þetta vel úr hendi eins og önnur verkefni sem þú hefur leyst um ævina. „Vandamálin eru til að takast á við þau“ -> ein af uppáhalds-setningunum mínum úr hinni frábæru mynd Stellu í Orlofi.

    Má ekki bara baka handa þér glútenlaust brauð (já eða kaupa) og koma og færa þér?

    *Knús* og bestu batakveðjur,
    Þín Stefa

  10. Ragna says:

    Enn á ný þakka ég ykkur öllum fyrir góðu kveðjurnar.
    Hafdís mín ég óska þér innilega til hamingju með nfnið á litlu elskunni ykkar, Hafdís Una er fallegt nafn og svo gaman þegar ömmurnar fá báðar nöfnur.

    Stefa mín það er þér líkt að vilja bara drífa í að baka handa mér brauð eða færa mér. Ég held ég þrauki þetta nú þessa fáu daga sem ég býst við að vera hér. Annars athuga ég þetta kannski á morgun, því þá þarf ég að fara í Stoð í Hafnarfirði og hver veit hvað verður á leið minni þangað.

    Knús á ykkur allar.

Skildu eftir svar