Hugleiðingar mínar um silikon og ábyrgð.

Ég tek það fram að hugleiðingar þessar eiga eingöngu við um tískufyrirbærið en ekki annað.

Það fer ekki fram hjá neinum sem fylgist með fjölmiðlum að konur eru með brjóst. Hérna áður fyrr voru þau af öllum, stærðum og gerðum og voru þær sem þau báru ýmist ánægðar eða óánægðar með sín brjóst.  Mæður gáfu börnum sínum að drekka úr brjóstum sínum, stórum og smáum,  og engin hætta var á því að aukaefni bærust úr brjóstinu til barnsins nema þá ef móðirin hafði borðað eða drukkið eitthvað óæskilegt.

Nú er öldin önnur og nú skulu konur á öllum aldri bera brjóst samkvæmt fyrirfram ákveðnum stöðlum, og þegar ég segi konur, þá á ég við konur allt niður í fermingarstúlkur.  Brjóstin skulu alltaf  fylla á réttan hátt út í fötin og  alltaf halda réttu lagi sínu, hvort sem staðið er, setið,  eða lagst niður. Ekki fer framhjá neinum sem gengur um sólarstrendur eða sundlaugabakka, hvaða konur uppfylla staðalinn því þessi “fullkomnu” brjóst vísa alltaf beint fram.

Þessi tískubóla eins og aðrar slíkar náði  vitanlega til Íslands og Guð má vita hversu margar íslenskar konur hafa nú brjóst  samkvæmt þessum flottu stöðlum.  Heyrst hefur að ungar óþroskaðar stúlkur hafi jafnvel fengið slík brjóst í fermingargjöf.  Ég hef ekki hugmynd um hvaða verð konur hafa verið að greiða fyrir það að vera með réttan brjóstastaðal, en dýrt mun það vera.

Mitt í allri sælunni er nú komið upp vandamál – stórt vandamál – sem eðlilega hefur komið miklu róti á þá sem fylgja staðlinum.  Dýru flottu brjóstin eru farin að leka og það sem meira er, efnið í þeim er sílikon sem notað er til iðnaðar.  Þetta hefur verið fyrsta frétt fjölmiðla í marga daga og velferðarráðherra hefur lýst því yfir að  ríkið skuli kosta  rannsóknir og það að fjarlægja þessa púða. Misminnir mig, en var ekki rætt um það fyrir áramótin að nú þyrftu krabbameinssjúklingar að taka á sig mun meiri kostnað  við meðferðir, en verið hefur ?

Vitanlega hafa konurnar samúð mína  vegna þess að brjóstapúðarnir hafa sprungið og  heilsu þeirra er ógnað.  En það vakna jafnframt hjá mér spurningar eins og  –
Hver er ábyrgð þeirra, sem sjálfviljugar hafa farið á einkastofur til lýtalækna til þess að láta setja aukaefni í líkama sinn, eingöngu til þess að líta betur út?
Hver er ábyrgð þeirra, sem hafa þrátt fyrir það að vera með aukaefni í brjóstunum, látið  ungbörn sín sjúga “næringu” úr þeim?   Ungbörnin hafa ekki haft neitt val og ekki kusu þau að njóta vafans.

Það er auðvitað alveg hræðilegt að fyrirtæki skuli hafa sett á markað gallaða vöru sem getur skaðað heilsu  kvennanna sem keypt hafa efnið og fengið það sett í líkama sinn.  Það er líka sjálfsagt að setja strangar reglur um þá hluti  og efni almennt, sem læknar taka að sér að setja í fólk og  slíkt þurfi í framtíðinni að fara í gegnum rannsóknir og fá vottun áður en það er  notað.

En hvenær á að kenna okkur það, að við getum ekki alltaf anað áfram ábyrgðarlaust og elt hverja tískubóluna af annarri?
Getur verið að það veiti svo mikla hamingju að láta setja silikon hér og botox þar til þess að líta flottar út,  að við  getum gert það sem okkur sýnist við líkama okkar, þann  líkama sem okkur var ákvarðaður við getnað?

Þurfum við ekki einu sinni að hugsa um hvort við séum að gera rétt eða rangt,  þegar við tökum ákvörðun um að láta setja aukaefni í líkamann, eingöngu til þess að fegra hann?

Ber okkur ekki skylda til þess að bera ábyrgð á líkama okkar og varðveita hann með heilbrigðu líferni og reyna að vernda hann frá öllu því sem getur skaðað hann, að ekki sé nú talað um að varðveita nýfædd börnin okkar fyrir eigingjörnum ákvörðunum okkar.

Kæru bloggvinir mínir – fyrirgefið mér rausið.  Mér finnst bara svo fáránlegt á sama tíma og það er endalaust skorið niður í heilbrigðiskerfinu okkar og krabbameinssjúklingar þurfa að bera æ meiri kostnað sjálfir af meðferð sinni, þá ætli  ríkið  að greiða allan kostnað vegna þessara gölluðu brjóstapúða sem konur hafa,  bara sér til fegurðarauka, keypt og látið setja í sig á einkastofum úti í bæ.  Kannski er ég ósanngjörn, en hvað finnst ykkur. Endilega tjáið ykkur hérna á heimasíðunni með því að fara í “Leave a comment”

 


Comments

12 responses to “Hugleiðingar mínar um silikon og ábyrgð.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *