Konan er reið.

Mikið er nú búin að vera einstök veðurblíða í marga daga. Ég hef varla kveikt á tölvunni enda tæplega komið í hús nema yfir nóttina. Nú er ég hinsvegar komin í tölvusamband aftur og búin að lesa uppáhalds bloggin mín.
Það er eitt ákveðið mál sem mér liggur á hjarta núna.

Það er kannski ekki  merkilegt að segja frá því að í gærkvöldi drifum við Haukur okkur að sjá Harry Potter og höfðum gaman af eins og af fyrri myndunum, en það sem ég ætla að tala um er það sem truflaði mig út alla myndina.

Fyrir framan okkur sat kona með þrjá stráka, sá yngsti ekki eldri en 5 ára og hinir gætu hafa verið svona á bilinu 7 – 9 ára.  5 ára snáðinn sat fyrir framan mig og hann sat bókstaflega stjarfur af ótta þegar óhugnarlegustu atriðin voru á stóra tjaldinu. Öðru hvoru ætlaði hann að segja eitthvað við konuna, sem ég veit ekki hvort var mamma hans eða ekki, en hún hélt bara áfram með poppið sitt og kókið og sussaði á hann. Mig langaði mest til að taka drenginn og fara með hann út.  Ég varð ekki eins vör við hina drengina sem sátu fjær, hinu megin við konuna.
Þeir sem hafa séð þessa Harry Potter mynd vita að í henni eru virkilega óhugnarlegar verur sem ég efa ekki að gefa tilefni til martraða hjá svo ungum börnum. Ég sá nú ömmustubbinn minn með litla hjartað fyrir mér.  Ég var svo reið með sjálfri mér að konan skyldi koma með svo unga drengi á þessa mynd og að hún skyldi ekki einu sinni halda utan um þennan minnsta þegar hann var hræddur.
Er ég svona hræðilega gamaldags að finnast að börn eigi að hafa náð þeim þroska að geta gert greinarmun á því hvað gerist bara í ævintýri og hvað er raunveruleiki áður en farið er með þau til að sjá myndir eins og Harry Potter og Hringadróttinssögu?  Ég tel að 5 ára börn hafi ekki náð þeim þroska.
Hverjir eiga svo að halda vörð um litlu óþroskuðu sálirnar ef ekki við, þessi fullorðnu sem börnin treysta og sem eigum að stuðla að velferð þeirra.

Fleira ætla ég ekki að taka fyrir fyrr en mér er runnin reiðin.


Comments

4 responses to “Konan er reið.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *