Skylduræknin.

Það var ömmudagur, sem sagt miðvikudagur, hjá okkur Rögnu Björk. Þá sæki ég hana í skólann og kem henni  í myndlistarskólann þangað sem amma Björk sækir hana síðan og kemur henni heim.
Ég var komin í dægradvölina þennan miðvikudag klukkan tvö eins og venjulega, en þá hafði hún farið með krökkunum í matsalinn til þess að fá þar hressingu.  Ég rölti yfir að matsalnum og hún tók fljótlega eftir mér þar sem ég stóð í dyrunum. Hún vinkaði og kom svo í áttina til mín með plastdisk í hendinni og á honum hluta af brauðsnúð, en annað af snúðnum var hún með í munninum og átti greinilega fullt í fangi með að tyggja og kyngja þessu, enda ekkert með til að drekka.   Ég sá að hún var komin að borðinu þar sem átti að skila diskunum svo ég kallaði og sagði henni að setja bara diskinn með afganginum þar, því amma væri með í bílnum drykk og eitthvað til að maula eins og venjulega.  Hún tróð þá því sem eftir var í munninn og leit nokkuð ákveðið á ömmu, staldraði svo við og kláraði að tyggja þetta og skilaði síðan tóma diskinum á borðið.

Ég spurði hana af hverju hún hefði ekki bara skilið afganginn eftir.   Þegar mín var loks búin að kyngja, þá svaraði  hún af mikilli alvöru:
“ AMMA!   Auðvitað borða ég þetta, því mamma og pabbi eru búin að borga fyrir svona máltíð handa mér og þá lætur maður ekki henda því“.
Já,  þetta sagði sú 7 ára og sú sem á eftir eitt ár í 70 ára skammaðist sín niður fyrir tær.

Amma sagði að hún þyrfti ekkert að borða nestið í bílnum því hún hlyti að vera svo södd, en til þess að valda ömmu ekki vonbrigðum þá drakk hún svalann og borðaði allt nestið sem beið í bleika pokanum við sessuna hennar. Skylduræknin er greinilega mikil hjá þessari tátu.

Þetta er svona miðvikudagsrútínan hjá okkur nöfnunum. Núna er hún farin að kíkja bara aðeins í matsalin til þess að vita hvort það er eitthvað mjög gott í boði,  en kemur annars til baka og lætur nestið í bleika pokanum duga 🙂

 

 

Posted in Ýmislegt | Leave a comment

Samantekt á hausti 2014.

Eftir votviðrasama sumarið okkar hélt veðrið áfram að hella úr sér vætunni í september. Haukur var úti í Danmörku að hjálpa dóttur sinni og fjölskyldu að mála og vinna við hús sem þau eru nú flutt inn í. Ég notaði tímann til að hafa saumaklúbb og vera með vinkonum og svo byrjaði hittingurinn í Skógarhlíðinni aftur og mikið var ljúft að komast í að fara aftur þangað tvisvar í viku.
Þegar leið að því að Haukur kæmi aftur úr hjálparstarfinu á Jótlandi, þá ákváðum við að skella okkur eitthvert í sól þegar hann kæmi heim.  Ég fór því í rannsóknarvinnu á netinu og úr varð 19 daga ferð til Benidorm í byrjun október.  Hitinn þar þessa októberdaga var frá 24° – 29 °sem kom verulega á óvart og engin rigning. Það var afskaplega notalegt að vakna þarna hvern dag og sjá heiðan himin þar sem sú gula var í aðalhlutverki.

034

Það spillti sko ekki að Edda Garðars vinkona mín og Nonni voru á hótelinu þegar við komum og við áttum mjög góða tæpa viku með þeim á Hotel Bali.

Við Haukur létum sem betur fer verða af því að fara með glerlyftu utaná hótelbyggingunni upp á 43. hæð og síðan upp á útsýnispall sem var gengið að síðasta spölinn.  Það var alveg stórkostlegt að sjá útsýnið svona ofanfrá og horfa niður á allar háu turnbyggingarnar. Hótel Bali er nefnilega hæsta hótelbyggingin á Benidorm og sögð hæsta hótelbygging í Evrópu.

Svo komum við heim fyrsta vetrardag í þetta undarlega vetrarveður. Við höfum enn ekki séð snjókorn og hitinn hefur síðustu daga verið svona 8 – 10 gráður.  Afskaplega undarlegt.  Við höfum sem betur fer ekki orðið mikið vör við mengunina frá Holuhrauni, en þó hafa komið dagar og nætur sem maður opnar ekki glugga og hefur fundið fyrir sviða í augum og hálsi þegar þarf að fara út.

Tíminn hefur flogið sem fyrr við að njóta góðra stunda. Stelpurnar mínar buðu mér í tilefni af afmælinu mínu, á tónleika í Austurbæ þar sem Kvennakór Kópavogs og snillingurinn Páll Óskar ásamt fleirum héldu uppi mikilli stemningu. Sú gamla bæði klappaði, stappaði og hrópaði eins og unga fólkið í salnum því Páll Óskar hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi.

Á afmælisdaginn 12. nóvember bauð Haukur mér  síðan út að borða á Sprengisand. Sá staður kom verulega á óvart sem alveg frábær veitingastaður, með góðum mat, góðri þjónustu, fallegum húsakynnum og ljúfri gamalli dægurtónlist. Við fórum sæl og södd heim þaðan.

Svo var ég í sjötugsafmæli Ingunnar Ragnars vinkonu minnar til margra ára  þann 14. nóv. og hitti þar margar gamlar skólasystur og konur sem ég hef á einum eða öðrum tíma hitt áður.   Hér erum við Birgit með afmælisbarnið á milli okkar.

Ragna_Ingunn_Birgit
Svo komu stelpurnar mínar, tengdasynir og öll barnabörnin nema Karlotta mín sem er á Akureyri í kaffi og súpu á laugardaginn. Ég elska svona daga með góðri samveru. Hér tókum við „Selfie“ áður en þau fóru heim. Oddur og karlarnir  hlógu bara að okkur brasa við að finna út hvernig tækið ætti að snúa og á hvað ætti að smella – en, það eru a.m.k. allir brosandi á myndinni 🙂

001

Vikunni lauk svo í gær þegar ég fór með Hauki og nokkrum systkinum hans í kaffiveislu hjá Borgfirðingafélaginu (eystri).

Þá held ég að allar heimildir séu nú skrásettar og hægt að kíkja á seinna hvernig haustið 2014 hefur gengið fyrir sig.  Ég sleppi því viljandi að tala um heilsuna, nenni því bara ekki. Hún er bara ágæt miðað við allt og allt 😉

Posted in Ýmislegt | 1 Comment

Svona flýgur tíminn hér.

Ég veit ekki hvað er í gangi með tímann, en hann hleypur nú hraðar en nokkru sinni og ég næ aldrei að klára það sem ég er samviskusamlega búin að skrifa niður fyrir morgundaginn.
Það er mjög flott að þykjast vera svo skipulögð að skrifa niður í númeraröð allt sem á að gera á morgun, því þá get ég farið róleg að sofa án þess að þurfa neitt að hugsa um það frekar.  Staðreyndin er hins vegar sú, að listinn góði er jú skoðaður að morgni, en þá dúkkar hitt og þetta upp og ég fer að gera eitthvað allt annað en skrifað stendur, því dagurinn er jú allur eftir hvort sem er
– En manni minn hvað tíminn líður hratt og svo er aftur komið að háttatíma og hvar er nú listinn góði með yfirskriftinni „það sem á að gera „. Jú það er hægt að strika út eitt eða tvö númer, svo þarf að byrja á að færa allt hitt yfir á nýtt blað og bæta öðru við.
Svona er lífið í Fensölum, en eitt er víst að á meðan tíminn hleypur svona hratt þá leiðist manni ekki 🙂

 

Posted in Ýmislegt | Leave a comment

Orðin skjalfestur lögbrjótur :(

Já, það átti þá eftir þeirri gömlu að liggja að verða skjalfestur lögbrjótur, samkvæmt formlegu bréfi sem lá í póstkassanum í dag frá Lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins og bréfið meira að segja með frímerki á, sem er orðið sjaldgæft að sjá á bréfum frá opinberum fyrirtækjum.

Í síðu viku þurfti ég að fara tvær ferðir að morgni til, fram og til baka um Fífuhvammsveginn frá Salavegi.  Í fyrri ferðinni tók ég eftir ómerktum bíl sem hafði verið ekið upp á grasið við akbrautina og ég undraðist að lögreglubíll sem ók á undan mér virtist ekkert vera að spá í þetta. Bíllinn var svo enn þarna á sama stað þegar ég kom til baka á heimleiðinni svo mér datt í hug að líklega væri bíllinn bilaður.

Eftir skamma stund heima þá þurfti ég að fara aftur af stað þessa leið um Fífuhvammsveginn nema hvað að í þetta skiptið kom ljósblossi frá bílnum á grasinu. Ég hef heyrt um svona hraðamælingar og sannfærðist því um að þarna hefði hraðamælir verið í gangi í ómerktum bíl. Ég var hinsvegar undrandi á þessu því ég var viss um að ég væri á um 60 km. hraða sem ég taldi hámarkshraðann vera á þessari aðalumferðaræð  sem tengir hverfin hérna í kring. Maður berst venjulega með straumnum og hraðinn er svona 60 – 70, nema á álagstímum.  Í bréfinu segir hinsvegar að ég hafi ekið á 64 km. hraða þar sem hámarkshraði sé 50. Þar hef ég það og viðurkenni hér með sekt mína og fávísi og það að ég hef nú fengið einn mínuspunkt í annars hreina ferilskrá í umferðinni.

Fífuhvammsvegurinn er aðalæðin alveg frá Hafnarfjarðarvegi í gegnum Smárahverfið, Lindahverfið og Salahverfið og eru undirgöng við alla skólana sem eru á þessari leið, en hættulegar gangbrautir eru hinsvegar alveg við hringtorgin og þar ber vitanlega að aka mjög varlega.

Þegar ég fékk bréfið í morgun þá hringdi ég til Lögreglunnar og spurði hver hámarkshraðinn væri á þessari leið, því engar hraðamerkingar væru þar.  Stúlkan sem svaraði sagði að þar sem engar merkingar væru þá væri hámarkshraðinn 50 í þéttbýli.

Ég páraði þetta niður til þess að láta þá vita, sem hafa kannski verið með sömu ranghugmynd og ég að það mætti aka á 60 á Fífuhvammsvegi í stað 50 km. hraða. Ég er búin að aka á 50 síðan þetta gerðist og fæ alltaf að vera lestarstjórinn með röðina fyrir aftan mig og í gær hélt ég að næsti bíll fyrir aftan mig myndi keyra inn í skottið hjá mér því hann var orðinn svo pirraður og kominn svo nálægt. Mér leið eins og ég væri að aka stóru vinnutæki, en maður brennir sig nú ekki tvisvar á sama eldinum og hér eftir er það bara 50 km hraði sem sú gamla ekur á þessari leið, hvernig svo sem það fer með geðheilsu hinna sem enn eru í þeirri trú að þarna megi aka á meiri hraða. Já, það er greinilegt að fleiri hafa ekki áttað sig á þessu.

Svona er nú það.

Ég vefengi ekki að ég braut af mér og borga vitanlega mína sekt, en mikið vildi ég að það væri, þó ekki væri nema eitt skilti einhversstaðar á svona vegi sem segði 50, bara svo það þurfi ekki neinar vangaveltur um það.

Posted in Ýmislegt | 1 Comment

Bara það sem ég var að hugsa um áðan.

Enn sé ég hvað ég sinni orðið dagbókinni minni lítið. Eins og mér finnst Fésbókin skemmtileg, þá sakna ég þess tíma þegar við bloggvinirnir vorum að skrifa smá pistla í dagbækurnar okkar á netinu og skiptast á orðsendingum. Þetta var ekki stór hópur, urðum smám saman innan við 10 talsins í fasta bloggvinahópnum.  Við þekktumst ekkert fyrr en við rötuðum inn á hvers annars síður fyrir einhverja tilviljun, en mikið varð þetta náinn og skemmtilegur hópur og góðir vinir.   Flest hafa nú fært sig alveg yfir á Fésbókina, en við erum líklega fjórar eftir sem reynum að láta ekki dagbækurnar okkar deyja alveg út.  Mér þykir afskaplega vænt um gömlu færslurnar mínar og renni oft augum yfir þær á Sarpnum til þess að rifja upp liðinn tíma. Ég á nærri 1200 færslur auk gamalla uppskrifta, svo úr nógu er að moða.

 

Posted in Ýmislegt | Leave a comment

Ölfus í dag – alltaf eitthvað óvænt.

Við ákváðum að skreppa í „Hendur í Höfn“, Þorlákshöfn, í hádeginu í dag. Það var þungbúið yfir í Þrengslunum, en séð í átt að Þorlákshöfn skein sólin í gegnum stórt blátt gat á skýjahulunni. Við fylgdum því leiðbeiningunum úr kvæðinu góða. „.en ef við sjáum sólskinsblett í heiði að setjast allir þar og gleðja oss“. Það gekk eftir og sólin skein glatt í heiði í Þorlákshöfn á meðan við borðuðum súpu dagsins og heimabakað brauð af ýmsum sortum, ásamt öðru meðlæti.

Síðan ókum við Ölfusið til Hveragerðis og ég rifjaði upp eina sumarið sem ég hef á ævinni verið í sveit, rigningarsumarið mikla 1955.  Mig hafði alltaf langað til að vera í sveit og sú ósk rættist þegar móðursystir mín gerðist ráðskona hjá feðgum á Læk í Ölfusi, en Lækur og Hjalli standa sitt hvoru megin við lítnn læk. Frænka mín var með son sinn með sér í vistinni og þar sem Halli var minn uppáhalds frændi, þá suðaði ég þangað til ég fékk leyfi til að vera um sumarið ef ég, eins og bóndinn orðaði það, ynni fyrir matnum.
Við Halli erum á svipuðum aldri, hann þó aðeins yngri, en þetta sumar var ég 9 ára og þóttist nú aldeilis geta tekið til hendinni.  Við höfum líklega haft sömu vinnugenin í okkur því við vorum bæði mjög lipur til verka, enda þýddi ekkert að mögla neitt. Bóndinn kunni alveg að nota sér það að hafa góðan vinnukraft.  Þetta rifjaðist allt upp þegar við ókum framhjá bæjarkjarnanum Læk, Bjarnastöðum, Gerðakoti og Hjalla.  Ég áttaði mig allt í einu á því að ég hafði aldrei komið inn í kirkjuna á Hjalla, en hún Tóta mín blessuð, gamla nágrannakonan okkar af Ásveginum, var einmitt fædd og uppalin á Hjalla.

Við sáum að kirkjan stóð opin og maður í vinnugalla var að ganga frá verkfærum í bíl fyrir utan. Við renndum því upp að kirkjunni. Ég fór út úr bílnum, gekk til mannsins og spurði hvort það væri nokkuð hægt að fá að skoða kirkjuna. Svo lét ég dæluna ganga:  – Það væri nefnilega gömul nágrannakona mín sem hefði verið fædd á Hjalla, ég hefði sjálf verið hérna á Læk í sveit eitt sumar sem barn en aldrei skoðað kirkjuna.
– Hann leit þá á mig og spurði hvort það væri hún Tóta, hvort ég væri ekki Didda. Hann væri Siggi í Gerðakoti og Siggi Guðmars sonur Tótu hefði verið góður vinur sinn og við hefðum aðeins hittst í jarðarförinni hans. Ég mundi vel eftir stráknum Sigga í Gerðakoti, þó ég kynntist honum eiginlega ekkert, en við hittum hann þó oft krakkarnir þarna árið 1955 en ég verð nú að segja að mikið rosalega eru sumir mannglöggir og muna vel nöfn.  Ég er nú svoddan rati að ég áttaði mig ekki á því hver þetta var fyrr en hann sagði til sín.  Síðan spjölluðum við saman og rifjuðum upp ýmislegt. Mér fannst fáir hafa verið grafnir í kirkjugarðinum á Hjalla og þá sagði hann að það væri rétt, en það væri nýbúið að jarðsetja þar konu sem hefði óskað eftir að vera grafin þar.  Nú kom enn í ljós hvað heimurinn er lítill,  því þegar hann sagði nafn konunnar þá vissi ég vel hver sú kona var. Hún fór á sama tíma og Oddur heitinn í gegnum endurskoðendanámið á sínum tíma og ég hitti hana nokkrum sinnum.
—–
Já svona er nú Ísland í dag. Alltaf notalegt og allir þekkjast eitthvað inn við beinið.

Við héldum síðan áfram ferðinni yfir í Hveragerði, tókum smá göngutúr, heimsóttum Álnavörubúðina, ókum um bæinn og fengum okkur kaffi í Hverabakaríinu.  Virkilega skemmtilegur og góður dagur.

Það þarf ekki alltaf að fara langar leiðir til þess að brjóta upp hversdaginn og upplifa eitthvað óvænt.

Það var meira að segja alveg fínasta veður þangað til við fórum Hellisheiðina heim þá fór að dropa úr lofti og síðan alveg ausandi rigning á Sandskeiðið og nánast alveg í Kópavoginn.

Posted in Ýmislegt | 1 Comment

Það eru 50 ár frá því að ég gifti mig. Atburðarrásin þann sólarhring var nokkuð sérstök.

Ég  átti söguna okkar Odds heitins á gömlu bloggi, en ætla í tilefni af þessum tímamótum að endurtaka þessar gömlu minningar. Aðdragandinn var sá að vinnuveitandi minn bauð okkur a fara í mjög ódýra ferð til Kaupmannahafnar og það tilboð kom atburðarrásinni sem ég ætla að leyfa ykkur að heyra, af stað.  Það er efnisflokkur hérna á heimasíðunni minni sem heitir: Gamla ástarsagan og ýmislegt henni tengt og þar er sagan okkar frá byrjun. Þar kemur fram á hvaða stað í lífinu við vorum á þessum tíma.

“Eigum við ekki bara að nota tækifærið og gifta okkur og nota ferðina sem brúðkaupsferð?” sagði Oddur.  Jú það fannst mér mjög góð hugmynd og þar með var það ákveðið. Við höfðum jú nokkra daga til stefnu svo það ætti alveg að ganga.

Mæting í ferðina átti ekki að vera  fyrr en klukkan hálf þrjú eftir hádegi, svo við hefðum alveg tíma til þess að gifta okkur um morguninn og fara síðan beint í ferðina. Við ákváðum að hafa enga veislu og hafa bara foreldrana viðstadda.  Við áttum hvorugt efnaða foreldra og vildum ekki fara að setja foreldrana í skuldir til þess að halda okkur veislu, en á þessum tíma tíðkaðist það almennt ekki að brúðhjón greiddu sjálf fyrir slíkar veislur. Okkur langaði til þess að gifta okkur af því að við vildum eiga lífið saman, en ekki til þess að halda stóra veislu og fá brúðargjafir. Við höfðum löngu ákveðið það, hvenær svo sem giftingin yrði.

Nú þurfti að hafa snör handtök því aðeins voru nokkrir dagar til stefnu. Ég byrjaði á því að hringja í mömmu og segja henni frá þessari stórkostlegu hugmynd. Mömmu varð svo um að hún varð orðlaus og það kom svo  löng þögn í símann að ég hélt að það hefði kannski liðið yfir hana á hinum endanum.
“Núna á fimmtudaginn?” stundi elsku mamma loks upp.
“Já við ætlum sko ekki að hafa neina veislu, fá bara séra Árelíus til að gifta okkur í gömlu Árbæjarkirkjunni og fara svo beint í rútuna og til Keflavíkur í flugið.”
Hún móðir mín vildi alltaf hafa góðan fyrirvara á öllu  og þetta fannst henni bara ekki ganga upp, en sem fyrr var dótturinni ekki haggað.

Oddur var elstur af systkinum sínum og fyrstur til að fara að heiman og kvænast. Hann hringdi til mömmu sinnar og sagði henni frá snilldar hugmyndinni. Henni fannst þetta heldur ekki vera nein snilldarhugmynd og enginn fyrirvari. Hún varð svo vonsvikin yfir því að við ætluðum að gera þetta með svona stuttum fyrirvara og að það yrði engin veisla. Hún krafðist þess þó, þrátt fyrir að tíminn væri naumur, að fá að sjá um að sauma brúðarkjólinn. Til þess fékk hún kjólameistara sem hún saumaði fyrir í lið með sér og eins og annað sem hún tengdamamma tók sér fyrir hendur, þá var allt klappað og klárt á tilsettum tíma – ætli hún hafi ekki tekið næturnar í að klára þetta, það kæmi mér ekkert á óvart.

Svo þurftum við að tala við sera Árelíus, sem hafði á sínum tíma fermt okkur bæði (reyndar örfáum árum fyrr) og athuga hvort hann væri laus þennan fimmtudag. Jú, jú það var sjálfsagt að gefa okkur saman þennan dag, en það kom í ljós að Oddur þurfti vottorð því hann var ekki orðinn 21 árs heldur bara nýorðinn tvítugur. Ég var hinsvegar 18 ára svo það slapp, því stúlkum nægði sá aldur.  Það var allt sett í gang og séra Árelíus fékk vottorðið í tæka tíð – allt  var klárt á methraða.

Fimmtudagurinn 25. júní 1964 rann síðan upp bjartur og fagur. Oddur hafði fengið Kristinn vin sinn til þess að sækja okkur og aka með okkur til kirkjunnar, sem reyndar varð ekki Árbæjarkirkja eins og við höfðum ákveðið heldur hringdi séra Árelíus daginn áður og spurði hvort við vildum ekki bara gifta okkur heima hjá sér og konan hans myndi spila á orgelið – hitt væri bara vesen. Við gátum ekkert sagt þó við yrðum skúffuð yfir þessu, en þegar við hins vegar mættum heim til hans klukkan tíu að morgni brúðkaupsdagsins, þá ákvað hann að fara frekar með okkur út í kirkju, sem þá var safnaðarheimili Langholtskirkju og hafa athöfnina þar.
Ekki var nú hægt að segja að athöfnin væri fjölmenn því við komum einungis ásamt foreldrum okkar, eldri systur minni og Kristni sem ók okkur. Svo spilaði prestsfrúin á orgelið eins og til stóð. Athöfnin var falleg í einfaldleika sínum og við gengum út í sólina nýgift og hamingjusöm. Síðan buðu pabbi og mamma okkur og foreldrum Odds í mat í Grillið á Hótel Sögu. Þegar liðið var á máltíðina kom þjónn með silfurfat með fallegri skreytingu og þykku umslagi. Umslagið reyndist síðan innihalda gjaldeyri sem dugði okkur til þess að kaupa flotta Kodak myndavél og fyrir afganginn gátum við leyft okkur að njóta dvalarinnar í Kaupmannahöfn langt umfram það sem við bjuggumst við að geta gert þessa viku sem ferðin var. Þetta var brúðargjöf frá vinnuveitendum mínum Inga Þorsteinssyni og Þorsteini Þórarinssyni.

Eftir máltíðina í Grillinu ók pabbi okkur niður í Tjarnargötu til þess að taka rútuna suður á Keflavíkurflugvöll með ferðafélögunum, sem við vissum reyndar ekkert hverjir væru, en reyndust vera Framsóknarfélagið í Reykjavík, en það er önnur saga.

Þegar á Keflavíkurflugvöll var komið og búið að fara í gegnum hermannahliðið, voru allir bókaðir inn, farangurinn tekinn og eftir það mátti enginn fara út fyrir dyr. Mikið vorum við spennt að vera að fara í fyrstu flugferðina okkar, fyrstu utanlandsferðina og í brúðkaupsferð.  Eftir nokkra bið fengum við tilkynningu fararstjóranna um það,  að það yrði líklega nokkuð mikil seinkun því vélin væri enn í Gautaborg – biluð. Viðgerð færi fram á vélinni og síðan myndi hún fljúga til Oslóar  og taka farþega þar, en síðan kæmi hún til Íslands. Það mætti enginn fara út af vellinum af því það væri búið að fara í gegnum hliðið inn á hersvæðið og búið að bóka hópinn inn.

Flugstöðin var ekkert nálægt því að vera eins og við þekkjum flugstöðvar í dag, meira að segja innanlandsflugið hjá okkur er betur búið en þessi flugstöð var.  Það voru bara sæti fyrir brot af hópnum, svo það þurfti að skiptast á að fá að setjast aðeins niður og hvíla sig. Margir settust strax að sumbli á bar sem þarna var, því mjög ódýrt var að drekka þarna  og margir af karlmönnunum kunnu að meta það. Svo upphófst LÖNG bið.
Við kynntumst vel tvennum hjónum þarna sem við höfðum síðan mikil samskipti við í mörg ár. Um kvöldið á meðan biðin stóð yfir var farið með hópinn í kvikmyndahús þarna uppi á velli og það var eins og verið væri að fara með fanga á milli svo vel var passað upp á hópinn.

Um klukkan sex um morguninn lauk loks biðinni og Sterlingvélin var komin, ef vél skyldi kalla því hún var hvílíkt skrapatól að hún hékk varla saman. Við höfðum nú ekki mikið vit á hvernig þetta ætti að líta út, en þeir sem voru vanir að ferðast voru mikið að hugsa um að verða eftir heima, en létu sig þó hafa það að fara með. Það kom hinsvegar til álita hvort hægt væri eða forsvaranlegt að taka þá með, sem höfðu setið á barnum allan tímann og voru varla með meðvitund þegar átti að drösla þeim út í vél þarna í morgunsárið, en það var gert.  Sem betur fer átti ég ekki minn mann í þeim hópi. –
Á endanum voru allir komnir út í vélina og hún tilbúin að taka á loft til Kaupmannahafnar á vit ævinmtýranna og í langþráða brúðkaupsferð.

Brúðkaupsnóttinni eyddum við sem sagt í gömlu litlu flugstöðinni í Keflavík, þar sem skiptast varð á að setjast niður öðru hvoru til þess að hvíla sig. – Ekki mikil rómantík í því.


Myndina af okkur  sofandi í flugvélinni tók einhver ferðafélagi
og við fengum hana senda í nafnlausum pósti einhverjum vikum eftir heimkomu .
Það eiga sko ekki allir mynd af sér sofandi á brúðkaupsnóttina.

Kaupmannahafnarferðin varð síðan mjög skemmtileg og hvílíkt ævintýri fyrir okkur að fara í Tívolí, Dýragarðinn, á Lorrý og fleiri staði og meira að segja með ferju yfir til Málmeyjar,  fyrir utan skoðunarferðirnar í allar fallegu hallirnar. Já þessi fyrsta utanlandsferð okkar var sannkallað ævintýri.
Heim komumst við svo heil á húfi, en flugvélar þessa Sterlingflugfélags fréttum við síðar, að hefðu verið kyrrsettar einhvers staðar fljótlega eftir þetta, því þær töldust ekki í flughæfu ástandi og stórhættulegar . Síðan fór flugfélagið á hausinn. Þegar við heyrðum þetta þá þökkuðum við fyrir að hafa sloppið lifandi.

Posted in Gamla ástarsagan og ýmislegt henni tengt.. | 2 Comments

Facebook og Heimasíðan.

Ég hitti konu í gær sem ég hef ekki hitt lengi. Hún er ekki á Facebook , en ég kynntist henni af heimsóknum hennar á heimasíðuna mína fyrir mörgum árum. Við hittumst svo í fyrsta skipti  augliti til auglitis þegar hún bauð mér í mat eftir að ég flutti í Salahverfið.  Í gær hittumst við svo í augnablik þegar önnur var að flýta sér inn í matvörubúðina og hin að flýta sér heim til að sinna sínum erindum. Þegar við höfðum kvaðst eftir þennan örhitting, þá bætti hún við og sagði „Ég les nú alltaf það sem þú skrifar“.  Þá fór ég að hugsa um það, hvað ég væri orðin löt að sinna síðunni minni og man jafnvel ekki eftir henni nema stundum, á meðan ég skanna Fésbókina stundum nokkrum sinnum yfir daginn.  Ég er ekki ein um það að hafa villst yfir í annan félagsskap, því það hefur verulega þynnst í blogghópnum okkar. Munurinn á heimasíðu og Facebook er aðallega sá, að það sem maður skrifað á heimasíðuna sína er til og verður til, á meðan það sem maður er að gjamma  eitthvað marklaust í Facebook er horfið eftir stuttan tíma, bara svona eins og að segja Halló og Bless.  Mér þykir samt vænt um Fésbókina því hún hefur gefið mér sambnd við bæði gamla vini og ættingja sem ég hafði ekki hitt eða heyrt frá í mörg ár.
Þetta eru ólíkir staðir. Báðir góðir, hvor á sinn hátt og hvorugugan vildi ég missa.  Ég hef mjög gaman af að fletta upp gömlum ninningum og sögum af barnabörnunum á heimasíðunni minni, sem ég hef átt síðan í júní 2003. Það hefur líka komið fyrir að ég hef þurft að leita þar að tilteknum gömlum atburðum sem við erum ekki alveg viss hvenær áttu sér stað.  Svo átti ég svo skemmtilega og góða bloggvini og á reyndar enn, þó sumir hafi ekki skrifað færslur lengi.  Við hittumst reyndar nokkiur fyrir ári síðan og hver veit nema við endurtökum það í sumar.
Ég sá bloggfærslu hjá vinkonu áðan og mundi þá eftir að ég átti þessi drög en hafði gleymt að setja þau inn.  Eigið góða daga framundan. Ég kveð í bili.

Posted in Ýmislegt | 3 Comments

Skemmtilegur vordagur í dag.

Já svo sannarlega er vorið komið og síðustu dagar hafa verið svo hlýir og fallegir. Það er allt að springa út og ég fór í gær og keypti rós  „New Dawn“ sem ég setti í pott hérna úti á svölum. Ég var komin á skrið með að fara í göngutúra á morgnanna, en það endaði nú með því að ég varð að hætta alveg í bili út af gamalkunnum verk niður í hægri fótinn. Læknirinn minn vill að ég fari í göngugreiningu og taki mér pásu frá því að ganga hér upp og niður brekkurnar því það sé allt of mikið fyrir óviðgert brjósklos að höndla, ég megi bara ganga á sléttu grasi. Kannski ég útbúi mér bara kröfuspjald og fari að rölta um á Austurvelli á góðviðrisdögum. Verst að ég veit ekki hvers ég á að krefjast, en ekki get ég gengið þar um í hringi án þess að hafa eitthvað sýnilegt markmið.

Dagurinn í dag var alveg sérstaklega skemmtilegur. Mánudagar og miðvikudagar eru það reyndar alltaf því þá fer ég í Skógarhlíðina, safna orku og hitti skemmtilegar konur.  Í dag fengum við svo fyrirlestur með henni Eddu Björgvinsdóttur, sem er auðvitað á við góða vítamínsprautu og fylgdi henni mikil gleði og hlátur.
Á heimleiðinni sótti ég svo Rögnu Björk ömmustelpuna mína á skólavistina. Nú er Myndlistaskólinn sem hún fór í á miðvikudögum búinn í bili, en okkur kom saman um að halda áfram að hittast á miðvikudögunum nema eitthvað sérstakt komi uppá. Hún kom hlaupandi til mín þegar hún sá mig koma og var í gula Pollapönkgallanum sem hún keypti sér í gær fyrir afmælispeningana sína. Þegar ég spurði hvort við ættum kannski að skreppa niður á tjörn eða eitthvað annað skemmtilegt þá sagði mín „Nei amma, eigum við ekki bara að fara heim til þín og hafa það kósý“. Það gerðum við og höfðum það virkilega kósý, smá teiknað, smá hopppað á trampolíninu, aðeins horft á sjónvarpið og tíminn var floginn áður en við vissum af.  Þegar ég var að skila henni heim sagði ég henni eina af sögunum sem Edda Björgvins sagði okkur í dag og þegar við vorum komnar heim til hennar þá sótti hún litla bók sem hún á til að skrifa í og bað ömmu að segja söguna aðeins aftur því hún ætlaði að skrifa hana hjá sér.  Hún er nú bara nýorðin 7 ára gömul hún nafna mín svo hún verður líklega einhverntíman góð í að færa atburði í letur.

 

Posted in Ýmislegt | 4 Comments

Hefði orðið sjötugur í dag 4. maí 2014.

070Í dag 4. maí minnumst við mæðgur ástríks eiginmanns og föður. Ef hann Oddur minn hefði lifað þá hefði hann orðið sjötugur í dag. Blessuð sé minning hans.
Nú hefur Sigurrós opnað minningarsíðu um hann á netinu: http://oddurpetursson.betra.is/  Þar eru bæði frásagnir og myndir, ásamt því sem ég skrifaði á afmælisdaginn hans í fyrra. Mikið væri gaman ef þið heimsækið síðuna og kvittið fyrir heimsóknina í Gestabókina. Ef þið eigið gamlar minningar um hann, þá væri gaman að sjá þær með kveðjunni.

Posted in Ýmislegt | Leave a comment