Bráðavaktin – ný saga um sparnað.

Aðeins um heilbrigðiskerfið og sparnaðinn. – Á sama tíma og byggja á risastórt hátæknisjúkrahús, þá er niðurskurðurinn orðinn svo mikill og furðulegur í núverandi heilbrigðiskerfi að það erfitt að botna í því hvað er sparnaður og hvað er bara rugl. Nú ætla ég að segja ykkur smá sögu af mér í vikunni.

Ég varð skyndilega svo kvalin yfir um mig eitt kvöldið í vikunni og enn einu sinni stökk blóðþrýstingurinn í hæstu hæðir. Ég ætlaði að hrista þetta af mér, en taldi svo rétt að tala við lækni.  Það er búið að taka af þjónustu kvöld- og næturlæknanna, sem komu heim til manns um helgar og á nóttunni, en í staðinn eiga nú allir að fara á Bráðavaktina, eftir að vaktin í Smáranum lokar á kvöldin. Ég varð því að fara þá leið,  þó  það væri fjarri mér mér að velja þann kostinn.

Eftir skikkanlega bið á biðstofunni þarna rétt fyrir miðnættið, þá skjögraði ég inn í fyrstu skoðun.  Ég ætla ekkert að orðlengja pistilinn með því að tíunda  hvað var sagt og gert, en láta þetta snúast um verklagið hjá þeim blessuðum þarna í Fossvoginum.  Eftir svona frumrannsóknir var mér gefið verkjalyf, en þá var klukkan held ég  eitthvað milli kl. eitt og tvö um nóttina.  Ég leit síðast á klukkuna rúmlega hálf þrjú, en eftir það hef ég  loksins dottað.  Ég hrökk svo upp við það að ýtt var við mér og mér sagt að nú yrði ég að fara heim, “enda væri mikið betra að sofa þar”  ( ???)  og skýringin var sú, að það væru engar myndatökur eða ómskoðanir á kvöldin og á  nóttunni núna. Það væri nýbúið að taka það af nema líf liggi við. Hinsvegar ætti ég að mæta strax aftur um morguninn þegar röntgendeildin opnaði aftur.  Auðvitað hlýðir maður og ég náði að  komast í leppana og skjögra fram á biðstofu þar sem ég hringdi á leigubíl. Þegar ég var loks komin inn í leigubílinn, þá játa ég, að ég var gráti næst. Ég leit á klukkunna, sem var hálf fjögur.  Það er skemmst frá því að segja að enginn varð svefninn þegar heim var komið  og Haukur keyrði mig svo niður eftir aftur í morgunsárið.

Ég gerði vart við mig á sama stað þarna um morguninn og sagðist hafa verið þarna um nóttina, en ætti að fara í fleiri rannsóknir.  ” Já, þá er það endurkoma, sagði stúlkan í afgreiðslunni. Það er uppi á næstu hæð”  Eftir að hafa maldað aðeins í móinn og sagt að ég hefði átt að koma aftur á Bráðavaktina, þá kom ég mér upp á endurkomudeildina. Þar átti ég að segja í hvaða rannsókn eða myndatöku ég ætti að fara í, en mér var ekkert sagt það nákvæmlega þarna um nóttina, bara fleiri rannsóknir og röntgen.  Mér var boðið að fá mér sæti og bíða, það yrði kallað á mig. Það voru nokkrir komnir á biðstofuna og margir áttu eftir að bætast við. Þegar ég var búin að bíða þarna drykklanga stund, þá tók ég eftir því að bæði þeir sem komu á undan og á eftir mér höfðu verið kallaðir inn, ýmist inn á röntgendeild eða inn á gang.  Þá fór ég og spurði hvort það væri ekkert búið að finna út hvað ætti að gera við mig. Ég fékk það svar,  að  það væri teymi þarna fyrir innan sem væri að vinna í þessu, ég skyldi bara fá mér sæti á meðan –    Enn beið ég góða stund þá kom loks stúlka sem vísaði mér inn á herbergi í  gangi sem ég hef komið á áður, því þar eru m.a. bakskurðlæknarnir með aðstöðu og mér datt í hug að kannski ættu þeir að skoða mig.  Það var enginn í herberginu og hún benti mér á stól til að setjast á og einnig á bekk ef ég vildi leggjast útaf, síðan fór hún aftur fram. Ég var fljót að velja bekkinn, eftir að prufa stólinn nokkra stund.  Þarna upphófst önnur bið, þangað til sama stúlkan kom og sagði að þetta væri allt misskilningur – ég hefði átt að fara strax inn á Bráðavaktina  niðri – Halló!  einmitt – þangað sem ég kom fyrst um morguninn.  Jæja hún sagðist ætla að fylgja mér niður og fór með mig einhverja bakaleið niður með lyftu  og í gegnum Bráðavaktina þar sem ég hafði legið í rúmi um nóttina og þaðan  fram á biðstofuna. Þá var ég sem sagt aftur komin á byrjunarreit og var sagt að fá mér sæti – það yrði kallað á mig.  Hún mátti þakka fyrir að ég er sæmilega skilningsrík,  því annars veit ég ekki nema ég hefði farið að hreyta í þessa manneskju einhverjum ónotum, en þetta var auðvitað ekkert henni að kenna hvernig komið var. Loksins eftir enn eina biðina og komið  undir hádegi, var ég svo kölluð inn og drifin upp í nýtt rúm. Þar var ég síðan í rannsóknum (myndatökum o.fl)  til klukkan sjö um kvöldið.

Nú spyr ég : Í hverju er svona sparnaður fólginn? Er það sparnaður, að rífa upp sjúkling  og senda hann heim klukkan hálf fjögur  um nótt  til þess eins að láta hann mæta aftur strax um morguninn  og taka þá upp nýtt rúm, því þegar sjúklingur fer úr rúmi er það sótthreinsað  og skipt um rúmföt á því?  Ég tók eftir  því þegar ég komst loksins þarna inn aftur, að bæði rúmið sem ég hafði verið í um nóttina og fleiri rúm voru auð.

Ég vil taka það fram að hjúkrunarfræðingur, sem tók á móti mér þarna undir hádegið var alveg gáttuð á þessum þvælingi og sagðist biðja mig innilega afsökunar fyrir hönd spítalans.  Hún sagði að það væri alveg nýtt fyrirkomulag í gangi, því nú væri hætt að taka röntgen og fleiri slíkar rannsóknir frá klukkan sjö að kvöldi til morgun, nema líf lægi við. Þeim bæri því að senda fólk heim á milli.  En að rífa fólk upp um miðja nótt og senda það heim fyrir örfáa klukkutíma væri bara ekki mannlegt og hlytu að vera mistök.

Af því að alltaf er verið að tala um nýja hátæknisjúkrahúsið sem á að verða fullbúið tækjum og allar deildir mannaðar ( sem óskandi er að verði reyndin), þá vakna  spurningar um það  hvar fjármunir eigi að fást ttil þess að reka slíkt risabákn,  ef miðað er við að ekki er hægt að hafa ástandið í dagi betra en raun ber vitni.  Tækin í dag eru mörg hver límd saman með límböndum og orðin löngu úrelt og það er skorið svo svakalega  niður í öllum rekstri spítalans að  starfsfólkið veit varla lengur sitt rjúkandi ráð, því alltaf er verið að bæta við nýjum og nýjum niðurskurði.  Getur t.d.einhver upplýst mig um það hvort meðferðin á mér telst sparnaður???

 

 


Comments

2 responses to “Bráðavaktin – ný saga um sparnað.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *