Þrír bræður eftir helgina.

Ég bíð spennt eftir vorinu, sem mér finnst alveg óháð veðri byrja að gera vart við sig eftir bolludag, sprengidag og öskudag, en þeir þrír bræðurnir mæta einmitt eftir helgina. Ekki veit ég hvort þessir dagar eru eins spennandi í dag og þeir voru þegar ég var stelpuskott. Það var mikill spenningur á bolludaginn að fá fallegan bolluvönd, sem stundum var heimagerður en stundum keyptur í bakaríinu. Það var nú svona eitthvað til málamynda sem við flengdum með þessum vendi því ekki vildi maður nú skemma fallega bolluvöndinn sinn, en bollur fékk maður þó alltaf.  Ekki veit ég einu sinni hvort bolluvöndur er ómissandi hjá ungviðinu í dag eða hvort bollurnnar eru bara látnar duga. Það voru fiskibollur í hádegi, rjómabollur í kaffinu og ef ekki var afgangur af fiskibollum þá gjarnan kjötbollur í kvöldmat. Já bollur skyldu það vera þennan dag og ekkert annað. Nú er þetta meiriháttar vesen því svo margir borða ekki lengur neitt með sykri og aðrir ekki neitt úr hveiti og sumir eins og undirrituð notar hvorugt þessara innihaldsefna. En það bjargast nú, því margar góðar uppskriftir eru til fyrir svona vandræðafólk svo allir ættu nú að fá eitthvað við sitt hæfi þrátt fyrir allt.

Svo kemur sprengidagurinn. Þá reynir líka á vandræðafólkið sem ekki má borða of saltan mat og helst ekki baunir.  En stundum verður maður bara að leyfa sér að bregða út af þrönga veginum, sem maður reynir svona til öryggis að feta dags daglega og færa sig yfir á breiða veginn og láta allar öryggisreglur fjúka og taka þá afleiðingunum ef þær verða einhverjar. Saltkjöt, rófur og baunasúpa með reyktu svínafleski skal það vera á sprengidaginn og ekkert múður. Þó maður leyfi sér það nú svona einu sinni á ári að borða saltkjöt 😉  Ég vona að hjartalæknirinn minn sjái ekki þennan póst, en ef svo skyldi þó fara þá lofa ég að drekka vatn, alveg rosalega mikið vatn til þess að skola saltinu fljótt og vel úr líkamanum. Ég þori ekki að lofa því að ég muni bara borða lítið af matnum, því mér var kennt að lofa aldrei öðru en því sem ég gæti staðið við.

Svo er það blessaður öskudagurinn, sem byrjaði alltaf með því að selja Rauðakross merkin um morguninn, en það var nú yfirleitt búið um hádegi.
Öskudagurinn átti sér alltaf nokkurn aðdraganda því það tók tímann sinn að finna tuskubúta, sauma síðan úr þeim öskupoka, draga saman í opið með tvöföldum tvinna og beygja síðan títuprjón sem stungið var í gegnum bandið. Mikið var síðan gaman að fara út á öskudaginn með margar raðir af fallegum öskupokum, hangandi innaná úlpunni sinni. Það mátti auðvitað ekkert sjást í pokana og alls ekki hvað maður hafði í hyggju og varð því að fara mjög laumulega  með þetta. Erfiðast var samt að finna fórnarlömb sem stóðu kyrr á meðan maður hengdi pokann, því allir voru svo varir um sig og enginn vildi ganga um með stóra rósótta öskupoka dinglandi aftan í sér.  Best var ef maður fór með strætó því þá stóð fólk oft þétt og tók þá síður eftir því þó eitthvað kæmi við það. Annars urðu búðirnar í hverfinu að duga.  Þegar ég hugsa um það þá held ég að fólk hafi verið afskaplega hégómlegt þarna í gamla daga því það voru allir svo varir um sig og sneru mikið uppá sig ef krakkar voru nálægt, til þess að fá ekki í sig öskupoka. Í dag held ég að fólk myndi bara hafa gaman af þessu. Við getum hins vegar ekki komist að því hvernig fólk í dag myndi bregðast við, því ég held að það sé alveg hætt að sauma og hengja öskupoka. Það hættu nefnilega að fást títuprjónar sem hægt var að beygja án þess að þeir brotnuðu svo þar með varð þetta eitt af því sem heyrir sögunni til.
Þetta var mjög skemmtilegur tími og skemmtilegast var að vera fleiri saman og hlæja okkur svo máttlaus þegar vel tókst til, eins og þegar einhver fínn kall í frakka með hatt spígsporaði um með öskupoka á bakhliðinni – það var alveg rosalega fyndið 🙂   Það þurfti ekki mikið til að kætast yfir á þessum tíma og dugði okkur oftast að maður væri manns gaman.  Nú eru skipulagðar skemmtidagskrár fyrir börnin þar sem mætt er í búningum. Margir fara niður í bæ, eða láta keyra með sig á milli fyrirtækja til þess að fá gotterí og koma svo heim með fulla plastpoka af sætindum að kvöldi. Sjálfsagt mjög skemmtilegt hvorttveggja, en ég sakna öskupokadaganna.

….. Svo er bara vorið framundan  🙂


Comments

2 responses to “Þrír bræður eftir helgina.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *