Samantekt á hausti 2014.

Eftir votviðrasama sumarið okkar hélt veðrið áfram að hella úr sér vætunni í september. Haukur var úti í Danmörku að hjálpa dóttur sinni og fjölskyldu að mála og vinna við hús sem þau eru nú flutt inn í. Ég notaði tímann til að hafa saumaklúbb og vera með vinkonum og svo byrjaði hittingurinn í Skógarhlíðinni aftur og mikið var ljúft að komast í að fara aftur þangað tvisvar í viku.
Þegar leið að því að Haukur kæmi aftur úr hjálparstarfinu á Jótlandi, þá ákváðum við að skella okkur eitthvert í sól þegar hann kæmi heim.  Ég fór því í rannsóknarvinnu á netinu og úr varð 19 daga ferð til Benidorm í byrjun október.  Hitinn þar þessa októberdaga var frá 24° – 29 °sem kom verulega á óvart og engin rigning. Það var afskaplega notalegt að vakna þarna hvern dag og sjá heiðan himin þar sem sú gula var í aðalhlutverki.

034

Það spillti sko ekki að Edda Garðars vinkona mín og Nonni voru á hótelinu þegar við komum og við áttum mjög góða tæpa viku með þeim á Hotel Bali.

Við Haukur létum sem betur fer verða af því að fara með glerlyftu utaná hótelbyggingunni upp á 43. hæð og síðan upp á útsýnispall sem var gengið að síðasta spölinn.  Það var alveg stórkostlegt að sjá útsýnið svona ofanfrá og horfa niður á allar háu turnbyggingarnar. Hótel Bali er nefnilega hæsta hótelbyggingin á Benidorm og sögð hæsta hótelbygging í Evrópu.

Svo komum við heim fyrsta vetrardag í þetta undarlega vetrarveður. Við höfum enn ekki séð snjókorn og hitinn hefur síðustu daga verið svona 8 – 10 gráður.  Afskaplega undarlegt.  Við höfum sem betur fer ekki orðið mikið vör við mengunina frá Holuhrauni, en þó hafa komið dagar og nætur sem maður opnar ekki glugga og hefur fundið fyrir sviða í augum og hálsi þegar þarf að fara út.

Tíminn hefur flogið sem fyrr við að njóta góðra stunda. Stelpurnar mínar buðu mér í tilefni af afmælinu mínu, á tónleika í Austurbæ þar sem Kvennakór Kópavogs og snillingurinn Páll Óskar ásamt fleirum héldu uppi mikilli stemningu. Sú gamla bæði klappaði, stappaði og hrópaði eins og unga fólkið í salnum því Páll Óskar hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi.

Á afmælisdaginn 12. nóvember bauð Haukur mér  síðan út að borða á Sprengisand. Sá staður kom verulega á óvart sem alveg frábær veitingastaður, með góðum mat, góðri þjónustu, fallegum húsakynnum og ljúfri gamalli dægurtónlist. Við fórum sæl og södd heim þaðan.

Svo var ég í sjötugsafmæli Ingunnar Ragnars vinkonu minnar til margra ára  þann 14. nóv. og hitti þar margar gamlar skólasystur og konur sem ég hef á einum eða öðrum tíma hitt áður.   Hér erum við Birgit með afmælisbarnið á milli okkar.

Ragna_Ingunn_Birgit
Svo komu stelpurnar mínar, tengdasynir og öll barnabörnin nema Karlotta mín sem er á Akureyri í kaffi og súpu á laugardaginn. Ég elska svona daga með góðri samveru. Hér tókum við “Selfie” áður en þau fóru heim. Oddur og karlarnir  hlógu bara að okkur brasa við að finna út hvernig tækið ætti að snúa og á hvað ætti að smella – en, það eru a.m.k. allir brosandi á myndinni 🙂

001

Vikunni lauk svo í gær þegar ég fór með Hauki og nokkrum systkinum hans í kaffiveislu hjá Borgfirðingafélaginu (eystri).

Þá held ég að allar heimildir séu nú skrásettar og hægt að kíkja á seinna hvernig haustið 2014 hefur gengið fyrir sig.  Ég sleppi því viljandi að tala um heilsuna, nenni því bara ekki. Hún er bara ágæt miðað við allt og allt 😉


Comments

One response to “Samantekt á hausti 2014.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *