Brosandi við tölvuna á sunnudegi 10. júní 2012

Ég hef fengið svo ótalmargar kveðjur frá ykkur, sem ég er svo óendanlega þakklát fyrir og  sendi góðar kveðjur og knús til baka til ykkar.

Nú er ég farin að geta brosað að hinu og þessu sem hefur gerst í vikunni, eins og t.d. þessu, sem ég var að skrifa við komment frá Sigurrós.

” Skrifað 10/06/2012 kl. 9:14 f.h.

Já Sigurrós mín, þetta með glútenlausa tekexið er nú alveg yndislegt – svona eftir á, en þegar ég kom í fyrsta kvöldmatartímann hérna þá hafði ég nú enga lyst, en vissi að ég yrði að borða. En mér féllust alveg hendur þegar ég horfði á matinn sem var á boðstólum, eintómt glútenbrauð, en eins og ég hef sagt þá er brauð í kvöldmatinn. Ég spurði þann sem var að þjóna í matsalnum hvort hann ætti nokkuð glútenlaust brauð. Hann horfði svo bara spyrjandi ýmist á mig eða á brauðið á bakkanum og sagðist ekkert vita um það. Ég var svo sest í sætið með rúgbrauðssneið með osti þegar ég sá að hann kom með eitthvað í hendinni og kallaði yfir salinn „var ekki einhver að spyrja um glútenlaust?“ Ég gladdist í hjarta mínu og rétti varlega upp hendina og svaraði „Jú ég“ Þá kom hann mjög ánægður til mín með hvíta tekexköku í hendinni og spurði „Heldur þú að þetta sé kannski glutenlaust?“ Blessaður kallinn! En á þessum tímapunkti vissi ég ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta því maðurinn var greinilega að reyna að gera sitt besta þó árangurinn væri ekki meiri en þetta. Ég hafði hvorki heilsu þarna til að hlæja og ekki vildi ég fara að gráta. Í dag er ég hinsvegar glöð og í dag vil ég hlæja og finnst þetta alveg drepfyndið.”

Flökurleikinn er sem sé óðum að hverfa og sviminn er að langmestu leyti horfinn. Það sem ég finn fyrir í dag er orkuleysi sem er mjög eðlilegt og að hafa léttst svo mikið þessa vikuna að  líklega þarf ég að verða mér úti um axlabönd á buxurnar mínar svo ég missi þær ekki niður um mig, því þá gæti ég verið send heim af hótelinu vegna siðleysis.

En eitt er nú samt sem angrar mig meira en annað og ekkert þýðir að kvarta yfir því. Þetta vandamál verður bara að fá að hafa sinn gang, alla vega fram á þriðjudag, en þá verður tekið á því ef ég verð ekki búin að vinna á því sjálf.
Ég hef nefnilega hvorugt drenið losnað við ennþá. Það er þreytandi að dröslast með þessi dren daginn út og inn, annaðhvort hangandi næld utaná sig eða eins og ég geri þegar ég fer fram eða í matsal, en  þá hef ég þetta í skjóðu á öxlinni af því ég vil nefnilega ekki verða þess valdandi að fólk sem maður mætir á förnum vegi fái velgju eða falli í yfirlið ef þetta er óvarið. Þó það væri óneitanlega gaman að vita hvort ég ætti möguleika á því að geta sagt frá því svona á gamalsaldri að  karlmaður á hótelinu hafi fallið kylliflatur að fótum mér, þá ætla ég ekkert að láta á það reyna, svo ef þið heyrið fréttir af  slíku héðan,  þá er það ekki  af mínum völdum – “sorrý”.

En svona gamanlaust þá er það hundfúlt að losna ekki við þessi dren,  því slöngurnar sem ganga inn eru harðar og  særa mann.   Ég veit að ég losna ekki enn við þau í dag sunnudag því það er of mikið komið í þau. Þetta verður bara að hafa sinn gang.  Ég þarf nú ekki að kvarta þegar ég er laus við flökurleikann og svimann, sem eru mínir verstu óvinir hvar og hvenær sem er. En þessir smámunir með drenin eiga hins vegar eftir að ganga yfir og vonandi fæ ég góðar fréttir hjá lækninum á næsta föstudag svo ég geti haldið upp á 17. júní með pompi og prakt. Auðvitað held ég upp á þjóðhátíðardaginn hvernig svo sem fréttirnar verða, því það nær enginn landi sem leggur árar í bát. 🙂

Kveðjur og knús til ykkar allra nær og fjær.


Comments

10 responses to “Brosandi við tölvuna á sunnudegi 10. júní 2012”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *