Hjálp óskast við að skipuleggja sumarleyfi á hjólum.

Nú er líklega ágætt að nota ofsarok og snjókomu til þess að skipuleggja sumarleyfið sitt.  Við vorum alveg óráðin í því hvað við gerðum í sumar en  þegar ég talaði við systurdóttur mína á Bornholm um jólin þá kom upp ný hugmynd. Hún Erna frænka bauð okkur nefnilega í sextugsafmælið sitt um miðjan júlí. Haukur var ákveðinn að fara út á Jótland til þess að heimsækja fjölskylduna sína þar, svo útkoman er sú að nú þarf að setjast við að pússla.

Við höfum verið að velta því  fyrir okkur hvort við ættum að fljúga til Kaupmannahafnar og þaðan til Bornholm og aftur til Kaupmannahafnar og fram og til baka til Söndeborg svo við náum að fara á báða staði.  Þá á eftir að finna gistingu á báðum stöðum. – Eg verð nú að játa að ég hefði svo sem ekkert á móti slíku skipulagi.
Hugmyndin er hins vegar sú að fara með húsbílinn í Norrænu til Danmerkur til þess m.a. að vera með húsaskjól allt ferðalagið og sjá okkur um í leiðinni.  Við höldum að ferjan komi til Hanstholm. Þaðan myndum við aka yfir Stórabeltisbrúna til Kaupmannahafnar og hugsanlega til Ystad í Svíþjóð og fara þaðan með ferju yfir á Bornholm.  Vera í paradísinni Bornholm í einhverja daga og fara síðan með ferju yfir til Þýskalands og aka þaðan  og fara yfir landamærin til Suður- Jótlands, en þá erum við sama sem komin til Hullufjölskyldu. Síðan færum við aftur heim með ferjunni sæl og glöð.

Mikið er þetta rosalega einfalt þegar það er sett svona niður – bara svona og svo svona. Við vitum auðvitað ekkert í okkar haus hvernig best væri að framkvæma svona ferðalag ef af yrði og höfum aldrei ferðast á bíl erlendis nema svona stuttar dagleiðir úti á Jótlandi.

Við þurfum að komast  að eftirfarandi, og sjálfsagt miklu fleiru en hefst nú lesturinn:

1. Hverjar vegalengdirnar eru á milli staða.
2. Hvaða leiðir er best að fara
3. Hvaða kostnaður er við ferjuferðir, vegatolla og þess háttar.
4. Hvar við finnum  stæði til að vera með húsbílinn á, þar sem við stoppum og fleira og fleira.

5. Er svona ferðalag ráðlegt fyrir óvant fólk á okkar aldri.

Ef eitthvert ykkar sem ratar hérna inn á heimasíðuna mína þekkir eitthvað til svona ferðalaga, eða getur bent okkur á hvernig best er að skipuleggja slíkt og finna út kostnað – eða kannski komið okkur í samband við einhvern sem hefur farið í álíka ferð, þá endilega látið mig vita.

 

 


Comments

4 responses to “Hjálp óskast við að skipuleggja sumarleyfi á hjólum.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *