Fyrstu sólarhringar á HNLFÍ í Hveragerði.

Ég kom hingað í gærmorgun á  föstudegi – Skrýtið að láta mann mæta á föstudegi bara til að bíða með allt til mánudags. Mér fannst þangað til í hádeginu í dag, að ég væri komin í stofufangelsi, þó ég hafi nú reyndar aldrei prufað það.

Ég var búin að vera að lesa inni á herbergi og tengja svo öðru hvoru tölvuna við símann minn og mér bara hundleiddist. Ég hel ég hafi aldrei áður á ævinni upplifað það að halda að ég væri að verða þunglynd, og það eftir sólarhring á Heilsustofnun – Halló, mig langaði bara aftur heim til mín.

Svona leið gærdagurinn og morguninn, en þegar ég kom úr hádegismat í dag spurði ég sjálfa mig „Hvar er jákvæðni þín  kona“?  Það hefur nefnilega ekki farið mikið fyrir jákvæðninni síðan ég kom og byrjaði að bíða eftir að helgin líði og ég komist i gang með eitthvað. Ég fékk gamalt herbergi með svo mikilli fúkkalykt að mér varð óglatt þegar ég kom þar inn, en ég hafði galopinn glugga allan daginn svo ég náði að lofta út, eða ég er orðin samdauna – veit ekki hvort heldur er. Það kom svo í ljós þegar ég kvartaði, að þetta herbergi hefur ekki verið notað lengi svo það er kannski skýringin.  Ég hef þrátt fyrir þetta með herbergið haldið mig þar milli matartíma, þar til eftir hádegið í dag þegar ég loks tók mér tak og sagði hingað og ekki lengra því svona þýddi ekki að halda áfram.

Jákvæðnin fór að vakna aftur eftir hádegismatinn, en þá brá svo við, að nú var laust sæti í pínulitla  kaffiskotinu  sem aðeins rúmar níu manns og ég notaði tækifærið og settist þar inn og sníkti mér jafnframt smá lögg af kaffi. Kaffi er reyndar forboðinn drykkur hér nema það sem fólk laumast til að drekka í þessu litla skoti. Ég var nokkrum sinnum búin að líta þarna við frá því ég kom í gærmorgun, en alltaf var setið þar í hverju sæti og aðrir sem stóðu í dyrunum. Nú var ég hinsvegar heppin að komast innfyrir. Þarna var skvaldur og glens og viti menn, mér fannst ég strax losna úr þessari einangrun og fannst ég ekkert vera í stofufangelsi lengur. Ég naut þess að hlusta á það sem þarna var í gangi á meðan ég sötraði kaffilöggina,

Nú klukkan hálf fimm hef ég ekki komið inn í herbergið frá því í hádeginu. Ég fór með tölvuna hérna inn í alrýmið þar sem hægt er að vera í beinu tölvusambandi og mikill munur á því að sitja hér, en ekki ein í dimmu herbergi og finnast ég vera í stofufangelsi.

Jákvæðnin er sem sagt fundin og það sannast sem fyrr að hún verður alltaf að vera til staðar ef vel á að ganga. Félagsskapur á nýjum stað kemur ekkert á silfurfati og það þýðir ekki að sitja fúll í sínu horni og biða eftir því að aðrir láti manni líða vel og þá verði gaman.  – Það gerist akkúrat ekkert á þann hátt. Ég sé bara hvað ég get verið þakklát fyrir að hafa ekki þurft að hafa þessa tilfinningu  nema í sólarhring, því sumir búa með svona förunaut alla ævi.
Alltaf eitthvað sem maður getur þakkað fyrir – bara að leita í sínu eigin hugskoti fyrst.

Á mánudaginn á allt að fara í gang og ég fæ að vita hvað mér stendur til boða hér og hvaða fyrirmæli hafa fylgt umsókninni minni. – Ég hef enga hugmynd um það , vissi fyrst ekki einu sinni hver hefði staðið fyrir því að ég er send hingað. Núna veit ég hinsvegar að krabbameinslæknirinn stendur fyrir því að hingað er ég mætt og ég á örugglega eftir að vera þakklát fyrir það.


Comments

8 responses to “Fyrstu sólarhringar á HNLFÍ í Hveragerði.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *