Lítil þúfa – stór þúfa.

Ég opnaði áðan Kyrrðarsporin mín, sem vildu að ég hugleiddi þennan texta “Hugurinn getur aðeins einbeitt sér að fáeinum hugmyndum í einu og jafnvel þær verða yfirleitt fljótlega óskýrar”.
Þetta skýrir einmitt ástand mitt þessa dagana. Ég hef verið að hugsa um hvað það er leiðinlegt að lát bloggið mitt alveg drabbast niður. Öðru hvoru dettur mér eitthvað í hug, sem ég gæti párað hér inn, en þá er ég oftst ekki heima, kannski í bílnum að keyra, eða einfaldlega ekkert nálægt tölvu – ætla bara að muna að skrá þegar ég kem heim.  Þegar ég kem heim og sest við tölvuna er hugmyndin fokin út í veður og vind. Já, það er eins og búið sé að loka algjörlega öllum aðgangi að heilabúi mínu og ekki möguleiki að fletta neinu upp þar, svo maður starir bara á skjáinn um stund og vonar að það opnist nú smá glufa svo hægt sé að sækja efni í eins og eina færslu, en það heldur áram að vera allt lokað og læst. Þetta er alveg magnaður fjári. Mér finnst aðeins vera að rofa til í augnablikinu svo ég ætla að grípa það sem fyrst kemr í hugann.

Það er nefnilega ekki eins og við höfum ekkert farið eða gert, því veðrið hefur verið svo gott undanfarið að það hefur beinlínis dregið mann út fyrir dyrnar.  Það hefur reyndar ekki viðrað til göngutúra úti, því gatan hér er enn öll glerhjúpuð og göturnar almennt  stórhættulegar. Já, það er magnað hvað þessi fjárans hálka hér í efri byggðum ætlar að vera þaulsætin.  Nú þegar sólin er komin svona hátt á loft þá vona ég að henni takist fljótlega að bræða þennan klaka í burtu svo hægt sé að koma sér út og njóta þess að sjá náttúruna smá vakna til lífsins eftir veturinn. Ég er svo ánægð að heyra í þessum töluðu orðum að rokinu sem nú er úti fylgir rigning og nú vonan ég að að ausrigni í nótt svo stéttar verði auðar á morgun.

Einn sólardginn  skruppum við í bíltúr í sannkölluðu gluggaveðri. Okkur langaði svo til þess að sjá listaverkið “Þúfan” úti á Granda.  Það var bara logn og sól hérna hjá okkur þegar við lögðum af stað, en þegar við fórum út úr bílnum úti á Granda þá var alveg bálhvasst og norðankuldinn smaug um mann allan. Við gengum þennan spöl að Þúfunni, en þar var kona í kraftgalla að vinna við stórar steinblokkir.  Ég spurði hvort við værum svo heppin að hitta á sjálfan listamanninn þarna. “Nei, nei, hér eru bara við sem vinnum verkið”.  Ég hef alltaf hugsað mér að listamaður að ákveðnu verki komi líka að því að búa það til og fullgera það.  En auðvitað er það ekki alltaf gerlegt, eins og t.d. verkin hans Ólafs Elíassonar, sem eru allt of yfirgripsmikil til þess að hann gæti fullklárað þau sjálfur.  Stundum hugsar maður bara svo skammt.

En, hvað um það þá gengum við einstigið upp á þúfuna og skoðuðum pínulitla hjallinn með skreiðinni sem prýðir toppinn á henni.  Ég var ekki með myndavél, en ætlaði að taka mynd á símann minn, það var hinsvegar svo svakalega kalt að þegar ég tók af mér hanskann gat ég bara ekki notað puttana til þess einu sinni að finna réttu stillinguna svo síminn fór bara aftur í veskið og hanskarnir aftur á hendurnar.  Ég hvet ykkur til þess að fara og skoða þetta listaverk, en ekki í sterkri norðanátt og kulda.  Ég hlakka mikið til þess að fara aftur þegar aðeins fer að koma grænn litur á þúfuna. Ekki veit ég hvort ég myndi þora að fara með ömmutrítlin mín þarna upp, því ekkert er handriðið (myndi ekki passa þarna að hafa slíkt) og brattinn er þó nokkuð mikill. Það er líklega best að fara eftir því sem sagt er í upphafi hér, að heilinn geti bara einbeitt sér að fáum hugmyndum í einu.  Eg ætla ekki sitja hérna og stara á skjáinn í þeirri von að allt í einu sé komin fín færsla á síðuna. Það gerist ekki í þett sinn. Reyndar mundi ég eftir ýmsu meðan ég páraði þetta, en læt það bíða þar til næst – þ.e.a.s. ef  ég verð ekkk búin að steingleyma því aftur.   🙂

Ísland í dag er örugglega í góðum málum, en svona gengur hjá þeirri gömlu í Kópavoginum.

 


Comments

One response to “Lítil þúfa – stór þúfa.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *