Farið langt aftur í tímann.

Við systur mættum samviskusamlega í sundleikfimina í dag þegar í ljós kom að hún féll niður. Okkur fannst nú að við yrðum að gera eitthvað af okkur fyrst við vorum búnar að ætla tímann í þetta. Auðvitað hefði legið beinast við að við færum bara sjálfar í sund eða færum í göngutúr eða gerðum eitthvað heilsusamlegt. En, nei, við ákváðum að fara og fá okkur kaffi og eplaköku með rjóma í kjallaranum á Miðgarði hjá keramikkonunni. Þetta er mjög skemmtilegt lítið kaffihús í keramikgalleríi og kaffið er alveg svakalega gott, einhver blanda frá Te og Kaffi.
Þegar við komum af kaffihúsinu fórum við hérna heim til mín og duttum um hundrað ár aftur í tímann. Ég var með hérna kassa úr dánarbúi foreldra minna, sem við systur áttum alltaf eftir að fara í gegnum og skoða. Þarna voru eldgömul skjöl. Við fundum meira að segja fæðingarvottorð afa okkar frá því fyrir fyrri aldamót. Við fundum líka handrit að fyrsta Tómstundaþættinum hans pabba. Heilan helling af bréfum til þáttarins sem öll innihéldu ýmsa barnaleiki. Það væri gaman að fara betur í gegnum það og koma því í tölvutækt form ef svo ólíklega vildi til að það væri aftur hægt að koma börnum til þess að leika sér, annaðhvort úti eða inni.
Já við fundum þarna ýmsar gersemar eins og dagbækur pabba frá þeim tíma sem þau bjuggu fyrir vestan, í Svansvík og á Reykjanesi, þegar Dússý var lítil, Edda pínulítil og ég auðvitað alls ekki fædd. Við vissum t.d. ekki að pabbi hefði ort vísur. En við vissum að mamma gerði það. Það er hinsvegar alltaf spurning hvað maður á að vera að geyma svona hluti en þarna liggja okkar dýpstu rætur og það er mjög fróðlegt að fara í gegnum þetta. Hvað okkar afkomendur síðan gera verður þeirra mál.
Við systur svoleiðis gleymdum okkur gjörsamlega við þetta að Edda áttaði sig allt í einu á því að Jón væri örugglega kominn heim til að borða og hún ekki einu sinni farin að huga að matnum. Ég þurfti hinsvegar ekkert að hafa áhyggjur af slíku því Haukur er í bænum og ég henti bara frosnum fiski og kartöflum í pott og át svo með bestu lyst um hálf áttaleytið.

 

Nú er næst á dagskránni hjá mér að horfa á Innlit útlit og síðan í rúmið því nú vakna ég klukkan sjö á hverjum morgni þangað til Guðbjörg getur sjálf farið að keyra með krakkana í skólann. Það verður vonandi eftir föstudaginn þegar umbúðirnar verða teknar af fótunum á henni.

 

——–


Comments

One response to “Farið langt aftur í tímann.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *