VÆLUKJÓINN Í KÓPAVOGINUM.

Já hann er órór núna vælukjóinn og ég finn ekki símanúmerið hjá vælubílnum. Ég hef því ákveðið að viðurkenna viðurnefnið, sem ég gaf mér reyndar sjálf, og ætla að leyfa mér að væla eins og mig lystir hérna á heimasíðunni minni, mér og mínum að meinalausu.  Hvar annars staðar en í eigin dagbók getur maður vælt og vælt eins og mann listir.

Ég var að  kikja á gamlar heimildir hjá mér og sé að það er rétt sem mig minnir að ég hef áður verið að berjast við veikindi dagana fyrir utanlandsferðir.

Nú er ég búin að vera með þetta astmakvef í fimm daga þrátt fyrir stanslausa drykkju á alls konar engifer og hvítlauksseyðum og það versnar bara með hverjum deginum. Nú er ég komin á stóran 12 daga stersakammt í viðbót við Citromaxið. ( Þegar ég les þessa setningu yfir dettur mér strax í hug jólavísan hjá Ladda þegar jóli var að senda þeim mæðginunum hverja sendinguna af annarri)  Jæja áfram með væluna.  Ég er með öndunarmæli þar sem ég mælist 200 í útöndun, en læknirinn sagði í morgun að ég þyrfti að komast í 380. Ég á því verk að vinna að ná að dýpka öndinina þó það sé hægara sagt en gert því í hverri útöndun fæ ég hóstakast.  Ég á að tala við lækninn aftur á mánudag og ef ég verð ekki komin í sæmilegt ástand þá, þá sagðist hann skrifa út vottorð svo ég fengi ferðina endurgreidda. Úps, ég vona að ekki komi til þess þó ég sé í raun alveg tilbúin að sætta mig við það,  því í svona ástandi er nefnilega hábölvað að fara í sex klukkutíma flug.

Sumarfötin sem ég var búin að taka  ofan úr skáp liggja eins og hráviði út um allt hérna í herberginu hjá mér og ég bara kemst ekki í gírinn til þess að finna út hvað ég ætla að taka með mér og hvað ég ætla að skilja eftir heima.  Nú verður örugglega bara einhverju hent niður á síðustu stundu, en ekki pakkað niður og tekið upp aftur svona þrisvar sinnum eins og venjulega þegar ég kemst að því að ég hef fyllt mín 20 kíló í töskuna áður en ég fer að heiman.  Það er nefnilega alltaf þessi hugsun að  kannski myndi ég vilja fara í þetta og kannski myndi ég nota hitt og svo er allt sett niður í fyrsta umgangi. Meira endemis ruglið.

Nei nú er spurningin bara fer ég á þriðjudaginn til þess að ganga um götur í sól og blíðu á sandölum og í ermastuttum bol, eða verð ég áfram heima í úlpunni með hettu fram í augu að ógleymdum stígvélum sem hafa verið staðalbúnaður hér í allan vetur  – svo einfalt er nú það.

Enn einu sinni hafði snjóað einhver ósköp þegar við litum út um gluggann í morgun. Haukur ákvað að fara ekki í ræktina heldur fara frekar út að moka snjó og keyra mig svo á jeppanum niður á heilsugæslu. það var mjög gott því bíllinn minn er falinn undir þykkum snjóhjúp  hérna fyrir framan.  Sem betur fer komu þeir hjá Kópavogsbæ nokkuð fljótt til þess að moka götuna og þeir eiga heiður skilið fyrir það hvað þeir hafa yfirleitt verið  fljótir að koma til að ryðja göturnar hérna. Vonandi að þeir verði eins fljótir að leysa  hnútinn sem kominn er á samstarfið hjá þeim blessuðum.
Þetta er svo sem svipað hjá þeim og á kærleiksheimilinu í gamla svarta húsinu við Austurvöllinn, þar sem hver er upp á móti öðrum, þó samherjar eigi að heita.  Já ég held að á þeim bæ ættu þeir að biðja um lögskilnað, fara allir að heiman og láta sótthreinsa  staðinn. Tíu til fimmtan manns sem hafa vit á hlutunum án pólitískrar truflunar ættu að fást til þess að stjórna heimilinu og koma hlutunum í lag. Þessir 63 íbúar virðast allir vanhæfir til slíks.

Við skulum nú sjá – hef ég nokkuð meira til þess að væla yfir?  Alla vega ekki alveg strax, en Guð má vita hvernig leikurinn við Spánverja gengur í sjónvarpinu núna – Ég hafði ekki taugar til þess að horfa á hann, heyri bara óminn af örvæntingarópunum öðru hvoru.

Ég held ég láti þetta bara duga í bili og svei mér ef mér líður ekki bara betur á eftir. Ég hringi bara í vælubílinn seinna.

 


Comments

8 responses to “VÆLUKJÓINN Í KÓPAVOGINUM.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *