Vestfjarðarferð 2. hluti.

Eftir góðan nætursvefn á Þingeyri var ferðinni heitið yfir á Flateyri, en þar hafði Haukur verið um tíma á vertíð ásamt öðrum strákum frá Borgarfirði eystra. Einn þeirra, Grétar, varð síðan innlyksa á Flateyri, eins og hann sagði sjálfur frá. 
Við höfðum ekki ekið lengi um þorpið þegar við sáum Grétar á tali við annan mann í einum húsagarðinum.  Hann var ekki lengi að koma að bílnum þegar hann sá hver kominn var, snaraðist inn og sagði "Keyrðu fyrir næsta horn ég ætla að gefa ykkur kaffi".  Við sögðumst hafa verið að enda við að fá okkur hressingu í bílnum niðri á bryggju.  Hann hlustaði ekki á það og við ókum fyrir næsta horn og aðeins eftir aðalgötunni, þar spratt hann út úr bílnum og rauk inn í verslun sem var með veitingasölu og við í humátt á eftir honum . Hann kallaði um leið og hann kom inn "Guðmunda! gefðu okkur kaffi og vöfflur". Við gátum nú stoppað vöfflubaksturinn enda alveg að springa eftir okkar hádegisverð, en drukkum kaffi með þeim hjónum, en hún rekur veitingasöluna þarna.  Það vantar ekki að það er hressilegt í kringum hann Grétar, en við höfum oft hitt hann á Borgarfirði þegar við höfum verið þar um verzlunarmannahelgar því hann lætur það ekki fram hjá sér fara að mæta á Borgarfjörð eystra á slíkum hátíðum.

vestfirdir3.jpg

Mér finnst mjög fallegt á Flateyri og greinilegt að það er verið að gera átak í að gera upp gömul hús og dytta að til að fegra bæinn. Það er skemmtilegt að sjá að lúpínubreiða dreifir sér yfir svæðið sem hræðilega snjóflóðið rann niður á sínum tíma. 

Við héldum för okkar áfram eftir að hafa hitt Grétar og Guðmundu og eftir að hafa hingað til ekið yfir fjöll og í kringum fjöll fórum við nú inn í næsta fjall og komum út um það hinu megin – hvílíkur lúxus.  Þegar við ókum út úr því aftur vorum við sem sagt komin til Ísafjarðar. 

Enn var sama rjómablíðan og þegar við lögðum fyrst upp í ferðalagið. Við fengum okkur kaffi og fínerí með kaffinu í Gamla Bakaríinu á Ísafirði og drukkum það fyrir utan, á torginu þar sem við fylgdumst með mannlífinu.  Þarna voru að safnast saman kraftajötnar miklir því klukkustund síðar átti að fara fram þarna "Vestfjarðarvíkingurinn" . Við nenntum ekki að bíða eftir því og höfðum hvorugt  áhuga á að fylgjalst með þeirri keppni svo við kvöddum Ísafjörð eftir smá rúnt um bæinn og héldum út í Bolungarvík með það í huga að koma síðan aftur á Ísafjörð og gista í Tungudal. 

Bolungarvíkin tók á móti okkur svo falleg með sínum tignarlegu fjöllum og sléttum sjó. Við ákváðum því á stundinni að þarna yrðum við næstu nótt.  Við komum okkur því fyrir á tjaldstæðinu og girtum okkur meira að segja af með sóltjaldinu og flatmöguðum þarna í sólinni fram eftir degi, grilluðum og fórum svo eftir kvöldmatinn í góðan göngutúr til þess að skoða bæinn. 

vestfirdir5.jpg

Mér fannst sérstaklega gaman að koma til Bolungarvíkur.  Þó ég hafi ekki hitt skyldmenni mín, þá veit ég að þar á ég mörg skyldmenni þó mörg séu farin.  Móðir mín er frá Seyðisfirði í Ísafjarðardjúpi og móðursystir hennar María bjó í Bolungarvík og átti þar og ól upp sex pör af tvíburum og að mig minnir þrjá einbura, svo að afkomendur Maríu og Ólafs eru margir. Ég frétti það á kvöldgöngunni þegar ég fór að spyrjast fyrir um skyldmennin, að það sem ég kannaðist við af gamla fólkinu er komið á elliheimilið og maður kemur ekki í heimsókn þar á hvaða tíma sem er svo ég sleppti því þarna um kvöldið því mér fannst klukkan orðin allt of margt og við fórum í burtu aftur fyrir hádegið daginn eftir. 

Þarna í kvöldgöngunni fórum við inn í Einarshús, sem stendur nálægt höfninni, en það er gamla húsið sem Einar Guðfinnsson bjó í. Húsið sést á myndinni hérna fyrir neðan og mikið var síminn flottur sem þarna var. 

vestfirdir10.jpg

 

Neðst á myndinni eru nokkrir af þeim sem voru að fara til Aðalvíkur með bát. Þeir voru með mikið hafurtask með sér og meðal annars roguðust þeir með þetta líka stærðar gasgrill niður skábraut og þaðan útí bátinn.  Ég verð að segja að ég hefði alveg verið til í að verða laumufarþegi með bátnum, því svo mikið hefur hún Edda Garðars vinkona mín sagt mér um dásemd Aðalvíkur, þar sem pabbi hennar var fæddur, en fjölskylda hennar á þar griðarstað. 

Í Bolungarvík sváfum við svo sætt og rótt fram á næsta morgun.

Hér lýkur öðrum hluta ferðasögunnar.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Vestfjarðarferð 2. hluti.

  1. Þið hafið greinilega verið sólarmegin í lífinu. Vestfirðirnir eru svo fallegir. Kærust í bæinn

  2. Katla says:

    Aðalvík er magnaður staður, sem og Hornstrandir allar. Sjálf er ég ættuð frá Rekavík bak Látur og Aðalvík, og á skyldmenni í Bolungarvík. : )

Skildu eftir svar við Guðlaug Hestnes Hætta við svar