Þórsmerkurferð um verslunarmannahelgi, sumarið 1965 eða 1966

Um síðustu helgi, verslunarmannahelgina skruppum við í bíltúr austur á Rangárvelli. Á leiðinni austur ókum við um Helluþorpið og þá sá ég nokkuð sem minnti mig á löngu liðna verslunarmannahelgi. Við hús eitt í útjaðri þorpsins stóð nefnilega eldgamall Víbon. Ég þekkti húsið því þar hafði átt heima Bjarnhéðinn frændi Odds míns og eldgamli Víboninn sem hann hafði átt  stóð enn fyrir utan húsið – nú orðinn ansi mikið laslegur og eigandinn látinn.

Þannig var á þessum löngu liðna tíma  að við vorum í vinahópi,  sem ferðaðist talsvert saman. Þessa tilteknu verslunarmannahelgi langaði okkur svo mikið til þess að komast inn í Þórsmörk. Það var mikið búið að reyna til þess að fá einhvern með Víbon sem gæti ekið okkur inn í Þórsmörk því á þeim tíma var það aðalfarartækið sem tók svona litla hópa og þótti leggjandi í að fara yfir Krossána. Þegar við vorum að gefast upp við að finna einhvern sem ekki var þegar bókaður, þá datt Oddi í hug að tala við Bjarnhéðinn frænda sinn á Hellu, en hann vann við brúarsmíði og við vorum svo ljónheppin að hann var einmitt í fríi þessa helgi og ekkert búinn að ráðstafa sér .Hann var ókvæntur maður og var fús til fararinnar og virtist bara ánægður með að vera beðinn. Þegar búið var að semja um fargjaldið var hafinn undirbúningur og hópnum smalað saman og svo var ekið á bílum austur á Hellu þar sem Víboninn beið okkar og svo var ekið inn í mörkina.

Við vorum í nokkrum tjöldum og söfnuðumst svo saman með gítar og sungum á kvöldin. Eitt kvöldið, mig minnir að það hafi verið á laugardagskvöldinu, kom í ljós að tveir útlendingar sátu fyrir utan tjaldið. þeir töluðu sem betur fer ensku og það kom í ljós að þetta voru Frakkar sem höfðu komið til landsins fyrir helgina á leið sinni, að mig minnir til Ameríku með smá stoppi á Íslandi. Annar þeirra var ljósmyndamódel og þeir höfðu lent í því þegar þeir voru að bóka sig í flugið að handfarangri módelsins var stolið þegar hann lagði hann frá sér á gólfið við innritunarborðið á meðan hann var að tékka sig inn.  Í farangrinum voru bæði peningar og myndamappa hans, sem hann ætlaði að nota í ferðinni. Þeir ákváðu þó að halda ferðinni áfram og stoppa nokkra daga á Íslandi og athuga hvort handfarangurinn myndi finnast – (sem hann geri reyndar ekki).

Daginn eftir að þeir höfðu komið til landsins voru þeir á rölti eldsnemma í miðbænum og sáu þá að fólk var að fara inn í rútu. Þeir spurðu þá einhvern þarna hvort þetta væri „sight seeing“ og fengu svona jánk til baka. Þeir keyptu því miða í rútuna og fengu sér sæti. Þeir fengu svo að upplifa það að sitja stjarfir í rútu í nokkra klukkutíma í mun skelfilegri ferð en þeir gátu á nokkurn hátt ímyndað sér að hægt væri að fara í –  yfir vegleysur og djúpar ár alla leið inn í Þórsmörk, þar sem þeir voru svo skildir eftir allslausir og matarlausir þar til á mánudeginum.

Það er ekki að orðlengja það að hópurinn tók þá upp á arma sína og gaf þeim að borða og þeir voru með okkur það sem eftir var ferðar. Það voru tvö sæti laus í Víboninum svo við tókum frakkana með okkur að Hellu og síðan tókum við þá í bílinn okkar og þeir komu með okkur upp í Golfskálann á Öskjuhlíðinni þar sem við bjuggum sem húsverðir á þessum tíma.  Annar þeirra frakkanna bauðst til að elda kvöldmatinn, en þá vandaðist nú málið því það var allt tómt í ísskápnum, enda höfðum við ekkert verið heima og þá voru búðir ekki opnar um helgar. Sá sem ætlaði að elda spurði hvort hann mætti kíkja hvort hann finndi eitthvað í skápunum og viti menn hann kom sigri hrósandi og rétti upp harðfiskpakka sem hann hafði fundið. Við sögðum að þetta myndi nú ekki duga okkur fjórum sem kvöldmatur en hann spurði hvort til væri mjólk, hveiti og eitthvað fleira sem hann bað um, því hann ætlaði að elda fiskrétt. Það fór nú að fara um Odd og ég veit ekki hvert hann ætlaði að komast þegar hann heyrði að það ætti að eyðileggja harðfiskinn með því að sjóða hann, en við létum kyrrt liggja og ákváðum að sjá hvað kæmi út úr þessu. Okkur var bara sagt að sitja róleg inni í stofu, við fengjum að vita þegar maturinn væri til.
Það er svo skemmst frá því að segja að maðurinn töfraði fram þennan líka frábæra fiskrétt úr harðfiskinum sem hann sauð í mjólk, nokkrum kartöflum og fleiru sem hann hafði fundið í skápunum hjá okkur.

Þeir voru í heila viku á Íslandi og fóru m.a. upp í Hvalfjörð, en þar fundu þeir hrafnsunga sem þeir höfðu með sér í bæinn og laumuðust til að hafa hann  hjá sér á Herkastalanum, en þangað fluttu þeir sig eftir fyrstu dagana á landinu. Þar sem annar þeirra hafði tapað öllum gjaldeyrinum sínum þá lánaði Oddur honum peninga sem hann lofaði að senda til baka þegar hann yrði kominn heim til sín aftur – það stóð svo allt heima og Oddur var í bréfasambandi við hann um tíma. Ekki kom þó til þess að við gætum notað okkur heimboðið til Bretagne í Frakklandi, en ég á reyndar enn heimilisfangið og þessa mynd sem þeir gáfu okkur af þeim með hrafninn.

Já það gerðist margt skemmtilegt í gamla daga og oft eitthvað smávægilegt sem kemur minningunum á flug, eins og Víboninn sem stendur enn fyrir utan gamla húsið á Hellu og bíður sjálfsagt eftir að lenda í brotajárni.

Hér eru þeir félagarnir með hrafnsungann.                         


Comments

2 responses to “Þórsmerkurferð um verslunarmannahelgi, sumarið 1965 eða 1966”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *