Þegar við Sigurrós vorum á St. Jósefsspítala í 3 vikur 1979.

Þann 19. júlí 1979 fæddist hún Sigurrós mín, eins og ég hef áður sagt og öllum er kunnugt sem þekkja hana. En það sem á eftir kom birti ég hér.

Sumarið, 1979, haustið  og vorið 1980 var mjög erfiður tími í lífi okkar allra. Það eina yndislega á þessum tíma var þegar Sigurrós fæddist 19. júlí og þó að fæðingin hafi verið mjög erfið þá var það ljósi punkturinn í lífi okkar allra í langan tíma. Ég var mikið veik á meðan ég gekk með hana því á meðgöngunni gekk ég líka með stórt æxli í móðurlífinu, pabbi minn dó eftir erfiða legu vegna krabbameins þegar Sigurrós var mánaðargömul og svo kom bara hvað af öðru.

Við stóðum á þessum tíma í byggingarframkvæmdum við gamla bernskuheimilið mitt að ósk pabba sem hafði beðið okkur um að fara í þessa framkvæmd og sjá um mömmu eftir sinn dag. Það var mikið verk fyrir höndum því það var byggt bæði utanum húsið, ofaná það, auk þess sem allt var endurnýjað svo þetta tók sinn tíma, en fyrstu framkvæmdir hófust í maí þetta sama ár.

Við seldum íbúðina sem við höfðum átt okkar hamingjustundir í í Skaftahlíðinni og þurftum að afhenda hana daginn eftir jarðarför pabba í lok ágúst, en þá var Sigurrós aðeins rúmlega mánaðargömul og ég var illa haldin vegna æxlisins í móðurlífinu.
Nýja byggingin við litla húsið sem ég var alin upp í var ekki tilbúin á þessum tíma og við Oddur, Guðbjörg, Sigurrós og mamma, sem gat ekki búið í gamla húsinu meðan framkvæmdirnar áttu sér stað, fengum lánaða stúdíóíbúð í einni stóru blokkinni á Austurbrúninni. Þar bjuggum við síðan við mikil þrengsli í 47 fm. á meðan verið var að gera nýja húsið á Kambsveginum íbúðarhæft – en þröngt mega sáttir sitja.
Þarna vorum við svo, þegar ég var var orðin svo illa kvalin út af þessu æxli sem hafði stækkað með barninu á meðgöngunni, að einn morguninn gat ekki lengur gengið. Mamma var komin niður á Kambsveg þegar þetta var og Oddur farinn í vinnuna, Guðbjörg var komin í skólann og ég var ein með Sigurrós sem var að verða tveggja mánaða.  Ég skreið í símann og hringdi grátandi til Jónasar Bjarnasonar læknis og sagði honum að þeir á Fæðingardeildinni væru endalaust að draga mig á að fara í aðgerð út af leginu en nú væri ég svo kvalin að gæti ég ekki meira. Hann sagði að ég yrði að láta flytja mig strax suður á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði og ég skyldi bara hafa barnið með mér því stelpurnar, eins og hann kallaði þær hjúkrunarkonurnar og nunnurnar, myndu bara hafa gaman af að fá lítið kríli til að hugsa um og leika sér með. Það voru orð að sönnu því þennan sama dag tók ein hjúkrunarkonan Sigurrós með sér heim og hafði um nóttina og næsta dag tók önnur við sem var á frívakt og hafði hana þangað til um kvöldið aðgerðardaginn, en eftir það var hún inni hjá mér á stofunni. Það vildi til að hún Sigurrós var einstaklega rólegt barn og allir elskuðu að hjálpa til með að sinna henni. .Ég var alveg fárveik og um tíma vart hugað líf, en hann Jónas læknir bjargaði lífi mínu og ég gleymi þeim mæta lækni aldrei.

Ég var sem sagt sett í akút uppskurð morguninn eftir að ég kom á St. Jósefsspítalann og þá kom í ljós að það var komin eitrun vegna þess að eitthvað hafði orðið eftir af fylgjunni, æxlið orðið mjög stórt og legið leit út eins og gatasigti eins og Jónas orðaði það þegar hann sagði að það væri kraftaverk að það hafi haldið barninu á meðgöngunni. Í viðbót við þetta hafði komið í ljós að botnlanginn var sprunginn, en það vissi ég ekkert sjálf fyrr en mörgum árum síðar.

Þegar Jónas læknir var að  kom á stofugang þá byrjaði hann alltaf á að kíkja á Sigurrós og spurði hvernig kraftaverkastelpan hefði það í dag.

Ég var svo þrjósk að ég vildi ekki hætta með hana á brjósti svona unga og það var nokkkuð sem borgaði sig því ég náði síðan að hafa hana á brjósti í sjö mánuði.

Nunnurnar og hjúkrunarfólkið bar okkur á höndum sér og það var alltaf einhver að koma inn í stofuna til okkar til þess að athuga hvort ekki væri allt í lagi og klappa og kjá framan í litla barnið. Sérstaklega man ég eftir ungri nunnu sem var svo hrifin af barninu og var alltaf að stinga sér inn hjá okkur. Ekki veit ég hvaða hugsanir bærðust í huga hennar, en mér fannst sorglegt til þess að vita að hún myndi ekki sjálf eiga eftir að eignast barn.
Við vorum bara einar á stofu við Sigurrós og þarna vorum við í þrjár vikur og það var dekrað við okkur alveg út í eitt.Þessi góða þjónusta var ekki vegna þess að ég þekkti eða væri skyld honum Jónasi Bjarnasyni heldur hafði hann verið kvensjúkdómalæknirinn minn frá fyrstu tíð. Hann vissi ekkert um þetta æxli eða annað í því sambandi fyrr en ég hringdi til hans þarna um morguninn, því ég var ekki hjá honum í skoðun á meðgöngunni heldur bara í almenna kerfinu.  Hann var bara góður læknir og mikill mannvinur.

Sigurrós var ekki skrírð eða komin með nafn á þessum tíma. Ég var mjög hvött til þess á Jósefsspítalanum að við færum öll með hana út í kapellu og létum skíra hana þar, því þau ættu líka svo mikið í henni, en við létum það bíða til jólanna þegar hún var fimm mánaða gömul og þá var hún skírð Sigurrós Jóna.

Þá er kaflinn sem fjallar um þetta, komin inn á bloggið mitt, en ég á nú orðið nokkra kafla úr lífi mínu sem ég get birt svona í áföngum.


Comments

9 responses to “Þegar við Sigurrós vorum á St. Jósefsspítala í 3 vikur 1979.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *