Bara gaman að vera til – hugurinn fer á flakk að loknu sumri.

Nú skartar haustið sínum fegurstu litum sem við fáum að njóta í ríku mæli.  Já nú er enn og aftur komin ný árstíð og mikið elska ég þessar árstíðir okkar – alltaf þegar ein er komin þá er hægt að njóta hennar og byrja að hlakka til þeirrar næstu. Ég hef stundum sagt að ég myndi ekki þrífast þar sem ekki eru svona skýr árstíðaskipti eins og hér.

Við Haukur fórum um daginn í okkar árlegu haustlitaferð um Grafninginn og Þingvelli. Þetta er ómissandi þáttur í því að njóta haustsins. Það er svo gaman að taka myndir sem síðan er hægt að skoða aftur og aftur og þó ég sé að taka myndir af því sama og í fyrra, hitteðfyrra og árið þar á undan, þá er náttúran okkar svo dásamleg að hún er aldrei eins hversu oft sem komið er á sama stað – Við höfum yfirleitt fengið okkur kaffi á Þingvöllum, en nú langaði okkur frekar til þess að taka með okkur nesti og stoppa á fallegum stað og borða nestið okkar.

Þennan fallega stað völdum við til þess að draga upp kaffið okkar og meðlætið  og  vorum alveg sammála um að það væri miklu notalegra að drekka þarna heldur en að sitja inni á annars ágæta veitingastaðnum, þeim eina sem núorðið  er í boði  á Þingvöllum.

Svo er haustið líka svo góður tími til að hitta gott fólk. Flestir komnir heim úr sumarleyfunum, saumaklúbburinn fer aftur að hittast og það færist svona rólegheitablær yfir allt. Það er líka svo fallegt þegar sól fer að lækka á himni og gaman að kveikja á kertum öðru hvoru til að gera notalega stemningu.

 

Sumarið er alveg dásamlegur tími, en óneitanlega fylgir því  svona ákveðið sumarstress og hraði því þá á allt að gerast. Það er samt þetta sama stress sem gerir jú  sumarið svo skemmtilegt –  Já, stundum er það nefnilega sem andstæður mætast og bæta hvor aðra upp.
Hafið þið t.d. tekið eftir því hvað fólk er alltaf á þönum allt sumarið? Það eru aldrei fleiri að versla í matvöruverslununum en á sumrin og allir að flýta sér. Ýmist er fólk að fara í útilegur eða heim að grilla því það verður jú að grilla á sumrin og helst á hverjum degi, því á sumrin er það svo púkó að standa með svuntuna á maganum og hræra í pottum við eldavélina. Það er líka séð fyrir öllu hvernig sem viðrar, því nú eru t.d. gasgrillin komin með himinn yfir svo ekki þurfi að standa í regnkápu við matseldina.  Ef sleppt er helgi til að fara eitthvað, þá er maður eiginlega með samviskubit yfir því að vera bara heima, þó það sé líka svo ljúft að njóta þess.  En krafan er eiginlega sú að allir þurfi að vera að fara eitthvað og gera eitthvað -ALLTAF.  Það er líka hægt að mæta kröfunni um það að vera  í stuði,  með því að njóta þess að vera stöku sinnum heima, skreppa kannski í sund,  göngutúr, bíltúr eða bara að sitja úti á svölum hjá sér með gott kaffi í bolla.  Já lífið á sumrin er skemmtileg blanda og auðvitað finna allir eitthvað sem þeim hentar og njóta, sér og öðrum til ánægjuauka.

Þetta sumar hjá mér hefur verið aðeins með öðru sniði en önnur sumur og minna farið í ferðalög að þessu sinni, en því betur hef ég notið þess að vera til og þess sem ég hef fengið að njóta heima og heiman með fjölskyldu minni, því það er bara ekkert sjálfgefið að vera sá lukkunnar pamfíll sem ég er, að fá að njóta alls þess sem sumarið hefur haft uppá að bjóða og nú haustið með sínum fallegu dögum og kvöldum. Ég segi aftur það sem ég hef áður sagt að við eigum að vera þakklát fyrir hvern dag sem okkur er gefinn og gleyma því ekki að það eru aðrir sem ekki eru færir um að njóta þess sem við erum sjálf að njóta hvern dag.

Þessar vangaveltur hafa alveg tekið af mér völdin svo ég geymi bara þar til síðar það sem ég ætlaði að spjalla um –  Stundum sest maður bara við tölvuna og leyfir síðan  fingrunum að leika sér á lyklaborðinu og  færa inn á síðuna sína beint  úr hugarfylgsnunum það sem þá stundina er að gerjast þar – Best að vera ekkert að  trufla það með því að reyna  að kalla fram eitthvað annað – eitthvað sem maður heldur að sé merkilegra.

Bókin mín góða segir – og hefur auðvitað rétt fyrir sér eins og alltaf:

“Hvers vegna skyldum við leita hamingjunnar í fjarlægðinni þegar hún vex héna rétt fyrir framan tærnar á okkur.

 

 


Comments

5 responses to “Bara gaman að vera til – hugurinn fer á flakk að loknu sumri.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *