Skylduræknin.

Það var ömmudagur, sem sagt miðvikudagur, hjá okkur Rögnu Björk. Þá sæki ég hana í skólann og kem henni  í myndlistarskólann þangað sem amma Björk sækir hana síðan og kemur henni heim.
Ég var komin í dægradvölina þennan miðvikudag klukkan tvö eins og venjulega, en þá hafði hún farið með krökkunum í matsalinn til þess að fá þar hressingu.  Ég rölti yfir að matsalnum og hún tók fljótlega eftir mér þar sem ég stóð í dyrunum. Hún vinkaði og kom svo í áttina til mín með plastdisk í hendinni og á honum hluta af brauðsnúð, en annað af snúðnum var hún með í munninum og átti greinilega fullt í fangi með að tyggja og kyngja þessu, enda ekkert með til að drekka.   Ég sá að hún var komin að borðinu þar sem átti að skila diskunum svo ég kallaði og sagði henni að setja bara diskinn með afganginum þar, því amma væri með í bílnum drykk og eitthvað til að maula eins og venjulega.  Hún tróð þá því sem eftir var í munninn og leit nokkuð ákveðið á ömmu, staldraði svo við og kláraði að tyggja þetta og skilaði síðan tóma diskinum á borðið.

Ég spurði hana af hverju hún hefði ekki bara skilið afganginn eftir.   Þegar mín var loks búin að kyngja, þá svaraði  hún af mikilli alvöru:
” AMMA!   Auðvitað borða ég þetta, því mamma og pabbi eru búin að borga fyrir svona máltíð handa mér og þá lætur maður ekki henda því”.
Já,  þetta sagði sú 7 ára og sú sem á eftir eitt ár í 70 ára skammaðist sín niður fyrir tær.

Amma sagði að hún þyrfti ekkert að borða nestið í bílnum því hún hlyti að vera svo södd, en til þess að valda ömmu ekki vonbrigðum þá drakk hún svalann og borðaði allt nestið sem beið í bleika pokanum við sessuna hennar. Skylduræknin er greinilega mikil hjá þessari tátu.

Þetta er svona miðvikudagsrútínan hjá okkur nöfnunum. Núna er hún farin að kíkja bara aðeins í matsalin til þess að vita hvort það er eitthvað mjög gott í boði,  en kemur annars til baka og lætur nestið í bleika pokanum duga 🙂

 

 


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *