Ríkidæmi mitt.

Ég er búin að sitja góða stund og skoða myndaalbúmin mín hérna á heimasíðunni. Myndirnar frá árunum á Selfossi eiga alltaf alveg sérstakan sess í huga mér því ég fékk að njóta þess að verja svo miklum tíma með elstu barnabörnunum mínum sem bjuggu líka á Selfossi á þeim tíma.  Svo finnst mér bara svo rosalega skemmtilegt að skoða myndir og upplifa ýmsa atburði í gegnum þær.
Já góðar endurminningar ásamt nýrri upplifun með fjölskyldunni eru mitt ríkidæmi.

IMG_0186

Posted in Fjölskyldustundir., Ýmislegt | Leave a comment

GLEÐILEGA PÁSKAHÁTÍÐ KÆRU ÆTTINGJAR OG VINIR.

Posted in Ýmislegt | 1 Comment

Föstudagurinn langi.

Nú er föstudagurinn langi aðeins farinn að styttast. Þetta hefur verið einn rólegasti dagur sem ég hef upplifað. Síminn hefur ekki hringt, ég hef ekki farið út fyrir dyr, enginn komið og nánast engin bílaumferð verið hérna í kring í dag.  Bara algjör ró yfir öllu.  Veðrið hefur verið afskaplega furðulegt, með mjög örum skiptingum á éljum og sólarköflum Eina hreyfingin í dag hefur því verið að draga niður gluggatjöldin þegar sólin hefur brotist fram úr éljaþykkninu  og inn um gluggana og draga þau upp aftur þegar dimm élin hafa komið í kjölfarið.  Ekki man ég eftir slíku veðri svona alveg frá sólarupprás til sólarlags.

Ég var eitthvað að grúska í tölvunni í dag og  gleymdi mér um tíma alveg við það að skoða gamlar myndir sem ég hef skannað inn.  Mikið er nú dásamleg tæknin sem gerir okkur kleift að skoða á svona einfaldan hátt myndir sem vekja upp gamlar minningar.
Eftir hádegið langaði mig til þess að skreppa í messu hérna í Lindakirkju, en þá kom í ljós að messan átti að vera klukkan átta í kvöld – svo það varð ekkert úr kirkjuferð í dag.

Eftir kvöldmatinn horfðum við á svo flotta sirkusmynd í Sjónvarpinu. Ég horfði reyndar bara á hana að hluta til því  tónlistin var svo falleg og róandi að ég var farin að dotta. Ég þorði því ekki annað en færa mig hérna inn að tölvu til þess að sofa ekki yfir sjónvarpinu. Annars er ég enn svo syfjuð að mér finnst komin nótt þó klukkan sé ekki enn orðin hálf tíu. Föstudagurinn langi er nefnilega langur og hefur alltaf verið. Veðrið skiptir þó líklega nokkru hvað það varðar, en það er gott að taka einn dag á ári svona alveg án alls áreitis.

Nú er sjálf páskahátíðin framundan og ég óska ykkur öllum GLEÐILGRA PÁSKA. Ykkur sem eru á faraldsfæti óska ég góðrar heimferðar.

Posted in Ýmislegt | 1 Comment

Miðvikudagur smá gullkorn.

Á miðvikudögum þá sæki ég Rögnu Björk í Smáraskóla um tvöleytið og fer með hana í Myndlistarskóla Kópavogs á Smiðjuveginum, en amma Björk sækir hana síðan.
Það er alltaf sama „rútínan“ hjá okkur. Þegar við erum komnar í bílinn og mín er búin að festa sig í öryggisbeltið, þá tekur hún upp nestið sitt og borðar það á leiðinni. Á áfangastað bíðum við svo yfirleitt í bílnum því við erum alltaf of snemma á ferðinni og þá notum við tímann og spjöllum saman.

Í dag fengum við aldrei þessu vant bílastæði fyrir framan Myndlistaskólann, en þurftum ekki að leggja við verkstæðið hinu megin við götuna, eins og við þurfum oftast að gera.  Þegar við ókum upp að húsinu þá tók ég eftir því að það var útsala á íþróttavörum í verslun þarna á neðri hæðinni beint fyrir framan okkur.
„Eigum við ekki að skreppa þarna inn og skoða aðeins á meðan við bíðum? Ég ætla ekki að fara að kaupa neitt bara aðeins að skoða.“ – Jú, mín var alveg til í það.
Ég fór síðan að fletta einhverjum bolum sem voru þarna rétt innan við dyrnar, en mín fór alveg inn í hinn endan á búðinni og ég heyrði að hún var að tala við einhvern.
Ég fann síðan eftir nokkrar flettingar, þennan líka fína langerma bol á tvö þúsund krónur og ákvað að kaupa hann. Þegar ég kom með hann að afgreiðsluborðinu stóð Ragna Björk þar að spjalla við afgreiðslustúlkuna. Þegar ég sagðist ætla að borga þennan bol sagði mín:
„Amma!  þú sagðist bara ætla að skoða“  – Þá sagði ég svona í gríni við afgreiðslustúlkuna að það væri alveg rétt, við hefðum nú upphaflega bara ætlað að skoða meðan við biðum eftir að hún ætti að mæta þarna upp á efri hæðina.

„Já ég veit sagði stúlkan, hún er búin að segja mér allt um það og benti brosandi á Rögnu Björk.  Þá benti mín á ömmu og bætti við með nokkrum tilþrifum:
„Já og hún lofaði sko að hún ætlaði bara að skoða, en svo er hún að kaupa þennan bol“ Afgreiðslustúlkan kom mér þá til varnar og sagði að það væri nú ekki hægt að sleppa því að kaupa svona góðan bol sem kostaði ekki nema tvö þúsund.
Þá hætti mín að skamma ömmu fyrir að standa ekki við orð sín.  🙂

Posted in Ýmislegt | 2 Comments

Skemmtilegur tími.

Núna þegar kominn er sá tími sem öll barnabörnin mín, nema Oddur Vilberg eiga afmæli, þá er vorið að koma þrátt fyrir snjó á jörðu og kuldabola, sem á það ennþá til að bíta mann smávegis.  Sólin hækkar á lofti dag frá degi og gefur þannig til kynna hvað við eigum í vændum.
Nafna mín er búin að eiga afmæli og í dag á hún Karlotta mín afmæli. Hún kom að norðan um s.l. helgi til þess að vera vinnuhelgi með öðrum keppendum í Söngkeppni framhaldsskólanna sem fram fer laugardaginn 5. apríl  og mikið er ég fegin að RUV sendir beint, bæði af forkeppninni klukkan 13:00 og aðalkeppninni klukkan 20:30

Já svona líður tíminn.  Enn eru nokkur afmæli eftir í fjölskyldunni áður en vorar alveg og síðan  boð í nokkrar fermingrveislur.  Það er ekki hægt að segja að það sé nein lognmolla yfir marz/apríl á þessu heimili, svo mikið er víst.  Alltaf svo skemmtilegur tími.

Posted in Ýmislegt | Leave a comment

Gamlingjarnir.

Okkur gamlingjum datt í hug að fara í bíó í kvöld. Myndin var sýnd í Sambíói í Kringlunni, en mörg ár og margir dagar eru frá því við höfum hvort um sig farið í bíó þar og Haukur sagðist aldrei hafa farið í Kringlubíó. Bílnum var lagt við neðri hæðina eins og venjan er þegar farið er í Kringluna. Eitthvað var ég að tauta um að betra væri að leggja á planið hinumegin við húsið, Borgarleikhúsmegin því neðri hæðin væri líklega lokuð á kvöldin. Það var ekkert hlustað á gömlu konuna og fyrsta hæðin skyldi það vera.

Við keyptum miðana í miðasölunni þarna fyrir innan ísbúðina og alla skyndibitastaðina. Tveir miðar á Gamlingjann takk fyrir með gamlingjaafslætti.  Til öryggis spurði ég afgreiðslustúlkuna hvort það yrði opið út að bílastæðinu af neðstu hæðinni eftir sýninguna. – „Nei þar er lokað klukkan átta á kvöldin …“

Gamlingjarnir sáu nú ekki alveg fyrir sér hvernig þeir kæmust aftur í bílinn nema ganga langar leiðir í kringum bygginguna eftir bíó, en þar sem enn var tími, þá var farið aftur til baka niður rúllustigana, fram ganginn og út í bíl og honum ekið hálfhring að efra planinu við Borgarleikhúsið og farið inn bakdyramegin beint inn á rétta hæð. Við náðum í tæka tíð og myndin var alveg eins skemmtileg og bókin.

Þegar myndin var búin paufuðumst við ásamt hinum gamlingjunum út úr salnum nánast í myrkri og vorum loks komin fram á gang. Við vorum heppin að detta ekki, en kona af yngri kynslóðinni datt þarna í myrkrinu á leiðinni og gekk hölt út þegr maðurinn hennar var búinn að reisa hana upp.
Þegar við komum á ganginn virtust allir fara til vinstri, en ég vissi að okkar dyr væru hægra megin.  Við gengum því áfram, en eitthvað fannst okkur það ekki vera eins og þegar við komum því það vantaði skyndibitastaðina og ég mundi ekki eftir að hafa gengið framhjá Bónus þegar við komum. Þetta var mjög undarlegt.  Við nánari skoðun á þessum furlulegheitum, þá áttuðum við okkur á því að það er gengið inn í bíóið af efstu hæðinni en gengið út af hæðinni fyrir neðan . Við urðum því að ganga upp einn stiga til þess að komast út á bílaplanið aftur. Hvílíkt rugl

Börn byrja að fara í bíó í fylgd fullorðinna, en eftir þessa bíóferð þá er greinilegt að svona gamlingjum er ekki treystandi til þess að fara í bíó nema í fylgd ungmenna.

Nú er rétt að koma sér í rúmið – það er gott að maður þurfti ekki að sofa einhvers staðar rammvilltur inni í Kringlu.   GÓÐA NÓTT ♥

Posted in Helstu fréttir., Ýmislegt | 5 Comments

Þrír bræður eftir helgina.

Ég bíð spennt eftir vorinu, sem mér finnst alveg óháð veðri byrja að gera vart við sig eftir bolludag, sprengidag og öskudag, en þeir þrír bræðurnir mæta einmitt eftir helgina. Ekki veit ég hvort þessir dagar eru eins spennandi í dag og þeir voru þegar ég var stelpuskott. Það var mikill spenningur á bolludaginn að fá fallegan bolluvönd, sem stundum var heimagerður en stundum keyptur í bakaríinu. Það var nú svona eitthvað til málamynda sem við flengdum með þessum vendi því ekki vildi maður nú skemma fallega bolluvöndinn sinn, en bollur fékk maður þó alltaf.  Ekki veit ég einu sinni hvort bolluvöndur er ómissandi hjá ungviðinu í dag eða hvort bollurnnar eru bara látnar duga. Það voru fiskibollur í hádegi, rjómabollur í kaffinu og ef ekki var afgangur af fiskibollum þá gjarnan kjötbollur í kvöldmat. Já bollur skyldu það vera þennan dag og ekkert annað. Nú er þetta meiriháttar vesen því svo margir borða ekki lengur neitt með sykri og aðrir ekki neitt úr hveiti og sumir eins og undirrituð notar hvorugt þessara innihaldsefna. En það bjargast nú, því margar góðar uppskriftir eru til fyrir svona vandræðafólk svo allir ættu nú að fá eitthvað við sitt hæfi þrátt fyrir allt.

Svo kemur sprengidagurinn. Þá reynir líka á vandræðafólkið sem ekki má borða of saltan mat og helst ekki baunir.  En stundum verður maður bara að leyfa sér að bregða út af þrönga veginum, sem maður reynir svona til öryggis að feta dags daglega og færa sig yfir á breiða veginn og láta allar öryggisreglur fjúka og taka þá afleiðingunum ef þær verða einhverjar. Saltkjöt, rófur og baunasúpa með reyktu svínafleski skal það vera á sprengidaginn og ekkert múður. Þó maður leyfi sér það nú svona einu sinni á ári að borða saltkjöt 😉  Ég vona að hjartalæknirinn minn sjái ekki þennan póst, en ef svo skyldi þó fara þá lofa ég að drekka vatn, alveg rosalega mikið vatn til þess að skola saltinu fljótt og vel úr líkamanum. Ég þori ekki að lofa því að ég muni bara borða lítið af matnum, því mér var kennt að lofa aldrei öðru en því sem ég gæti staðið við.

Svo er það blessaður öskudagurinn, sem byrjaði alltaf með því að selja Rauðakross merkin um morguninn, en það var nú yfirleitt búið um hádegi.
Öskudagurinn átti sér alltaf nokkurn aðdraganda því það tók tímann sinn að finna tuskubúta, sauma síðan úr þeim öskupoka, draga saman í opið með tvöföldum tvinna og beygja síðan títuprjón sem stungið var í gegnum bandið. Mikið var síðan gaman að fara út á öskudaginn með margar raðir af fallegum öskupokum, hangandi innaná úlpunni sinni. Það mátti auðvitað ekkert sjást í pokana og alls ekki hvað maður hafði í hyggju og varð því að fara mjög laumulega  með þetta. Erfiðast var samt að finna fórnarlömb sem stóðu kyrr á meðan maður hengdi pokann, því allir voru svo varir um sig og enginn vildi ganga um með stóra rósótta öskupoka dinglandi aftan í sér.  Best var ef maður fór með strætó því þá stóð fólk oft þétt og tók þá síður eftir því þó eitthvað kæmi við það. Annars urðu búðirnar í hverfinu að duga.  Þegar ég hugsa um það þá held ég að fólk hafi verið afskaplega hégómlegt þarna í gamla daga því það voru allir svo varir um sig og sneru mikið uppá sig ef krakkar voru nálægt, til þess að fá ekki í sig öskupoka. Í dag held ég að fólk myndi bara hafa gaman af þessu. Við getum hins vegar ekki komist að því hvernig fólk í dag myndi bregðast við, því ég held að það sé alveg hætt að sauma og hengja öskupoka. Það hættu nefnilega að fást títuprjónar sem hægt var að beygja án þess að þeir brotnuðu svo þar með varð þetta eitt af því sem heyrir sögunni til.
Þetta var mjög skemmtilegur tími og skemmtilegast var að vera fleiri saman og hlæja okkur svo máttlaus þegar vel tókst til, eins og þegar einhver fínn kall í frakka með hatt spígsporaði um með öskupoka á bakhliðinni – það var alveg rosalega fyndið 🙂   Það þurfti ekki mikið til að kætast yfir á þessum tíma og dugði okkur oftast að maður væri manns gaman.  Nú eru skipulagðar skemmtidagskrár fyrir börnin þar sem mætt er í búningum. Margir fara niður í bæ, eða láta keyra með sig á milli fyrirtækja til þess að fá gotterí og koma svo heim með fulla plastpoka af sætindum að kvöldi. Sjálfsagt mjög skemmtilegt hvorttveggja, en ég sakna öskupokadaganna.

….. Svo er bara vorið framundan  🙂

Posted in Hugleiðingar mínar | 2 Comments

Lítil þúfa – stór þúfa.

Ég opnaði áðan Kyrrðarsporin mín, sem vildu að ég hugleiddi þennan texta „Hugurinn getur aðeins einbeitt sér að fáeinum hugmyndum í einu og jafnvel þær verða yfirleitt fljótlega óskýrar“.
Þetta skýrir einmitt ástand mitt þessa dagana. Ég hef verið að hugsa um hvað það er leiðinlegt að lát bloggið mitt alveg drabbast niður. Öðru hvoru dettur mér eitthvað í hug, sem ég gæti párað hér inn, en þá er ég oftst ekki heima, kannski í bílnum að keyra, eða einfaldlega ekkert nálægt tölvu – ætla bara að muna að skrá þegar ég kem heim.  Þegar ég kem heim og sest við tölvuna er hugmyndin fokin út í veður og vind. Já, það er eins og búið sé að loka algjörlega öllum aðgangi að heilabúi mínu og ekki möguleiki að fletta neinu upp þar, svo maður starir bara á skjáinn um stund og vonar að það opnist nú smá glufa svo hægt sé að sækja efni í eins og eina færslu, en það heldur áram að vera allt lokað og læst. Þetta er alveg magnaður fjári. Mér finnst aðeins vera að rofa til í augnablikinu svo ég ætla að grípa það sem fyrst kemr í hugann.

Það er nefnilega ekki eins og við höfum ekkert farið eða gert, því veðrið hefur verið svo gott undanfarið að það hefur beinlínis dregið mann út fyrir dyrnar.  Það hefur reyndar ekki viðrað til göngutúra úti, því gatan hér er enn öll glerhjúpuð og göturnar almennt  stórhættulegar. Já, það er magnað hvað þessi fjárans hálka hér í efri byggðum ætlar að vera þaulsætin.  Nú þegar sólin er komin svona hátt á loft þá vona ég að henni takist fljótlega að bræða þennan klaka í burtu svo hægt sé að koma sér út og njóta þess að sjá náttúruna smá vakna til lífsins eftir veturinn. Ég er svo ánægð að heyra í þessum töluðu orðum að rokinu sem nú er úti fylgir rigning og nú vonan ég að að ausrigni í nótt svo stéttar verði auðar á morgun.

Einn sólardginn  skruppum við í bíltúr í sannkölluðu gluggaveðri. Okkur langaði svo til þess að sjá listaverkið „Þúfan“ úti á Granda.  Það var bara logn og sól hérna hjá okkur þegar við lögðum af stað, en þegar við fórum út úr bílnum úti á Granda þá var alveg bálhvasst og norðankuldinn smaug um mann allan. Við gengum þennan spöl að Þúfunni, en þar var kona í kraftgalla að vinna við stórar steinblokkir.  Ég spurði hvort við værum svo heppin að hitta á sjálfan listamanninn þarna. „Nei, nei, hér eru bara við sem vinnum verkið“.  Ég hef alltaf hugsað mér að listamaður að ákveðnu verki komi líka að því að búa það til og fullgera það.  En auðvitað er það ekki alltaf gerlegt, eins og t.d. verkin hans Ólafs Elíassonar, sem eru allt of yfirgripsmikil til þess að hann gæti fullklárað þau sjálfur.  Stundum hugsar maður bara svo skammt.

En, hvað um það þá gengum við einstigið upp á þúfuna og skoðuðum pínulitla hjallinn með skreiðinni sem prýðir toppinn á henni.  Ég var ekki með myndavél, en ætlaði að taka mynd á símann minn, það var hinsvegar svo svakalega kalt að þegar ég tók af mér hanskann gat ég bara ekki notað puttana til þess einu sinni að finna réttu stillinguna svo síminn fór bara aftur í veskið og hanskarnir aftur á hendurnar.  Ég hvet ykkur til þess að fara og skoða þetta listaverk, en ekki í sterkri norðanátt og kulda.  Ég hlakka mikið til þess að fara aftur þegar aðeins fer að koma grænn litur á þúfuna. Ekki veit ég hvort ég myndi þora að fara með ömmutrítlin mín þarna upp, því ekkert er handriðið (myndi ekki passa þarna að hafa slíkt) og brattinn er þó nokkuð mikill. Það er líklega best að fara eftir því sem sagt er í upphafi hér, að heilinn geti bara einbeitt sér að fáum hugmyndum í einu.  Eg ætla ekki sitja hérna og stara á skjáinn í þeirri von að allt í einu sé komin fín færsla á síðuna. Það gerist ekki í þett sinn. Reyndar mundi ég eftir ýmsu meðan ég páraði þetta, en læt það bíða þar til næst – þ.e.a.s. ef  ég verð ekkk búin að steingleyma því aftur.   🙂

Ísland í dag er örugglega í góðum málum, en svona gengur hjá þeirri gömlu í Kópavoginum.

 

Posted in Ýmislegt | 1 Comment

Áhættan í lífinu.

Hafið þið tekið eftir því hvað daginn er að lengja. Þó það snjói og þó það blási, þá finn ég samt að vorið er í nánd.  Ég gjóa augunum hérna út þar sem Haukur geymir húsbílinn sinn og er strax farin að láta mig dreyma um að komast í skemmtileg ferðalög á fallega landinu okkar.  Ég skal játa að ég hef líka aðeins verið að kíkja á  ferðabæklinga sem nánast daglega koma í póstkassann eða birtast í skilaboðaskjóðunni hérna á netinu.  Ég svona renni augunum yfir það, en hvorki ég né Haukur höfum verið neitt sérstaklega spennt fyrir því. Kannski breytist það nú þegar sólin hækkar enn meira og heilsan kemst í gott lag. Best að sjá eftir kannski 6 – 8 vikur hvort ég verð ekki orðin mjög spennt að komast í sól og göngutúra á strönd –  svona til þess að koma heit inn í íslenska sumarið.

Ég opnaði áðan bókina mína um hamingjuna og sá þá þennan texta:

„Gerðu þér raunhæfa grein fyrir því hverju þú færð áorkað. Vertu sáttur við ákvörðun þína og reyndu aldrei að færast of mikið í fang.“

Það er þetta með að „færast of mikið í fang“ sem ég velti fyrir mér þegar ég sá þennan texta. Kannski gerir maður of mikið af því að passa einmitt það, sem hins vegar getur þá endað með því að maður færist of lítið í fang.  Hvílík heilabrot.

Um daginn þegar Oddur Vilberg var að fara upp í Bláfjöll með brettið sitt, en þangað fer hann með strætó í öllum frístundum. Þá spurði amma sem auðvitað hugsar fyrst og fremst um allar hætturnar við þennan hraða, snúninga og stökk uppi í fjöllum með báða fætur fasta á einhverju bretti. „Er ekki stórhættulegt að vera á þessum brettum?“ –
„Amma, ef maður þorir aldrei neinu, þá gerir maður aldrei neitt.“
Humm, jú mikið rétt og auðvitað er mikil hollusta í því að stunda íþróttir uppi í fjöllum í hreinu og tæru lofti, þó áhættan sé einhver. Amma áttaði sig á því á þeirri stundu að hún væri bara hreinn og beinn hræðsluskítur. Það þarf ekki fleiri orð um það.  Kannski amma fari nú að taka meiri áhættu í lífinu svo hún missi ekki af öllu.  Best að halda samt ró sinni. Svo mikið er a.m.k. víst, að amma á ekki eftir að fara upp í fjöll á bretti, en kannski eitthvað annað skemmtilegt.   Hver veit.

Posted in Ýmislegt | 3 Comments

Eftir góða nótt býður maður vitaskuld góðan dag.

Það er hvasst úti og svona hvorki né veður. Stundum fagnar maður svona dögum sem ekki toga í mann að verða að fara eitthvað af því veðrið sé svo fallegt.

Svo fer maður út í bíl og fer bara eitthvað af því veðrið er svo gott og oftar en ekki reynist veðrið síðan bara vera gluggaveður og þegar komið er út úr bílnum t.d. í miðbænum er þar bálhvasst og kuldi því það fylgir jú yfirleitt Nei, það er einmitt svo gott að fá svona daga inn á milli sem eru alveg hlutlausir og gera það jafnan að verkum að mann langar bara til þess að vera heima í rólegheitunum..

Posted in Hugleiðingar mínar, Ýmislegt | Leave a comment