Litið til baka yfir árið 2012

Þgar ég lít yfir árið 2012 þá hefur það að mörgu leyti verið mjög sérstakt, bæði mjög ánægjulegt en á stundum nokkuð erfitt, en eins og alltaf þegar á móti hefur blásið í mínu lífi þá hefur verið séð til þess að ég komi standandi niður.

Um miðjan janúar var ég alveg á fullu að skipuleggja mikla ferð með Hauki, sem ætlaði til Danmerkur með húsbílinn. Fyrst átti að fara í sextugsafmæli til systurdóttur minnar á Bornholm og síðan í brúðkaup á Jótlandi og aka þá í gegnum Þýskaland. Ég var búin að skoða allar ferjuferðir, verð og vegalengdir þegar sú staða varð augljós, að bæði afmælið og brúðkaupið voru á sama deginum í júlí.  Það var því snarlega breytt öllum plönum og ákveðið að ég færi í afmælið til Bornholm en Haukur í brúðkaup dótturdóttur sinnar á Jótlandi. Lengi vel stóð þessi áætlun nokkurn veginn, en okkur var ekki ætlað að hún gengi eftir því á vormánuðum kom annað upp.

Í framhaldi af þessu ákváðum við að fara til Tenerife í sólina í lok janúar til þess að hlaða aðeins batteríin, en varla hafði ég pantað ferðina þegar ég fékk mjög slæman lungnavírus sem kostaði innlögn á bráðavakt og mikið af sterum og fúkkalyfjum. Sem betur fer fékkst ferðinni frestað fram í febrúar og þá fannst mér ég bara orðin alveg nógu frísk til þess að fara og ná mér svo enn betur í sólinni.  Það gekk nú ekki betur eftir en svo, að vírusinn tók sig upp aftur og eftir allmargar heimsóknir á læknastofu þar þá vildi læknirinn að ég færi inn á spítala. Þegar þarna var komið sögu þá hafði Haukur legið í magapest í nokkra daga en var orðinn frískur. Við virtumst því ætla að vera veik til skiptis í sjálfri sólarparadísinni.
Ég var sem sagt lögð inn á spítala þarna á Tenerife í nokkra daga og það leit síðan út fyrir að ég fengi ekki að útskrifast til þess að komast heim á  brottfarardegi. Ég náði hins vegar útskriftinni með því að setja á mig smá varalit og smá lit í kringum augun og halda niðri í mér hóstanum á meðan læknirinn kom á stofugang. Hann sagði strax á sinni bjöguðu ensku” Look better to day. Feel better? ”  Já ég hélt það nú. Ég náði  því útskriftinni með klækjum og komst heim með fluginu daginn eftir á stórum skömmtum af steratöflum og fúkkalyfjum.   Ég jafnaði mig síðan á þessu á næstu vikum með aðstoð lungnalæknis hérna heima.

Nokkru siðar fór ég í brjóstamyndatöku vegna kvilla sem ég hafði fundið fyrir tvisvar áður og í bæði skiptin verið tappað af vökva. Nú reyndist þetta hinsvegar vera annað og meira, svo í apríl var ég greind með brjóstakrabbamein.  Ég var svo heppin að láta þetta ekkert slá mig út af laginu og var frá fyrstu stundu viss um að allt gengi vel, eins og það hefur reyndar gert.  Svona dæmi snýst nefnilega um bjartsýni,  tíma og þolinmæði, –  öðru ræður maður ekki yfir sjálfur. Ég sagði að ég vildi láta taka allt saman og sauma svo bara fyrir, en var sagt að ég þyrfti nú aðeins að hugsa mig um því það væru fleiri úrræði en að sauma bara fyrir og ekki sé ég eftir að hafa valið að fara í uppbygginguna 🙂 .  Ég  á varla orð til þess að dásama alla sem að þessu komu, bæði hjúkrunarteymið, skurðlækninn og alla hina. Þetta blessað fólk heldur svo þétt utanum mann að betra gæti það ekki verið  ♥ .

Þetta gerði það að verkum, að Bornholm hjá mér og brúðkaupið sem Haukur ætlaði í á Jótlandi varð að engu. Haukur vildi ekki fara í burtu ef ég þyrfti á aðstoð hans að halda hérna heima, en Danmerkurferðin var bara rúmum mánuði eftir stóru skurðaðgerðina hjá mér.  Ég ætla ekkert að tíunda þetta meira, því auðvitað er ég búin að segja frá þessu öllu og þetta má lesa í sarpinum hérna til hliðar.

Nú kemur að þessu sem er mun skemmtilegra.
Við skruppum í nokkrar styttri ferðir á húsbílnum og fórum m.a. með  Guðbjörgu, Magnúsi Má og Ragnari Fannberg í Galtalækjarskóg og áttum þar dásamlega daga.

Í september  fórum við Haukur svo til þess að vera yfir helgi að Gufuskálum með afkomendum móður minnar. Því miður voru nokkrir, þar á meðal dætur mínar sem ekki gátu komið en þetta er og verður mjög eftirminnileg helgarferð. Haukur fór á húsbílnum og þrátt fyrir kalsalegt veður var funhiti í bílnum og við höfðum það fínt.  Þarna við rætur Snæfellsjökuls upplifði ég alveg sérstakt ævintýri. Þór systursonur minn og sonur hans Ægir sem báðir eru björgunarsveitarmenn, fóru með hópinn til þess að skoða Vatnshelli, sem nú hefur verið gerður þannig að hægt er að komast niður í iður jarðar með hjálp tveggja sérhannaðra langra hringstiga.  Vitaskuld má ekki fara þarna niður án fararstjóra, en við vorum svo heppin að hafa þá í okkar röðum, þar sem feðgarnir Þór og Ægir voru.  Allir fengu hjálma og vasaljós til þess að sjá niður fyrir fætur sér, því þarna var alveg niðamyrkur, eins svart og myrkur getur orðið. Þetta var upplifun sem ég á aldrei eftir að gleyma.
Svo grilluðum við fjölskyldan saman um kvöldið og skemmtum okkur hið besta við að segja gamlar sögur úr fjölskyldunni og unga fólkið kom upp alvöru Útsvars spurningaþætti. Gæfumuninn gerði að við höfðum svo góðan samastað í sal sem Þór og Dandý höfðu yfir að ráða því mjög kalt var í veðri og hvasst þessa helgi. Við nutum þess að vera þarna öll saman og svo var endað á varðeldi seinna kvöldið.  Þetta var alveg dásamleg helgi 🙂

——————–
Dæturnar eru  alltaf á fullu í kennarastörfum sínum og tengdasynirnir báðir í tölvugeiranum, annar hjá Ísavía og hinn hjá Íslandsbanka. Barnabörnin stækka óðum og í haust fór Karlotta, stóra ömmustelpan mín norður á Akureyri til þess að  fara í MA. Mín ákvað nefnilega að fara beint úr níunda bekk upp í menntaskóla en það er ekki í boði hérna í höfuðborginni – Ég hef fulla trú á að hún nái að koma standandi niður úr þessu stóra stökki á menntabrautinni sinni þó það hljóti að taka á.  Svo var hún að syngja með þremur skólasystrum sínum á ýmsum stöðum fyrir jólin, m.a. í Menningarmiðstöðinni Hofi og þar sá ég þær syngja í sjónvarpi N4. – Oddur er vaxinn ömmu yfir höfuð en hann á að fermast núna í vor,  Ragnar Fannberg er byrjaður í skóla og Ragna Björk fer í skóla næsta haust, en Freyja Sigrún er hinsvegar á sínu fyrsta ári í leikskólanum.

Árið hefur þrátt fyrir allt verið gott ár því allt er gott sem endar vel.- Ég hefði alveg kosið að hafa meiri orku og hef verið að berjast við vandamál, sem er erfitt að finna út úr, en ég fer örugglega að fá bót á því. Ég hef svo miklu meira sem ég get verið þakklát fyrir svo ég má ekki kvarta :).
Nú eru jólin liðin og ég hef ekki þurft að lyfta litla fingri til þess að gera neitt að þessu sinni. Strax eftir áramótin verður svo sótt ferðataska út í skúr og ég fer að pakka niður íþróttaskóm, sundfötum, æfingafötum og einhverju til að vera í á kvöldin, því ég fékk tilkynningu um það núna í desember að eiga að fara í Hveragerði í endurhæfingu í fjórar vikur. Vonandi hressist ég það mikið við það ég geti farið að komast í ræktina og loksins farið að taka krabbameinslyfið sem ég á að taka fyrirbyggjandi í 5 ár, en því hefur aftur og aftur verið frestað því ég þyki ekki alveg nógu hress til að takast á við það.  Ég tók hinsvegar strax í vor maratæðið í gegn og reyni eftir bestu getu að sniðganga sykur, mjólk , hveiti (tók reyndar út allt mjöl) og ger í þeirri von að það hjálpi mér.  Ótrúlegt hvað það er búið að ganga vel frá því ég ákvað að fara út í þessa breytingu. Það sannast sem oft er sagt að “Vilji er allt sem þarf”.

Ég blæs á þá hjátrú að 13 sé verri tala en aðrar tölur og hlakka nú mikið til þess að takast á við árið 2013.

Ég þakka ykkur sem heimsækið heimasíðuna mína, ég sé á yfirliti að það eru ótrúlega margir á hverjum degi þó fáir kvitti.

Ég óska ykkur allra heilla og farsældar á komandi ári.
Þakka ykkur öllum sem hafið sýnt mér stuðning í veikindunum mínum  því
það er ómetanlegt að vita af góðum óskum og bænum þegar tekist er á við veikindi og aðgerðir.
Þakka ykkur einnig fyrir allar skemmtilegu stundirnar  sem við höfum átt saman.
Ég sendi góðar kveðjur og stórt faðmlag til ykkar allra.

 


Comments

7 responses to “Litið til baka yfir árið 2012”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *