Hafa skal það sem hendi er næst.

Það er alltaf gott að byrja nýtt ár. Nýtt ár felur nefnilega í sér nýtt upphaf, nýja möguleika og alveg óskráðan kafla í lífssögu okkar.  Saga nýja ársins verður ekki önnur en sú sem við tökum sjálf þátt í að semja, svo það er kannski best að byrja strax að hafa það hugfast.

Ég hef aldrei strengt önnur áramótaheit en þau að nýta hvert ár eins vel og ég get og taka því sem að höndum ber. Það eru ekki allar sögur gleðisögur út í eitt – Nei þær sögur eru oftast bestar sem innihalda  allt í einni bók, spennu, alvöru og gleði  svona í góðu blandi eins og í lífinu sjálfu. Ég endaði á því að telja upp gleði því auðvitað eiga sögur að enda vel. Að hafa handrit að lífi okkar í byrjun hvers árs er ekki í boði, enda væri það ekkert smá stressandi og leiðinlegt að þurfa að fylgja slíku handriti.  Okkur er þó ætluð ákveðin atburðarrás sem við getum að hluta til ekki ekki breytt, en höfum samt þann möguleika að geta stjórnað henni að talsverðu leyti með hugarfari okkar.  Með hugarfarinu stjórnum við nefnilega gjörðum okkar og viðbrögðum, ásamt því hvernig við komum fram við aðra og hvernig við tökumst á við erfiða kafla í sögunni okkar og finnum þeim gleðilegri farveg.  Okkur er líka gert mögulegt að telja okkur trú um að hlutirnir gætu verið enn verri en þeir eru hverju sinni og að við eigum að vera ánægð með það sem við höfum, en eyða ekki sífellt orku í að hugsa um eitthvað sem okkur stendur ekki til boða. Ég man eftir gömlu sögunni um kerlinguna sem ætlaði að elda súpu og átti bara einn nagla til að setja í pottinn sinn og úr varð hin besta súpa. Þessi saga hefur verið mér minnisstæð síðan ég las hana í barnaskóla fyrir nálægt 60 árum. Í henni var máltækið “Hafa skal það sem hendi er næst og hugsa ekki um það sem ekki fæst”.  Þetta kemur mér oft í hug, hvort sem ég er að elda mat eða gera eitthvað annað. Mér hefur alltaf þótt svo mikil speki í þessum orðum. Það er nefnilega alveg ótrúlegt hvað hægt er að gera úr litlu sem engu ef hugarfarið er jákvætt. Já þannig vildi ég svo gjarnan lifa lífinu þó misjafnlega takist þó til .

Nú hef ég naglann til að sjóða úr súpu fyrir þetta árið. Spurningin er hvað ég finn til þess að krydda súpuna með, en ég er ekkert hrædd um að finna ekki  eitthvað eins og ég er vön að gera. Um áramótin 2013/2014 getum við fjölskylda mín og vinir síðan  vonandi verið sammála um að súpan þetta árið hafi verið mjög góð.

———————————-

Fyrsta kryddið í súpuna mína verður að fara á Heilsustofnun í Hveragerði og vera þar í fjórar vikur. Á föstudaginn hefst sá kafli.


Comments

3 responses to “Hafa skal það sem hendi er næst.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *