Að bregðast ekki sjálfri sér.

Mér datt í hug fyrir nokkrum dögum, að kannski ætti ég ekki alltaf að vera svona rosalega dugleg og láta eins og ekkert sé að  þegar eitthvað gefur sig í skrokknum mínum eða þegar eitthvað bjátar á.  Líklega væri það ekki rétta aðferðin sem ég hef valið mér í lífinu að  brosa  bara endalaust og vera jákvæð, heldur reyna að vinna jafnóðum úr og  hætta að þjappa og þjappa.   Svo ég sé nú heiðarleg við sjálfa mig og aðra, þá hefur það komið yfir mig öðru hvoru að finnast eitthvað vanta til þess að taka þátt í og  tilheyra. Ég tók því sjálfa mig á eintal og talaði yfir hausamótunum á mér og sagði bara hreint og klárt – Hingað og EKKI lengra.  Það er nefnilega mjög auðvelt að finnast stundum flest sund lokuð, þegar maður  er að drepast í hryggsúlunni uppúr og niðurúr, með allt of háan blóðþrýsting,  í viðbót við brjóstakrabbann og fleira.  En, þegar maður hins vegar finnur að sundin eru farin að þrengjast þá er tímabært að gera eitthvað í málinu. Ég ákvað því að bíða ekki eftir því að þau lokuðust alveg því þá blasir bara þunglyndi við og sem betur fer hef ég ekki þurft að upplifa það nokkurn tíman.

Það hefur ekki hvarflað að mér í þessu krabbastandi, (sem mér finnst í raun aukaatriði í mínu heilsufari í dag, því allt gengur samkvæmt áætlun með það) að það væri eitthvað fyrir mig sem er svo sterk, að  athuga hvað væri í gangi hjá Krabbameinsfélaginu. Það hlyti að vera bara fyrir þá sem eru mjög veikir.

Ég ákvað hinsvegar í vikunni að kannski ætti ég að slaka á kröfunum til sjálfrar mín og kynna mér hvort eitthvað væri hjá Krabbameinsfélaginu sem ég gæti kannski  notað mér. Fyrsta skrefið sem ég tók var að hringja og eftir viðtalið var ég með línu í dagbókinni minni sem sagði að ég ætti að mæta í viðtal og slökun. Það var dásamlegt að fara í þessa slökun og nú á ég annan tíma í slíku.

Ég fékk svo senda dagskrá þar sem kom í ljós að á föstudaginn væri fyrirlestur sem  undir heitinu “Veikindi og vellíðan”.  Mér fannst þetta forvitnilegt heiti á fyrirlestri og ákvað að fara.  Þegar  komið var að þessu  þá  byrjaði ég hins vegar að vera með úrtölur við sjálfa mig. Ég þekkti enga sem væru að fara líka og kannski  væri þetta ekkert fyrir fólk sem allt gengi svona vel hjá eins og mér. Alla leiðina var ég að spá í að taka beygju og heim aftur, en hélt þó áfram. Þegar ég lagði bílnum í Skógarhlíðinni beið ég svo í bílnum góða stund og leitaði að afsökun  og íhugaði að fara aftur heim. Þá sagði innri rödd mín. “Ætlar þú virkilega að bregðast svona sjálfri þér?  Það skaðar ekki að kíkja í dyrnar.”  Ég gegndi eftir nokkrar vangaveltur og ákvað að far inn og sjá hvernig mér litist á.  Um leið og ég kom í salinn þá kom sú sem ég fór í slökunartímann hjá á móti mér með opna arma og mér leið strax betur og settist við borð við hliðina á hjónum sem ég kannast ekkert við –  Annað kom þó í ljós.

Þegar ég var nýsest þá segir þessi maður við mig “Heitir þú nokkuð Ragna? – og eftir andartak  – og ert Jónsdóttir.
Ég starði á manninn í spurn og stundi svo upp “Fyrirgefðu en ég átta mig ekki á því hver þú ert”  –
“Nei það er kannski ekki von en  við unnum einu sinni saman yfir sumar”.  Ég varð nú enn ringlaðri –
“Ég heiti Örn og þegar ég var 12 ára vann ég eitt sumar hjá Everest Trading Company og þá varst þú að vinna þar”

Ég varð nú orðlaus yfir því hvað maðurinn væri mannglöggur og hafði orð á því – Þá sagði konan hans  “og man hvað þú heitir – og föðurnafnið líka”
Ég var sjálf ekki nema svona líklega 17 eða 18 ára svo ég bara skil ekki að maðurinn, sem ég hef ekki séð síðan,  skyldi átta sig á þessu án þess svo mikið sem heyra nafnið mitt. Þegar ég fór svo að fara í huganum aftur til þessa tíma, þá mundi ég eftir þessum strák, sem var svo lipur að sendast og hjálpa til, því við vorum fá sem unnum hjá þessari heildverslun.  Svona er lífið nú stundum skemmtilegt.

Eftir frábæran fyrirlestur sem bar nafnið Veikindi og Vellíðan, svo fáránlega sem það annars hljómar, þá spjölluðum við saman nokkra stund og nú hitti ég þau aftur  í næstu viku í Qi-gong. Ég hlakka til að prufa það með góðu fólki.

Svona er nú lífið – allt undir manni sjálfum komið hvernig til tekst. 


Comments

6 responses to “Að bregðast ekki sjálfri sér.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *